24.02.1948
Neðri deild: 63. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

106. mál, skráning skipa

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. sjútvn. minntist á, flyt ég hér á þskj. 375 brtt. við frv. til l. um skráning skipa, um það, að 1. málsl. 2. málsgr. 7. gr. frv. orðist þannig: Nú vill eigandi skips tryggja sér, að önnur skip verði eigi samnefnd skipi hans, eða taka upp samnefni skipa sinna, t.d. sameiginlegar endingar í nöfnum, og skal hann þá senda beiðni um það til skipaskráningarskrifstofunnar, sem gelur heimilað nafntökuna.

Út af þessu vil ég segja það, að 2. málsl. 7. gr. ofangreinds lagafrv. er að mestu tekinn orðréttur upp úr l. frá 13. janúar 1937 viðvíkjandi skráningu skipa. En þau h urðu þannig til, að með bréfi, dags. 8. marz 1937, sendi Eimskipafélag Íslands h/f sjútvn. hv. Nd. Alþ. frv. til téðra l. með þeim tilmælum, að n. flytti frv. þá á þ. 1937. N. varð við þessum tilmælum, en gerði þó eina breyt. á frv. Eimskipafélagsins, þannig að felld voru úr því orðin: „eða taka upp samnefni skipa sinna, t.d. sameiginlegar endingar í nöfnum“. En með þessu ákvæði hafði félagið ætlazt til að fá vernd fyrir fossanöfn skipa sinna, en afleiðingin af því, að þetta fékkst ekki, hefur orðið sú, að ýmiss konar glundroði og misskilningur hefur oft orðið í sambandi við upplýsingar um skip, sem heita nöfnum, er enda á foss, þótt þau skip eða bátar hafi ekki verið í eigu Eimskipafélagsins.

Eins og mönnum mun kunnugt, er það algeng venja í flestum öðrum löndum, að skipafélög láti skip sín heita nöfnum, er öll hafi sömu endingar, til að aðgreina þau frá skipanöfnum annarra félaga, og njóta þau fullrar verndar varðandi skipanöfn sín. — Í þessari brtt. er engin önnur breyting fólgin en sú að bæta inn í frv. þeim orðum, sem upphaflega stóðu í frv. Eimskipafélagsins, og að sjálfsögðu er ekki ætlazt til þess, að krafizt verði breytinga á þeim skipanöfnum, sem þegar hafa verið löglega skráð. Ég býst við, að á sínum tíma hafi þarna ráðið nokkru um, að þessi vernd fékkst ekki fyrir fossanöfn Eimskipafélagsins, að það hafi verið mótorbátar og önnur skip, sem hafi heitið nöfnum, er enduðu á foss, eða hafi heitið algerlega sömu nöfnum og Eimskipafélagsskipin. Vil ég þessu til frekari áréttingar t.d. minna á það, að á stríðsárunum, þegar einhverju skipi hlekktist eitthvað á eða var saknað, er hét fossanafni, — jafnvel mótorbát — hefur slíkt oft valdið ástæðulausum ótta, því að þeim var þá ruglað saman við skip Eimskipafélagsins.

Þetta eru aðalröksemdirnar, sem ég flyt fyrir þessari brtt., og vil ég endurtaka, að það er alls ekki ætlazt til þess, að nokkur sá, sem á skip eða bát með fossanafni í dag, breyti því, en hins vegar er þetta aðeins miðað við framtíðina.

Ég læt svo útrætt um þetta atriði, þar eð ég býst við, að hv. d. skilji, hver tilgangurinn er með þessari brtt., en hann er aðeins sá að tryggja stærsta eimskipafélagi okkar, sem hefur tekið upp þá sömu reglu og flest skipafélög erlendis að hafa sömu endingar á skipsnöfnum sínum, vernd fyrir nöfnin, og ég vænti þess, að hv. d. geti fallizt á þessa brtt.