18.12.1947
Efri deild: 39. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

122. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það má kannske segja, að það sé Íslendinga sök, að þessir samningar hafa ekki gengið hraðar en raun hefur á orðið, því að ég hygg, að Danir hafi verið reiðubúnir til að taka á móti mönnum héðan til þess að semja fyrir okkar hönd frá því í seinni hluta ágústmánaðar s.l. eða fyrri hl. september mánaðar á þeim tíma, sem þeir, sem voru í gömlu n., áttu ekki heimangengt. Og sendiherra Dana var hér í fríi í sumar. Síðan voru stjórnarskipti í Danmörku, og án þess að mér sé kunnugt um það — af því að ég tel þetta ekki svo mikils vert —, af hverju drátturinn hefur orðið á þessu, þá geri ég ráð fyrir, að drátturinn sé eitthvað í sambandi við það. En þessi atriði, sem semja þarf um, eru ákaflega lítils verð atriði, a.m.k. af okkar Íslendinga hálfu. Ég held, að það sé ekkert atriði, sem þarfnast nýrrar löggjafar af okkar hálfu í sambandi við þetta, nema þá helzt áframhaldandi réttindi Færeyinga til fiskveiða hér við land, sem við höfum ekki viljað veita, eins og menn vita, nema því aðeins, að einhver réttindi á Grænlandi kæmu á móti. En Danir munu telja það ósambærilegt, og hafa þess vegna ekki viljað á það fallast. — Þau réttindi. sem veitt eru með þessu frv., eru hins vegar lítil, Þó tel ég óheppilegt að fella þau niður, eins og sakir standa, og ég tel þau naumast umtalsverð. Ég hygg, að Danir hafi ekki til hlítar gengið enn af sinni hálfu frá réttarstöðu þeirra manna íslenzkra, sem notið hafa jafnréttis við Dani þar í landi, þó að samkomulag sé um þetta í meginatriðum, hvernig því skuli háttað, og Íslendingar hafi ákveðið það með I. af sinni hálfu gagnvart Dönum.

Það hefur verið ráðgert, að teknir verði upp verzlunarsamningar milli landanna. Það var jafnvel talað um, að þeir færu fram hér. Það síðasta, sem skeði í því, var, að ég talaði við utanrrh. Dana í sumar, þegar ég hitti hann, um að Danir semdu till. um þetta. Danir höfðu farið fram á, að við semdum fyrstu till. Hann féllst á það þá, að Danir gerðu þetta. Síðan hefur ekkert heyrzt frá honum um þetta.

Svo er handritamálið, sem n. tók upp í sambandi við þetta mál Og eins og staðið hefur í blöðum nýlega, þá er ekki von á skýrslu um það mál fyrr en á næsta ári, og var það tekið fram af einhverjum prófessor, að þetta hefði dregizt beinlínis vegna kosninganna. Nú held ég, að handritamálið sé þess eðlis, að ákaflega varasamt sé að blanda því inn í þau litlu formsatriði, sem varða skilnað Íslands og Danmerkur, sem við út af fyrir sig erum búnir að leysa af okkar hálfu og sjáum ekki ástæðu til neins dráttar um. En ég fer ekki dult með það, að ég hef ekki trú á því, að handritamálið leysist í þessum samningum, heldur verði að koma einhliða ákvörðun um það af Dana hálfu. En ég er sannfærður um, að ef við neituðum að afgreiða hin málin, þ.e. sem snerta skilnað Íslands og Danmerkur, nema með því að blanda handritamálinu þar í. Þá mundi það verka illa eða egnandi hjá Dönum. — Ég vonast til þess, að ég hafi svarað hv. þm. (HV: Þökk fyrir.)