18.03.1948
Neðri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1632)

165. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Í 4. gr. laga nr. 108 frá 31. des. 1945 er svo ákveðið, að þar sem byggingarsamþykktir séu gerðar í sveitum og kauptúnum, sem ekki eru löggiltir verzlunarstaðir. sé ráðinn byggingarfulltrúi og sé honum greitt að 1/3 úr sýslusjóði, 1/3 úr byggingarsjóði og 1/3 úr nýbýlasjóði. Nokkur ótti varð um það, ef byggingarfulltrúi væri ráðinn í hverri sýslu, að það yrði svo mikill baggi á þessum sjóðum, að þeir fengju vart staðið undir slíku. Og þegar nýbýlasjóður var sameinaður með lögum um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum 1946, var ætlunin, að þessi skylda nýbýlasjóðs færðist yfir á byggingarsjóð. En í sambandi við frv., sem gekk í gegnum þessa d. í vetur og þræta varð um í Ed., kom fram till. um að draga allmjög úr þessum skyldum í framtíðinni. Árangurinn af því er þetta frv. á þskj. 417, um breytingar, sem allir, er hlut eiga að máli, Búnaðarbankinn, nýbýlastj. og landbn. Ed., eru sammála um. Þar er ákveðið, að byggingarfulltrúar með fullum launum utan Reykjavíkur séu mest 7. Þá er sú breyting gerð, að byggingarsjóði er gert að greiða helming kostnaðarins, en sýslusjóði hinn helminginn. Samkv. 3. gr. er sýslufélagi heimilað að ráða sérstakan byggingarfulltrúa, ef teiknistofa landbúnaðarins samþykkir manninn. Ég verð að játa, að hér er nokkuð dregið úr rétti þeim, sem héruðin hafa eftir núgildandi lögum, og nauðsynlegt er, að eftirlit með þessum framkvæmdum sé sem allra bezt. En ef færir menn fást, ættu þeir að geta annað þessu starfi, ef þeir sinna því vel og hafa ekki annað með höndum. Í 3. gr. er enn fremur ákveðið, að ef ekki næst samkomulag milli sýslufélaga eða engin byggingarsamþykkt er til, er sýslufélagi heimilað að ráða sérstakan byggingarfulltrúa, og væri þá möguleiki fyrir sýslufélagið að hafa meira upp úr vinnu fulltrúans við stjórn á byggingum innan héraðsins. Landbn. hefur samþ. að fallast á, að frv. nái fram að ganga óbreytt. Og fjölyrði ég nú ekki um þetta að öðru leyti.