19.02.1948
Efri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

45. mál, búfjárrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Hv. þm. Barð. (GJ) þótti málið heldur illa undirbúið, af því að Nd. gerði við það brtt., og var hann að tala um, að búnaðarfélagsstjórnin þyrfti að koma til skjalanna og athuga þessar breyt., sem gerðar voru. En ég vil benda hv. þm. Barð. á það, að í stjórn Búnaðarfélagsins eru Pétur Ottesen og Bjarni Ásgeirsson, sem báðir sitja í þingsæti í Nd. Og búnaðarmálastjórinn, Steingrímur Steinþórsson, situr í Nd. og er form. landbn. Nd., svo að ég verð að ætla, að þessum mönnum hafi bæði sem þm. og búnaðarfélagsstjórnarmeðlimum og búnaðarmálastjóra verið kunnugt um, hvað gerðist í n. Þess vegna getur hv. þm. Barð. verið alveg rólegur hvað þetta snertir. Það, sem hér hefur hins vegar gerzt, er það, að meðan búnaðarþing með frv. jók framlög ríkissjóðs verulega, þá er dregið úr þeim á alla kanta í Nd., með fullu samþykki búnaðarmálastjóra og stjórnarnefndarmanna Búnaðarfélags Íslands, vegna hins breytta viðhorfs til útgjalda fyrir ríkissjóð, sem hefur skapazt síðan búnaðarþing hafði með málið að gera fyrir tveimur árum. Það er fyrst slegið af þessum kröfum af n. í Nd. og síðan enn meir af okkur í Ed. Hefði hv. þm. áttað sig á þessu, hefði hann séð, hvers vegna styrkur á naut er fallinn úr 300 kr. í 150 og hvers vegna styrkur á hverja kynbótaá er fallinn úr 1 kr. niður í 50 aura. Verðlagsuppbót hefur alltaf verið greidd á búfjárræktarl., nema á sýningarféð, fyrr en á s.l. hausti. Þá var einnig greidd verðlagsvísitala á verðlaun, er þá voru veitt á hrútasýningum, og þá er breyt. engin hvað þetta snertir. Hvað verðlaun eru mikil, sem greidd eru, er ekki gott að segja um. Þegar ég sýni á Suðurlandi, þarf 4–5 þús. kr., en á Austurlandi þarf 700–800 kr. Með því að taka skýrslur frá fleiri árum mætti fá meðaltal fyrir hv. þm., en þetta breytist þó líka, því að góðum gripum fer vonandi fjölgandi, en meðalupphæðin, sem greidd hefur verið í verðlaun undanfarin ár, er 7–8 þús. kr. í hæsta lagi.

Ég er sammála mörgu, sem hv. þm. Barð. sagði um hrossarækt, og í samræmi við þá skoðun er nú ekki gert ráð fyrir í l. neinum styrk á hryssur, eins og áður var. Í frv. er stigið í þá átt að minnka styrkinn til hrossaræktarinnar, því að viðurkennt er, að hrossarækt hefur nú mun minni þýðingu fyrir landsmenn en áður var. Enda er ekkert eftir í frv. um hrossarækt nema það, að hafa eigi hrossakynbótanefndir í héruðunum, og er þó ekki skýrar kveðið á en svo, að samkvæmt 29. gr. er hægt að undanfella heilar sýslur hrossakynbótastarfseminni, og munu sum héruð vafalaust nota sér heimild 29. gr., og verður þar þá ekkert eftir nema hrossasýningar fjórða hvert ár. Ég lít því svo á, að eftir frv. verði mjög lítil hrossakynbótastarfsemi og þá helzt á Suðurlandsundirlendinu, þar sem beztu hrossakynin, sem eru frá Hornafirði, eru nú ræktuð. Það eina, sem gert verður, er því það að halda sýningar fjórða hvert ár og veita fóðurstyrk út á þá kynbótahesta, sem sannað hafa ágæti sitt með afkvæmum sínum. Einnig verður greiddur styrkur til hrossaræktarfélaga, en uppeldisstyrkur hefur hvorki verið greiddur fyrr né síðar, og er ekki ætlazt til þess samkvæmt frv.

Hvað snertir héraðsráðunautana, þá hefur því verið bætt inn í frv., að hægt verði að fá styrk til héraðsráðunautastarfsemi á svæðum, sem eru svo stór, að svari til meðalsýslu, en vafalaust verður langt þangað til hægt verður að fá þessa ráðunauta. Nú sem stendur eru 3 slíkir héraðsráðunautar starfandi í landinu. Einn þeirra er í Eyjafirði, og veitir hann jafnframt forstöðu sæðiskynbótastöðinni á Akureyri. Annar hefur starfað í Borgarfirði í vetur, kom þangað 1. okt., og var ætlunin, að hann ynni þar að eflingu nautgriparæktar. Hann er búinn að fara þar á alla bæi og safna skýrslum um kýr og gera fitumælingar, og nú vinnur hann að því að koma upp fjárræktarfélögum, þótt vafasamt sé, hversu mikið verður úr því. Þriðji maðurinn er á Suðurlandsundirlendi, að hálfu starfsmaður hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Það er Hjalti Gestsson. Ráðunauturinn í Borgarfirði heitir Ólafur Stefánsson, en í Eyjafirði Hjörtur Eldjárn, og veit ég ekki til þess, að fleiri menn séu til í landinu, sem geli tekið að sér þessi störf sem stendur. Búnaðarsamband Kjalarnesþings hefur og verið að leita að slíkum manni, en ekki fengið hann. Áður voru nautgriparæktarfélög yfirleitt starfandi í hverjum hreppi, og gátu þau þá fengið mann fyrir lítið kaup til að koma heim á bæina með tilteknu millibili og gera skýrslur og fitumælingar og hafa reikningshald með höndum. Þessir menn áttu þá og öðru hverju kost á námskeiðum hér syðra til að læra. Nú fást ekki slíkir menn víða, og hafa af þeim sökum um 20 nautgriparæktarfélög lagzt niður. Nú er þróunin þannig, að þeir, sem voru í þessum félögum, eru að reyna að sameina sig í stærri félög, þannig að nóg starf verði fyrir einn mann að vera ráðunautur þeirra, að hann fari alltaf á milli þeirra allra til þess að mæla fitumagn úr öllum kúm, gera reikninga og skýrslur og leiðbeina jafnframt um nautgriparækt, meðferð mjólkur og annað slíkt. Þeir í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru nú að reyna að fá slíkan ráðunaut fyrir sýsluna alla, og þeir hafa enga von um að koma á félagsskap hjá sér án slíks manns, en hvergi finnst maður, sem sé nógu menntaður á því sviði til þess að geta tekið þetta að sér. Heimildin um héraðsráðunautana er þá það, að þau búnaðarsambönd, sem vilja, geti fengið lærðan mann til ráðunautsstarfa og verði helmingur launa hans greiddur úr ríkissjóði. Ef þetta frv. verður samþ., koma því hálf laun þessara þriggja ráðunauta, er nú starfa, á ríkissjóð. Þeir þá 9 þús. kr. í laun, eða 27 þús. kr. alls í grunn. Helminginn af því á ríkið að greiða. og þó tæplega, því að Hjalti Gestsson er aðeins ráðinn að hálfu hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, og yrði því upphæðin, sem ríkissjóður þyrfti að borga þessum mönnum, kringum 10 þús. kr.

Í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum hafa menn áhuga á að fá slíka menn, en það hefur ekki reynzt hægt, og því er starfið þar í molum. Annars staðar á landinu er mér ekki kunnugt um áhuga í þessa átt.

Hvað snertir hnýfilyrði hv. þm. Barð. til mín og starfs míns, þá sé ég ekki mikla ástæðu til að svara þeim. Hv. þm. veit vel, að ég vinn sem ráðunautur eins mikið og meira en krafizt er. Ég er við það starf fram á nótt og snemma á morgnana og geri miklu meira en fylgja vinnutímareglum Péturs Magnússonar, fyrrv. landbrh. Hv. þm. getur nærri tvöfaldað þann tíma. Það er misskilningur, að ég, sem vinn hér að skýrslugerð og leiðbeiningastarfsemi, hafi aðstöðu til þess að fara upp á Mýrar og upp í Borgarfjörð til að gera þar fitumælingar og annað slíkt. Slíkt kemur ekki til mála, að starf mitt og starf héraðsráðunauta geti farið saman. Hann verður því, hv. þm., að leita höggstaðar einhvers staðar annars staðar. Ég ræddi áðan meðferð málsins hér í Alþ. og gerði þá grein fyrir brtt. okkar — og enn fremur þær breyt. á núgildandi l., sem frv. felur í sér. Ég held, að hv. þm. Barð. þurfi ekki að óttast, að breyt. séu gerðar í neinni óþökk búnaðarþings, þótt einhverjum fulltrúum þyki ef til vill of mikið til slakað á kröfum þeim, sem þingið gerði, því að eins og ég hef sagt, þá hafa viðhorfin í fjármálalífi okkar mjög breytzt frá þeim tíma, er búnaðarþing vann að frv. Þetta gerir það að verkum, að búnaðarþingsmenn, meðlimir stjórnar Búnaðarfélags Íslands og búnaðarmálastjóri gera í Nd. vægari kröfur en búnaðarþing á sínum tíma, og við hér í landbn. Ed. stigum enn lengra í sömu átt. Það má kannske vera, að við höfum gengið svo langt, að búnaðarþingsfulltrúi hv. þm. Dal. (ÞÞ) fái fyrir þetta óþökk þingbræðra sinna og ég þá sömuleiðis fyrir að slaka á kröfunum fyrir nautgripaeigendur. En það er ábyrgð, sem við tökum á okkar bak, og ætlum við, að við getum forsvarað gerðir okkar gagnvart búnaðarþingi.