05.03.1948
Efri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

45. mál, búfjárrækt

Eiríkur Einarsson:

Ég vil aðeins láta örfá orð falla um þær brtt., sem hér eru til umr. — Hvað fyrri brtt. snertir, um þær skorður, sem reistar eru starfssviðinu, þá hef ég ekkert nema gott um hana að segja. Þetta ætti að skapa eins konar öryggi og bendingu um það, að ráðunautarnir hafi hæfilega stórt verksvið, svo að ég get fyllilega verið þeirri brtt. samþykkur, eins og ég hef getið um.

Um hina síðari brtt., nr. 2, skal ég ekki vera margorður, en ég get ekki fengið af mér að vera með henni, þar sem hér er ekki um stórvægilegt mál að ræða. Má kannske segja, að ef ógætilega sé stefnt þarna, að sýna því alúð, en mér finnst ekki vera ógætilega stefnt þarna, og mér finnst, þegar á sama tíma svo margar aðrar greiðslur fara upp úr öllum veðrum, að þá sé það eiginlega smásálarskapur að vera að óska eftir þessu lítilræði. Mér finnst ekki taka því. Þetta á að vera starfsemi til öryggis og umbóta í þágu landbúnaðarins, til þess að tryggja þá merkilegu starfsemi og á þeim sama tíma þegar málin standa glöggar en nokkru sinni áður, hvort landbúnaðinum sé fært að færast í aukana og flóttinn verði stöðvaður úr sveitunum.