18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1065 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

80. mál, ljósmæðralög

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. þm. Rang. að flytja þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 102, þar sem farið er fram á lítils háttar breyt. á ljósmæðral. Þessum l. var breytt nokkuð í fyrra og til þess ætlazt, að grunnlaun ljósmæðra yrðu hækkuð um 200 kr. Það fór svo klaufalega, — sem ætla má, að sé n. að kenna, sem um málið fjallaði, — að framkvæmdin hefur ekki orðið á þann veg, sem til var ætlazt, því að um leið og breyt. var gerð, voru felldar niður þær prósentur, sem í gildi voru áður, svo að hækkunin varð ekki nema kr. 12.50. Nú er það svo, að í þeim kauphækkunum, sem fram hafa farið, hefur þessi stétt orðið út undan, sem hefur orðið orsök þess, að ljósmæður hættu störfum, og horfir viða til vandræða að fá sinnt því starfi. Enda er það ekki óeðlilegt, þó að þessi stétt hafi orðið óánægð með kjör sín, því þótt þetta hafi verið samþ., þá er það ekki fullt vinnukonukaup, sem þeim er ætlað.

Það er ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál. Ég vænti, að það fái greiðan gang í gegnum Alþ., og óska, að að þessari umr. lokinni verði því vísað til heilbr.- og félmn.