05.03.1948
Efri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

45. mál, búfjárrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. er nú lengi búið að hvíla sig milli umr., og hefur n. fyrir beiðni tekið það til athugunar, þar sem menn óttuðust, að það mundi verða ríkissjóði of kostnaðarsamt, en til þess að draga úr því, eru gerðar hér á frv. tvær lítils háttar breyt., en þær eru við 73. og 74. gr. — Fyrri brtt. er sú, að starfssvæði það, sem hverjum ráðunaut er ætlað, skuli vera nægilega stórt að dómi Búnaðarfélags Íslands, enda samþykki landbrh. það, og hefur þar með ríkisstj. till. um það og ræður því, hve margir þessir menn verða, enda þótt ég fyrir mitt leyti sé ekki hræddur um, að þeir verði margir fyrst um sinn, þó að ég mundi óska eftir, að þeir væru sem flestir.

Hin brtt. er við 74. gr. og er í tvennu lagi. Fyrri liðurinn er á þá leið, að í stað „hálf laun`' í 1. mgr. komi: 2/5 launa. — Og hin síðari er afleiðing af þeim fyrri, þar sem næsta mgr. þar á eftir breytist í samræmi við það. Ég skal endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að það eru til 3 héraðsráðunautar í búfjárrækt, þ.e. í Eyjafirði, hjá búnaðarsambandi Suðurlands og búnaðarsambandi í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Menn í þessar stöður eru ekki heldur til sem stendur, en tvö sambönd önnur hafa áhuga á því að fá sérfróða menn, þegar hægt er, en það eru búnaðarsambönd Gullbringu- og Kjósarsýslu og Skagafjarðarsýslu. Svo er byrjað aðeins að tala um, að það sé ekki nóg að hafa einn mann á Suðurlandsundirlendinu, heldur þurfi þeir að vera tveir. En þetta er fyrsta hljóðið, sem maður heyrir í þá átt, að mönnum detti í hug að fjölga þessum ráðunautum og auka þetta starf. — Ég er því sannfærður um það, að hætta á miklum útgjöldum fyrir ríkissjóð vegna þessa er ekki til staðar, eins og nú standa sakir, og þar sem hér er komið á móti til að minnka þá hættu með því að minnka framlög ríkisins til launa þessara manna og láta héruðin bera meira af því og hins vegar að láta ríkisstj. hafa beina íhlutun um það, hve stórt starfssvið mönnunum er ætlað og þar með hve margir þeir geta orðið, þá vona ég, að ríkisstj. sé ánægð með þessa lausn málsins, og geti nú fallizt á að lofa málinu að ganga fram.