24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

165. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar menn ræða þetta frv., verða menn að minnast þess, að nú er svo ákveðið í l., að byggingarsjóður er skyldur til að bera 2/3 kostnaðar við byggingarfulltrúana, og svo var til ætlazt, að þessir fulltrúar gætu komið í hverri sýslu. Þetta verða menn að muna. Þegar l. um nýbýli og samvinnubyggðir voru sett á næstsíðasta þingi, þá var þetta eldra ákvæði í l. látið falla niður. Nú mun mega um það deila, hvort skylda hvílir á sjóðnum að greiða til byggingarfulltrúanna eða ekki. Sumir halda, að þar sem hin gömlu ákvæði þar að lútandi voru ekki tekin inn í lögin um landnám og nýbyggingar, séu þau þar með fallin, en aðrir álíta, að þar sem sjóðnum bar samkvæmt eldri lögum að greiða 2/3, þá hvíli enn á honum sú skylda.

Áður en hin eldri lög voru sett. hafði K.E.A. fengið sér byggingarfulltrúa og komið á sambandi fyrir alla Eyjafjarðarsýslu og part af S.Þingeyjarsýslu. Þessum byggingarfulltrúa hefur K.E.A. eða Byggingarfélag Eyjafjarðarsýslu borgað. Síðan lögin voru sett, hefur verið myndað byggingarfélag í A.-Húnavatnssýslu, sem hefur ráðið sér fulltrúa og heimtar 2/3 greidda af sjóðnum eftir eldri lögum. Nú er vafi á því, hvort skylda hvíli á sjóðnum um slíkar greiðslur. Og enn fremur er augljóst, að ef gerðar væru nú kröfur um greiðslur til 20–30 byggingarfulltrúa, gæti étizt svo upp af sjóðnum, að lítið yrði eftir til lána. Því vildu ýmsir, og þeirra á meðal ég, koma í veg fyrir þann möguleika, að allur sjóðurinn færi til að launa byggingarfulltrúa. Hins vegar teljum við nauðsynlegt, að eftirlit sé haft með byggingarframkvæmdum, og viljum því ekki sleppa byggingarfulltrúunum. Við höfum því farið þá miðlunarleið að gera ráð fyrir 7 byggingarfulltrúum, sem greidd yrðu laun að hálfu úr sjóðnum. Nú finnst ráðh. óljóst, hvort þá þurfi t.d. samkv. frv. að borga byggingarfulltrúa Eyfirðinga. Svo er þó alls ekki. Í 5. gr. eru dregin skýr mörk um það, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að greiða megi byggingarfulltrúa laun að hálfu úr sjóðnum, og eitt af því er það, að umdæmin séu 7 og þau, sem ákveðin eru í 3. gr. Ef þeim skilyrðum verður ekki fullnægt, þá ber heldur ekki að greiða úr sjóðnum. Í 6. gr. er enn fremur tekið skýrt fram, hve mikinn meiri hluta sýslunefndarmanna á ákveðnum samþykktarsvæðum þurfi til þess að gera bindandi samþykktir um slík byggingarumdæmi. Ef t.d. 3/5 sýslunefndarmanna í Eyjafjarðar-, S.-Þingeyjar- og N.-Þingeyjarsýslum gera slíka samþykkt, yrði byggingarfulltrúa þeirra greitt úr sjóðnum. Þetta er þannig mjög einfalt mál. (BSt: Það er þá hægt að þvinga Eyfirðinga til að vera með?) — Það er alveg rétt, ef hinar sýslurnar báðar vilja gera samþykktina. Ég tel rétt, að n. ræði um þetta við ráðh. og 1. þm. Eyf., en finnst annars, að eftirlitsskyldunum sé svo í hóf stillt með frv., að það eigi að vera vel yfirkomanlegt fyrir þá, sem rækja þær, en eftirlitið hins vegar kostnaðarminna en ætlað var áður og því viðráðanlegt fyrir alla. Ég hef því ekki mikla trú á, að frv. verði breytt verulega héðan af, þótt rætt verði, enda þótt það sé sjálfsagt að gera.