24.02.1948
Neðri deild: 63. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

106. mál, skráning skipa

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta frv., sem er komið hingað frá hv. Ed., og leggur til, að það verði samþ. með þeim breyt., sem fyrir liggja á þskj. 369.

1. breyt. er við 7. gr., 2. málsgr., að fyrir orðin „13. júní 1937“ komi: gildistöku þessara laga. Eins og frv. kom frá hv. Ed., gátu þeir, sem vildu, keypt sér einkarétt á skipsnöfnum, og urðu þá allir þeir, sem höfðu sams konar nöfn á skipum, að leggja þau niður og taka upp ný nöfn, ef þeir höfðu ekki sett nafn á skipið fyrir 13. júní 1937. Þetta taldi sjútvn. óréttmætt og flytur því brtt. á þá lund, að ekki komi þessi eyða inn í rétt manna til að velja skipsnöfn, eins og var í frv., þegar það kom frá hv. Ed.

Að öðru leyti eru brtt. n. eingöngu orðabreytingar. — Það hefur verið tekið upp í frv. úr gömlum l. orðið viðskiptafulltrúi, en það var frá þeim tímum, þegar landið átti enga sendimenn erlendis aðra en viðskiptafulltrúa, og þótti n. því óviðeigandi að nota þetta orð nú og gerir því að till. sinni, að alls staðar þar, sem orðið viðskiptafulltrúi kemur fyrir í frv., verði tekið upp orðalag, sem geti náð yfir alla fulltrúa landsins erlendis á þeim stöðum, sem um er að ræða í frv.

Varðandi síðustu brtt. n. er þar líka raunar um leiðréttingu að ræða, þar sem búið er að breyta málafærslunni þannig, að almenn “lögreglumál eru ekki sérstök, og leggur n. því til, að með mál út af brotum á l. og reglum settum samkvæmt þeim skuli farið að hætti opinberra mála.

Fyrir n. hefur komið brtt. frá hv. 3. þm. Reykv. (HB) um það, að menn gætu jafnframt því að helga sér einstök skipanöfn fengið einkaréttindi á endingum skipsnafna. Þetta taldi n. sér ekki fært að taka upp, þótt einstakir nm. hafi að sjálfsögðu óbundnar hendur við atkvgr. um brtt. Mér er kunnugt um, að þessi brtt. hefur áður legið fyrir Alþ. í sérstöku lagafrv., en þá taldi n. sér heldur ekki fært að flytja þessa brtt. og þótti of langt gengið, ef menn gætu helgað sér sameiginlegar endingar á nöfnum fyrir skip sín.