18.12.1947
Efri deild: 39. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (147)

122. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Þetta litla frv. var afgr. frá hv. Nd. núna áðan. Vonast ég til þess, að hæstv. forseti þessarar d. og þessi hv. þd. láti það njóta sama velvilja og það naut í hv. Nd. við afgreiðslu þar. — Frv. þetta er um að framlengja í mesta lagi um eins ára bil þau litlu hlunnindi, sem Færeyingum voru veitt í sambandi við íslenzka landhelgi á s. l. ári. Ég held nú, að þessi réttindi séu tiltölulega lítils virði, a.m.k. ekki til stórs skaða fyrir okkur Íslendinga. Og ég held, að það væri beinlínis óheppilegt fyrir málefni landsins, ef heimild þessi, sem hér er um að ræða, væri felld niður og Færeyingum þannig ekki heimilað að njóta þessara litlu hlunninda, sem um er að ræða, meðan samningar við Dani standa yfir um nokkur smáatriði í sambandi við fullnaðarskilnað landanna. Það hafði verið ráðgert, að þeim samningum yrði lokið nú í haust s.l. En svo var það, að þeir menn, sem í samninganefndinni voru, áttu ekki heimangengt, þegar samningarnir skyldu upp teknir, og var þá Jakob Möller sendiherra falið að annast samningana fyrir Íslands hönd, — og í öðru lagi urðu kosningar í Danmörku og síðan stjórnarkreppa, sem ég geri ráð fyrir, að hafi tafið málið af Dana hálfu. Þessir samningar eru þess vegna nýbyrjaðir, og þeim verður ekki lokið fyrir næstu áramót. — Ég held, að það yrði ekki okkar málefnum til framdráttar í sambandi við þessa samninga, sem ég hygg, að séu þó ekki ýkja þýðingarmikil í þessu sambandi, ef hlunnindi Færeyinga, sem vísað er til í frv., féllu niður, meðan á samningaumleitunum þeim stæði, sem ég gat um. Frv. þetta er ákaflega einfalt. Það er eingöngu um að framlengja þá heimild um eitt ár, sem ríkisstj. hefur í þessu efni. Tel ég, að ekki sé þörf á, að n. athugi þetta mál hér frekar en í hv. Nd. Legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr.