28.10.1947
Neðri deild: 9. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

45. mál, búfjárrækt

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var flutt hér á síðasta þ. af landbn. Nd. Var því þá vísað til landbn., en henni vannst ekki tími til að vinna að málinu, enda var þá komið að þinglokum. Nú er frv. enn flutt af landbn., og treystir hún því, að hæstv. Alþ. vilji greiða götu þess máls, sem frv. fjallar um.

Þegar frv. var lagt fyrir hv. þd. s.l. vor, gerði þáv. frsm. n. grein fyrir höfuðatriðum frv. í mjög ýtarlegri ræðu. Sé ég ekki ástæðu til að endurtaka þá ræðu, en vil aðeins minna hv. þd. á það, að 4 kaflar frv. af 9 eru nýmæli í búfjárrækt, þ.e. kaflinn um svínarækt og alifuglarækt, kaflinn um sæðingu búfjár, kaflinn um ræktun erlendra búfjárkynja og blöndun þeirra við innlent búfé og að lokum kaflinn um starfsemi héraðsráðunauta í búfjárrækt. Í öðrum köflum frv. eru einnig æði mörg nýmæli. Þetta, sem hér hefur verið drepið á, tel ég nokkra bendingu um, að tímabært sé að taka búfjárræktarlöggjöfina til meðferðar og endurskoðunar, og eins og eðlilegt er, hljóta alltaf að vera skiptar skoðanir um einstök atriði, sérstaklega þegar um nýmæli er að ræða. Ég vil ekki draga neina dul á það, að svo er einnig í n., og hafa nm. áskilið sér rétt til þess að bera fram og fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv. Það er og rétt í þessu sambandi að geta þess, að þessari löggjöf, ef frv. verður að l., fylgir nokkur aukinn kostnaður frá því, sem verið hefur, og ber einnig að taka til athugunar, hvernig bezt yrði ráðið fram úr slíku.

Ég vænti þess, að hv. d. og Alþ. í heild telji þetta mál svo mikils virði, þar sem það snertir meginþátt annars aðalatvinnuvegar þjóðarinnar, að það sjái sér fært að velta málinu þann stuðning, að það nái fram að ganga, og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. Til n. þarf ekki að vísa því, þar sem það kom frá nefnd.