05.03.1948
Efri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

45. mál, búfjárrækt

Gísli Jónsson:

Það hefur verið reynt nokkuð hér í hv. d. að fá samkomulag um þær brtt., sem hér eru á ferðinni, og eftir því, sem mér heyrðist frá hv. flm., mun vera samkomulag við ríkisstj. um þessar brtt., eins og þær eru settar fram á þskj. 421. Ég er þess vegna dálítið hissa á hv. 2. þm. Árn., að hann vildi ekki leggja þessu máli lið, því að það gæti farið svo, að þetta ylti hér á hans atkv. Og færi svo, að þessi till. yrði felld, en hin samþ., yrði frv. að fara aftur til Nd. og svo hingað til Ed. aftur, og teldi ég það ekki heppilegt, úr því að búið er að koma á um þetta samkomulagi. Ég vildi því mælast til, að hv. 2. þm. Árn. sæi sig um hönd og greiddi einnig þessari brtt. atkv. sitt, enda vitað mál, að hann er fús að taka nýja afstöðu til mála eftir nýjar upplýsingar.

Ég mun fylgja brtt. eins og þær liggja fyrir á þskj., en vil bera fram brtt. við 74. gr. Við 1. mgr. bætist: Eftir því sem fé er veitt til þess í fjárlögum. — Það er upplýst, að hér gæti verið um 20–30 embættismenn að ræða, og ef ráð hv. 2. þm. Árn. verða látin ráða hér, gæti helmingur þeirra komizt á ríkissjóðinn, og gæti það gefið tilefni til þess, að ýmsar stéttir í landinu gerðu slíkar kröfur. Það hefur þegar komið fram í sambandi við skipaeftirlitið, og er hættulegt að hafa ekki hemil á, enda viðurkennt með þeim brtt., sem hér hafa komið fram. Ég tel, að þessi brtt. mundi ekki spilla frv. neitt, þó að hún yrði samþ., og vænti ég þess, að hv. d. fylgi henni hér.