19.02.1948
Efri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1046 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

45. mál, búfjárrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Hér er nú rætt um að breyta l., er sett voru árið 1931 og eru því orðin 17 ára gömul. Þeim hefur lítið verið breytt frá upphafi, og sú breyt., sem nú er lagt til, að gerð verði, er eiginlega fyrsta breyt., sem máli skiptir.

Ég geri ráð fyrir, að þm. séu þessum lögum svo kunnugir, að ekki þurfi að fara langt út í þau. En þess vil ég þó geta, að það var búnaðarþing, sem gerði till. til breyt. á þessum l. Þær breyt. gengu út á það fyrst og fremst að hækka ýmis framlög, sem greidd eru úr ríkissjóði samkvæmt þessum l., og á hinn bóginn var gert ráð fyrir framlögum til nýrra framkvæmda. Nd. hefur breytt frv. mikið, hækkað ýmis framlög ríkissjóðs, og nú tala ég um frv. eins og það kemur frá Nd.

Ég bendi þá fyrst á þær breyt., sem verða til þess að létta á ríkissjóði. í fyrsta lagi var felldur niður styrkur til hrossaræktarfélaga, kr. 1.50 á hryssu, og í öðru lagi var felld úr l. heimild til að veita fé (5000 kr. á ári) til að efna til samkeppni milli búa um það, hvert þeirra væri arðvænlegast rekið, en styrkur þessi hefur aldrei verið notaður. Í þriðja lagi var kaupastyrkur á graðhesta lækkaður verulega, og loks var ákveðið, að hrossasýningar skyldu ekki vera nema fjórða hvert ár, í staðinn fyrir þriðja hvert ár áður. — Þetta eru nú þau atriðin, sem draga úr útgjöldum ríkissjóðs í sambandi við framkvæmd þessara laga.

Hin atriðin, sem hækka hins vegar útgjöldin, eru þau, að gert er ráð fyrir styrk til sæðingar- og nautauppeldisstöðva, en það eru hvort tveggja nýir liðir, sem ekki hafa komið til framkvæmda hér á landi áður. Enn fremur framlög til héraðsráðunauta. Hvort vegur nú meira í framkvæmd, lækkanir eða hækkanir þær, sem verða á framlögum ríkisins vegna fyrrnefndra breyt. á þessum l., er ekki svo gott að segja að svo stöddu, og ég vil því ekki leggja neinn dóm á það. Það fer eftir því, hver þróunin verður. Ef sæðingarstöðvum fjölgaði t.d. mjög ört, gæti það orðið mikill útgjaldaliður. En eins og stendur, held ég, að útgjöld og sparnaður ríkissjóðs vegna breytinganna, sem nefndar hafa verið, vegi nokkuð jafnt.

Landbn. þessarar hv. d. hefur nú gert 16 brtt. við þetta frv. eins og það kom frá hv. Nd., og eru þær prentaðar á þskj. 354. Þessar brtt. eru minni en ætla mætti fljótt á litið og miða að því í heild að lækka útgjöld ríkisins vegna framkvæmdar laganna.

1. brtt., sem er við 1. gr., er efnislega nokkuð mikilvæg og er í því fólgin, að þegar búnaðarfélag setur sér nautgriparæktarsamþykkt, eftir að kosin hefur verið nautgripakynbótanefnd, eða stofnað er sérstakt nautgriparæktarfélag, þá fellur starf n. niður. Nú sýndist ýmsum á búnaðarþingi, að það væri mikið þarfamál að láta slík félög fá vald yfir nautgriparæktinni og örva stofnun þeirra, og þó að við nm. metum þetta, þá getum við ekki verið með því að fá minni hluta kýreigenda valdið í hendur. Þess vegna bættum við inn orðunum: „sem í er meiri hluti kýreigenda.“ Það er meiri hlutinn, sem jafnan á réttinn í hverju lýðræðislandi, og metum við engu að síður hinn góða vilja búnaðarþings.

2. brtt. okkar er við 6. gr. og í tveimur liðum, a og b. Með a-lið er aðeins lagt til, að breytt verði í sama horf og áður var, að láta menn greiða hálfan nautstoll fyrir kýr, sem ekki halda, og jafna þessu þannig niður, en þannig var ákveðið í gömlu l., en í frv. er lagt til, að enginn nautstollur skuli greiddur, ef kýr halda ekki. — Síðari breyt. á þessari gr., b-liður, er í því fólgin, að kynbótanefnd ráði því ekki ein, hvernig nautstollurinn er greiddur. Henni er gefin heimild áfram til að láta menn greiða hann í fóðri eða heyi að nokkru eða öllu leyti, en það skal þó því aðeins gert, að það sé samþykkt með meiri hluta atkvæða allra kýreigenda.

3. breyt. er óveruleg orðabreyt., sem engu máli skiptir.

4. brtt., sem er í fjórum stafl., er við 13. gr. Þá er fyrst a-liður. Þar er einungis um leiðréttingu að ræða, sem stafar af því, að samkvæmt upphaflega frv. átti að halda nautgripasýningar fimmta hvert ár í hverju búnaðarfélagi og sýningarsvæðin vera fimm, en svo var þessu breytt í fjórða hvert ár, og liggur þá beint við að leiðrétta tölu svæðanna og ákveða einnig fjögur svæði í stað fimm, og er þá sýnt þetta árið á þessu svæði og annað árið á hinu, eða fjórða hvert ár á hverju svæði fyrir sig. Ég geri ráð fyrir því, að það hafi verið fært fram með því að halda sýningar fjórða hvert ár, að kvartað hafi verið undan því, að sýningarnar væru of strjálar. En nú er gengið á móts við það sjónarmið. Ég tel fullt í lagt að halda sýningu í hverju búnaðarfélagi fjórða hvert ár, jafnvel þó að ferðazt sé á milli í bil, en ég tel það þó hægt, og því er ég ekki á móti þessari breyt., enda er hún gerð samkvæmt mjög almennum óskum. B-liður er um það, að veitt séu 3. verðlaun á naut. Ég viðurkenni, að þetta er ósköp lítils virði þar, sem nautgriparæktarfélög eru búin að starfa lengi. [Ræðunni frestað um stund].

Ég var kominn að því að tala um b-lið 4. brtt. Ég sagði, að það væri eftir frv., eins og það kom frá Nd., ekki ætlazt til, að veitt væru 3. verðlaun á naut. En á þeim svæðum, þar sem eru ný félög, er oft óhjákvæmilegt að veita nautum 3. verðlaun, og þótti okkur því rétt að halda því, og þess vegna er það tekið upp aftur með b-lið eins og þetta hefur alltaf verið frá því l. voru búin til.

C-liðurinn er ekki önnur breyt. en sú, að 1. verðlaun á naut eru lækkuð úr 180 kr. í 150 kr., og er það gert til að lækka kostnað ríkissjóðs af framkvæmd l.

D-liðurinn er ekki annað en að það er tekið upp, sem alltaf hefur verið, en hefur fallið niður í frv., að kúm eru veitt 1., 2. og 3. verðlaun.

Þá er 5. brtt., við 16. gr., að 2. málsgr. falli niður. Hún er að vísu um ákvæði, sem alltaf hefur verið í l., þ.e., að einstökum mönnum sé heimilt, ef þeir halda skýrslur, að fá sams konar styrk og sauðfjárræktarfélög. Þessi heimild hefur ekki verið notuð þann tíma, sem l. hafa staðið, og við sáum því ekki ástæðu til þess að halda þessari heimild og leggjum því til, að hún falli niður.

6. brtt. er orðalagsbreyt., sem ekki raskar á neinn hátt efni gr., og þarf ekki annað um hana að segja.

7. brtt. er í tveimur liðum, a og b. B-liðurinn er orðalagsbreyt., en a-liðurinn er töluverð efnisbreyt. Eins og frv. kom til n. er gert ráð fyrir því, að meiri hluti hrossaeigenda í þeim hreppi, sem um er að ræða, ráði því, hvort þeir stofna hrossakynbótafélag eða ekki. Brtt. okkar felur það í sér að láta þetta ekki vera svo, heldur láta það vera „meiri hluta hrossaeigenda, sem hafa jörð til ábúðar“. Þetta er byggt á því, að í mörgum sveitum landsins á hvert mannsbarn hross. Að gefa þeim öllum atkvæðisrétt um það að mega stofna hrossakynbótafélag, fannst okkur ekki rétt, og þess vegna settum við það inn, að eingöngu þeir hrossaeigendur, sem hafa jörð til ábúðar, skuli hafa þennan atkvæðisrétt.

8. brtt. við 27. gr. er viðvíkjandi því ákvæði l., ef kynbótahestur er í óskilum. Eins og frv. kom frá Nd., þá er þetta ákvæði þannig, að heimilt er að taka stóðhest, sem er í óskilum og merktur er með bókstöfunum K eða LK, en það þarf ekki að gera annað við hann en auglýsa hann í útvarpinu, og ef eigandi gefur sig ekki fram innan hálfs mánaðar, má fara með hann sem óskilafé. Okkur þótti dálítið viðurhlutamikið að láta útvarpið vera þarna eina aðilann. Við vildum þó ekki skylda til að auglýsa í Lögbirtingablaðinu, eins og áður, því að það er seinvirk leið og ekki allir, sem lesa það, og fórum þess vegna inn á þá leið að skylda manninn, sem tók hestinn, til þess að tilkynna nærliggjandi sýslumönnum hestinn og hvaða mark sé á honum, og er þá sýslumönnum skylt að tilkynna markeiganda um hestinn. Jafnframt skal hesturinn auglýstur í útvarpi og eigandi gefa sig fram innan hálfs mánaðar, eins og áður var.

10. brtt. við 39. gr. er mikil breyt. frá því, sem var í frv. Í gömlu l. var svo ákveðið, eftir að breyt. var gerð 1942, að halda skyldi hrossasýningar í hverjum hreppi. Hins vegar komu svo héraðssýningar í sýslum, og á þær kom það bezta af hreppasýningunum. Eins og frv. kom frá Nd., var gert ráð fyrir, að sýningarstaðirnir yrðu 8 í landinu og aðrir sýningarstaðir yfirleitt ekki. Þó var sett inn heimild um það, að annars staðar mætti halda sýningar, ef Búnaðarfélagið vildi. Þetta þótti okkur misráðið. Í fyrsta lagi misráðið að ákveða sýningarstaðina ekki fleiri en þetta, en ætla sveitarstjórnunum að óska sýninga. Hins vegar þótti okkur ekki rétt að fella niður fyrstu sýningarstaðina, þar sem eru ótal hrossaræktarfélög, og látum þess vegna 5 sýningarstaði halda sér óbreytta og skuli sýningar vera haldnar þar fjórða hvert ár, en jafnframt skylduðum við Búnaðarfélagið til að halda sýningar á fleiri stöðum, ef þess er óskað.

11. brtt. er um það að lækka verðlaun, sem veitt eru á sýningum til hrossa, þ.e. að lækka 1., 2. og 3. verðlaun og 3. verðlaun á stóðhestana. 1. verðlaun á hryssu lækka úr 30 kr. í 25 kr., 2. verðlaun á hryssu lækka úr 20 kr. í 15 kr., 3. verðlaun á hryssu, lækka úr 10 kr. í 7 kr., 3. verðlaun á stóðhest lækka tír 40 kr. í 30 kr.

12. brtt. við 44. gr. gengur til á það að marka skýrar en gert er í gr., hvernig þau afkvæmi eiga að vera, sem fylgja hestinum, sem fær heiðursverðlaun.

13. brtt. lækkar verðlaun á afkvæmasýningum, og þarf ekki frekar um það að tala. B-liður 13. brtt. er bara breyt. á einu orði, sem þótti betur fara. Í stað orðsins „niðjanna“ komi: þeirra.

14. brtt. er um sæðingarstöðvastyrkinn, og af því að hann er alveg nýr, getur verið ástæða til að fara um hann nokkrum orðum.

Þegar búfjárræktarl. voru sett, var að vísu vitað, að á einstaka stað í heiminum var farið að gera tilraunir til þess að ná sæði úr karldýrum og frjóvga með því kvendýr, en praktískt séð var þetta ekki komið neitt út í lífið. Síðan hafa þær breyt. orðið, að þetta hefur breytzt óðfluga, og á s.l. ári voru 2/s hlutar af kúm í Danmörku sæddir og enn þá stærri hluti í Rússlandi, og sama var með fleiri tegundir búfjár. Hér á landi byrjaði þetta í Eyjafirðinum. Á s.l. ári voru sæddar þar 1900–2000 kýr. Það er nú álitið, eftir reynslunni í Eyjafirði og eftir því, sem menn geta gert sér hugmynd um, hvað slíkar stöðvar kosti, að það kosti um 170–180 þús. kr. að koma þeim upp, og að reka þær kosti mikið fé. Það kostar a.m.k. laun þriggja manna og rekstur þriggja bíla o.fl., svo að reksturinn kæmi til með að kosta 150–190 þús. kr. Ef það er gert ráð fyrir, að slík stöð sæddi 2000 kýr, þá sést, að það er dýrt á hverja kú, — 60–80 kr. Eins og frv. kom frá Nd., var lagt til, að rekstrarstyrkurinn yrði 2 kr. á hverja sædda kú, en við hækkuðum það upp í 3 kr., en látum halda sér 4000 kr. hámarkið, sem stöðin getur fengið í rekstrarstyrk, svo að þessi styrkur getur aðeins komið til greina meðan stöðin er að koma undir sig fótum, en þegar hún er komin af stað og farin að sæða, getur styrkurinn komizt niður í tveggja kr. hámark á kú miðað við 4000 kr.

Ég geri ráð fyrir því, að enginn hlutur, sem enn hefur verið gerður hér á landi til kynbóta á búfé, muni verka eins fljótt og sæðingin, og ég geri mér vonir um, að þetta ákvæði í þessum l., sem er alveg nýtt, sé kannske það ákvæði, sem mest og fljótast muni verka til umbóta í búfjárrækt okkar. Þetta gildir ekki aðeins um kýr, heldur allar skepnur, sem fá sæðingu.

15. brtt., við 68. gr., er eiginlega leiðrétting. Og síðasta brtt., 16. brtt. við 73. gr., er leiðrétting á einu orði í þeirri gr.

Það má vel vera, að ég hafi ekki skýrt nægilega fyrir mönnum þær breyt., sem Nd. gerði á frv., en eins og ég sagði í byrjun ræðu minnar, voru þær fólgnar í því að hækka yfirleitt þau framlög, sem eftir l. átti að greiða úr ríkissjóði. Við höfum lækkað þetta aftur og fært það í líkt horf og áður var, og er það ekki fyrir það, að við teljum ekki nauðsynlegt að hafa framlögin hærri, heldur fyrst og fremst fyrir það, að við sjáum erfiðleika ríkissjóðs á því að láta búfjárræktarl. kosta meira en þau hafa kostað.

Ég sé svo ekki ástæðu til að tala meira um þetta. Ég get getið þess út af sæðingarstöðvastyrknum, sem er stærsti nýi útgjaldaliðurinn í l., að það er áhugi fyrir að koma upp sæðingarstöðvum á 2 eða 3 stöðum í landinu. Eins og ég sagði, er slík stöð komin í Eyjafirði og gengur vel að öðru leyti en því, að hún er dýr, en hún hefur engan starfsstyrk fengið. Það er talað um að koma upp sæðingarstöð í Borgarfirði, annarri í nánd við Rvík og einni á Suðurlandsundirlendinu. Þó að þetta sé ákaflega þarft málefni, þá hef ég ekki neina trú á því, að sæðingarstöðvar komist upp í náinni framtíð, þær þurfa undirbúning. Ég þori að fullvissa menn um, að það mun líða 1–2 ár þangað til næsta sæðingarstöð verður reist hér í Rvík eða Borgarfirði, og þó líklega fyrr í Borgarfirði. Og þangað til stöð kemur upp í Árnessýslu hlýtur að líða langur tími, af hvað mikilli góðvild sem málinu yrði tekið af fjárhagsráði og öðrum, sem ráða yfir gjaldeyrinum. Svo að menn þurfa ekkert að óttast, að kostnaðurinn við l. fljóti upp úr öllu valdi á næstu á rum.