15.12.1947
Neðri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég sé, að það mun vera meiningin að halda fund þegar að loknum þessum fundi og taka þar fyrir frv. um dýrtíðarráðstafanir, sem nú hefur verið útbýtt.

Frv. til l. um dýrtíðarráðstafanir er langur lagabálkur upp á 9 siður með mjög flóknum ákvæðum í, sem ríkisstj. og hennar sérfræðingar munu hafa unnið að um lengri tíma. Þessu frv. er nú útbýtt meðal þm. Og eins og að líkum lætur verður þessi 1. umr. í raun og veru aðalumr. þess. Ég tel ófært að ætla að láta 1. umr. þessa máls fara fram án þess að þm. gefist kostur á svo mikið sem lesa þetta frv. yfir.

Ég vildi eindregið mælast til þess, að þeim fundi, sem boðaður hefur verið að loknum þessum fundi í dag, verði frestað og verði heldur á morgun, til þess að þm. gefist tækifæri til þess að kynna sér þetta mál. Slík er líka venja um öll mál, og þm. eru búnir að biða eftir þessu frv. í tvo og hálfan mánuð, og það er réttlát krafa, að ekki verði styttri tími en til er tekinn í þingsköpum til þess að þm. fái að athuga frv., sem fram koma um stóra lagabálka.