09.03.1948
Efri deild: 77. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

170. mál, fasteignasala

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í l. um fasteignasölu er gert ráð fyrir því, að ekki megi aðrir annast kaup og sölu fasteigna en þeir, sem lokið hafa sérstöku prófi, að undanskildum lögfræðingum, sem ekki þurfa að taka þetta próf. Þetta er gert til þess að tryggja það, að menn, sem þurfa að láta selja eða kaupa fasteign, megi treysta því, að fasteignasalarnir séu færir um að sjá til þess, að öllum réttum formum sé fullnægt í þessum viðskiptum og ekki hljótist vandræði af slíkri vanrækslu síðar meir. Síðan þessi lög voru sett, hefur verið tekin upp kennsla í viðskiptafræðum við háskólann, og hefur verið vakin athygli á því og bent á það, að þar sé allt kennt, sem menn þurfa að kunna til að fá fasteignasalapróf. En þar sem það er engan veginn eðlilegt, að menn taki aftur próf í þeim fögum, sem þeir eru búnir að ljúka prófum í, er lagt til í frv. þessu, að kandídatar í viðskiptafræðum þurfi ekki að taka fasteignasalapróf til þess að hafa fullan rétt til að annast fasteignasölu. Allshn. hefur fallizt á þetta sjónarmið, enda væri ekki gott að ætlast til annars, þar sem vitað er, að þeir menn, sem hér um ræðir, eru fullfærir um að annast nefnd viðskipti. Háskólaráð hefur lýst sig samþykkt frv., sbr. fylgiskjal, sem prentað er á þskj. 387, og n. mælir einróma með því, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir.