19.02.1948
Efri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

45. mál, búfjárrækt

Gísli Jónsson:

Þetta er töluvert umfangsmikið mál, eins og sést af ræðu hv. frsm., sem hefur drepið á margt í sambandi við málið. Þetta mál er búið út af Búnaðarfélagi Íslands í samráði við búnaðarþing, og ég geri ráð fyrir, að það sé eitt af meginatriðunum fyrir því, að ætlazt er til, að þm. ekki einasta fylgi málinu, heldur kannske verji ekki svo litlu af tíma sínum til þess að gagnlesa og gagnrýna ýmis ákvæði frv., bera þau saman við gildandi l. o.s.frv., enda er það ekki óeðlilegt, þegar mál kemur frá slíkri stofnun. Í sambandi við þetta vil ég benda á það, að undirbúningurinn er ekki betri en það, að eftir að málið kemur frá búnaðarþingi, hefur það gengið í gegnum þann hreinsunareld, að á því hafa verið gerðar stórkostlegar breyt. í Nd., og eftir að það kemur frá Nd., verður að gera á því miklar breyt. í Ed. eftir till. hv. landbn. Svo að það virðist sem hér hafi ekki verið gengið frá þessu máli eins og vera skyldi af búnaðarþingi á sínum tíma. Vaknar þá sú spurning, hvort ekki sé rétt að láta málið ganga á ný til búnaðarþings, eftir að allar þessar breyt. eru gerðar, því að það er sannarlega ekki tekið tillit til allra tillagna búnaðarþings í þessu máli. Eigi það að vera aðalsjónarmiðið í þessu máli, að það sé undirbúið af búnaðarþingi í hendur þingsins, þá skilst mér, að hér skjóti mjög skökku við um undirbúning málsins frá því, sem hefði mátt búast við. Þess er hins vegar ekki að vænta, að þm. almennt geti sett sig inn í svo umfangsmikið mál sem hér er á ferðinni á þeim tíma, sem gefst til starfa á þingfundum við umr. Ég hefði því gjarnan viljað heyra frá hv. frsm., hvort stjórn Búnaðarfélagsins er sammála þessu og hvort það var ekki eindreginn vilji búnaðarþings, að málið næði fram að ganga eins og það var þar sett fram. Ég sé á þskj. 353, að hv. landbn. hefur rætt málið við ráðunauta í búfjárrækt, en mér finnst, að stj. Búnaðarfélagsins og búnaðarmálastjóri hefðu átt að láta fylgja þessu hér einhverja grg., þegar vitað er, að farið er töluvert frá þeim óskum, sem gerðar voru á búnaðarþingi.

Ég vil þá benda á nokkur atriði í sambandi við grg. við frv., og vegna þess að ég sé ekki á nál. frá landbn., að það sé tekið skýrt fram, hvað af þessu hefur breytzt, þá verð ég að óska eftir upplýsingum frá hv. frsm. um það, hvort ég hef skilið þessi atriði rétt. — Á blaðsíðu 16 er það nýmæli, að gefin er heimild til að styrkja nautgripauppeldisstöðvar og nautahald í sambandi við sæðingarstöðvar. Þá hafa 1. verðlaun á naut verið hækkuð úr 100 kr. í 300 kr. Vegna þess að ég hef ekki tíma til að bera saman öll þskj., vildi ég gjarnan heyra, hvort þessum óskum hefur verið mætt. Annars vegar segir í kaflanum um sauðfjárrækt, að styrkur á ær í sauðfjárræktarfélögum sé hækkaður úr 50 aurum upp í 1 kr. Hér skilst mér, að sé hækkað um 100%. Mér er sagt af landbn.manni, að hér sé verulega breytt verðlagsákvæðum á alla styrki, sem ekki voru áður í l., og vildi ég gjarnan fá að vita, hvort það er rétt og hve miklu sú upphæð nemur. —Þá segir hér einnig: „Enn fremur er tekið upp ákvæði um styrk til að greiða fyrir því, að úrvals hryssur verði leiddar til úrvals graðhesta.“

Hv. frsm. lýsti yfir því, að það lækkaði mikið styrkurinn til hrossaræktar, enda tekið fram á bls. 17, að þessi kostnaður sé ákveðinn 4 aurar á hvert hross, en að því tilskildu, að ríkissjóður greiði þar á móti 20 aura á hvert hross. Í sambandi við þetta mál vildi ég spyrja um það, hve mikil upphæð yfirleitt er greidd til þessara mála í landinn nú. Það er vitað, að í landinu munu vera um 40000 hross, og það er einnig vitað, að þessi hrossaeign er að verða plága í landinu. Fyrst og fremst er þetta að verða plága á beitilönd bændanna. Í öðru lagi hefur viðhorfið í þessum efnum breytzt stórkostlega. Áður var notað mjög mikið af hrossum til flutninga í langferðum, dráttarhestar o.s.frv. Nú nota menn „jeppa“ og dráttarvélar í stað hrossa, og kunnugir segja, að það mundi mega fækka hrossum að skaðlausu niður í 10000. Auk þess er vitað, að þessi hluti bústofnsins íþyngir óskaplega þeim bændum, sem lífa eingöngu á sauðfjárrækt, og lamar stórkostlega markaðinn fyrir sauðakjöt innan lands. Ég vildi mjög biðja hv. frsm. að upplýsa þetta atriði og hins vegar að taka til athugunar, hvort ekki er rétt að gera nú þegar veruleg átök til þess að takmarka aukningu hrossa í landinu, þó fyrst og fremst á þann veg að takmarka styrki til uppeldis hrossa eða hrossaræktar. Ég skal viðurkenna, að það gæti verið hagkvæmt að rækta sérstaka tegund hrossa fyrir skemmtiferðafólk, þ.e.a.s. reiðhesta. Einnig getur verið nauðsynlegt að hafa eitthvað af dráttarhestum, en miklu minna en gert er ráð fyrir.

Nú segir hér í grg.: „Þrátt fyrir breyt. á þessum kafla munu útgjöld ríkissjóðs lítið sem ekkert hækka og verða fastbundin ákveðnu hámarki miðað við hrossafjölda í landinu.“

Hv. frsm. hefur lýst, að frá hans sjónarmiði muni þetta ekki verða, og væri þá fróðlegt að vita, hvað það gæti lækkað, ef farið væri inn á að kippa þessu í liðinn á hverjum tíma, eftir því sem nauðsynlegt þætti.

Þá er hér nýr kafli um svína- og alifuglarækt, og væri fróðlegt að fá að vita, hvað sá kafli kemur til með að kosta í framkvæmd. Það segir hér, „að útgjöld samkvæmt þessum kafla verði engin fyrr en ráðinn hefur verið ráðunautur á þessu sviði, en þá er hægt fyrir Búnaðarfélag Íslands og landbrh. að stilla í hóf öllum útgjöldum vegna starfseminnar eftir ástæðum.“ — Ég veit ekki, hvað er meint með þessu, hvort það á að leggjast alveg á vald landbrh. og Búnaðarfélagsins, og þá verð ég að segja, að ef ekki er haldið betur þar utan um en við landbúnaðardeild Atvinnudeildum háskólans, eru það ekki lítil útgjöld fyrir ríkissjóð. Það má ekki taka þessi orð mín þannig, að ég sé á móti því að setja upp þessa nýju atvinnugrein í landinu. Ég álít, að verja eigi fé til hverrar þeirrar starfsemi í landinu, þar sem 1 kr. gefur 2. Hins vegar á ekki að gera það þar, sem 1 kr. gefur ekki nema 50 aura. Ég hef heyrt hv. frsm. ræða þetta mál í sambandi við annað mál, þar sem hann hefur lagt megináherzlu á, að hægt væri að upplýsa, hver kostnaðurinn yrði. Ég vænti þess því, að hann taki því ekki með neinni andúð, þó að ég geri þá kröfu til hans sem þm. og sem sérstaklega kunnugur þessum málum, að hann gefi upplýsingar um þetta atriði.

Svo er kaflinn um sæðingu búfjár. Hann þarf ekki mikið að ræða, því að hv. frsm. hefur skýrt það mál nákvæmlega. Ég er honum sammála um, að þetta er ákaflega merkilegt mál, og það ber að sjálfsögðu að stefna að því, að þessu verði komið á, og skal ég ekki ræða um það atriði.

Svo kemur eitt atriði, sem mér skilst, að sé enn þá í l. Það eru hin nýju embætti, sem verið er að stofna í héruðunum. Ég sé, að það er ætlazt til, að búfjárræktarráðunautar séu að hálfu leyti launaðir úr ríkissjóði. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að þetta sé ekki nauðsynlegt mál. Hins vegar vildi ég gjarnan heyra um það, hvað þessir ráðunautar eiga að vera margir og hvað þetta muni kosta ríkissjóð. Hér stendur að vísu: „að það sé bændum nauðsynlegt, að starfandi séu búfjárræktarráðunautar innan búnaðarsambandanna til hjálpar, leiðbeininga og eftirlits á þessu sviði, því að búfjárræktarráðunautar Búnaðarfélags Íslands komist ekki yfir allt það starf.“ Það er vitað, að búfjárræktarráðunautar Búnaðarfélagsins hafa verið árum saman í allt öðrum störfum en þeir eru ráðnir til, og það hefur gengið svo langt, að fjvn. hefur orðið að þvinga Búnaðarfélagið til að láta þessa menn hætta þessum aukastörfum eða láta þá fara í einfaldari störf. Það má t.d. benda á, að hv. 1. þm. Skagf. (StgrSt) sat heilt ár í nýbyggingarráði, og ég hygg, að hv. frsm. hafi varið miklu af starfstíma sínum til að vinna allt önnur störf en í þágu Búnaðarfélagsins. Og það er síður en svo, að hann sé einn um það af búfjárræktarráðunautunum. Það má benda á landnámsstjóra og Halldór Pálsson.

Ég vil því gjarnan heyra nokkru nánar um þetta atriði, hvað þetta muni kosta, hvað ætlazt er til, að ráðunautar verði margir á launum o.s.frv.