10.12.1947
Neðri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í B-deild Alþingistíðinda. (1469)

45. mál, búfjárrækt

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Ég þakka fyrir þessar aths. hv. þm. Ísaf. (FJ). Þær komu mér hreint ekkert á óvart, en allt þetta er í gömlu l., sem hann talaði um. Og ég held, að við séum búnir að leiðrétta töluvert mikið til réttara máls það, sem í þeim stóð. En sannast að segja var ég orðinn svo þreyttur á að gera þær breyt., að ég var farinn að kveinka mér við því, nema það, sem nauðsynlega þyrfti að gera, svona smávegis, af því að það hefur staðið svona í l. í mörg ár. Ég tek það fúslega fram, og ég býst við, að ég geri það fyrir hönd n., að ég skal athuga þetta. (SigfS: Hvaða skepna er það, sem heitir „árskýr“?) Það er kýr, sem er mjólkandi allt árið. Þetta er orð, sem notað er hjá félögunum, og við höfum ekki viljað breyta þessu orði, af því að það hefur verið notað í svo langan tíma. Það mundi rugla að fara að breyta því, þó að ég játi fúslega, að nafnið sé ekki sérstaklega heppilegt. En viðvíkjandi þessu auragjaldi, sem mér virtist hv. þm. Ísaf. hálfhneykslast á, eða a.m.k. taldi, að mætti koma öðruvísi fyrir, vildi ég benda á, að þetta er gjald, sem notað er til viðmiðunar, af því að þeir, sem í búnaðarfélögunum eru, leggja jafna upphæð á móti, sem er miðuð við þetta. Það má vel segja, að það mætti koma þessu á annan veg fyrir. En þetta hefur gilt svona mikið á annan áratug, og við sáum ekki ástæðu til að breyta þeim ákvæðum, af því að engar óskir hafa komið fram um það.