18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1638)

84. mál, sóknargjöld

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Menntmn. hefur borizt þetta frv. frá hæstv. menntmrh. með ósk um það, að n. flytti það fyrir stj. hér á þingi. N. taldi sjálfsagt að verða við þeirri ósk að flytja frv., en einstakir nm. hafa alls kostar óbundnar hendur um afstöðu til málsins að öllu leyti.

Frv. þetta er samið af biskupinum yfir Íslandi, eða a.m.k. á skrifstofu hans, og fjallar um það að breyta mjög l., sem nú gilda um innheimtu sóknargjalda til kirkna í landinu. Frv. þessu fylgir rækileg og glögg grg., sem samin mun vera af biskupinum, og tekur hún fram um þau nýmæli, sem í frv. felast, og skal ég ekki fara langt út í að skýra þetta mál, þar sem grg. liggur fyrir prentuð og allir þm. hafa aðgang að því að kynna sér málið eins og því er þar lýst. Ég vil þó drepa á það, að samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að sóknargjöld hækki nokkuð frá því, sem úti er. Þannig er ákveðið í gildandi lögum nú, að innheimta skuli sérstakt gjald, kr. 1,25 af hverjum manni, sem kominn er yfir 15 ára aldur og telst til þjóðkirkjunnar. Á þetta lága gjald hefur ekki verið reiknuð verðlagsuppbót undanfarið, en heimild í gildandi lögum til þess að sóknarnefndir heima í hverju héraði, með samþykki safnaðarnefndar og héraðsfundar, megi leggja á sérstakan skatt eða hækka sóknargjöld eftir því, sem þörf er fyrir á hverjum stað. Biskup skýrir svo frá, að ýmsar sóknir hafi notfært sér þessa heimild og af því leiði, að sóknargjöld séu nú í miklu ósamræmi, þegar litið er á landið í heild. Í sumum sóknum hefur gjaldið ekki verið hækkað, og af því leiðir, að tekjur þær, sem kirkjan hefur úr að spila, eru mjög af skornum skammti, þar sem kirkjugjöld sumra kirkna eru eingöngu 50–125 kr. árlega. Er bent á það, að slík aðstaða sé alveg ófullnægjandi til þess að halda kirkjunum í því horfi, sem nauðsyn ber til, því að af því leiði mikla vanrækslu um kirkjuhald og kirkjulega muni. Í öðrum sóknum hafi verið gripið til þeirra ráða að hækka sóknargjöld verulega. Segir svo, að í 70 sóknum séu þau 1.50–3.00 kr. á mann, í rúmlega 80 sóknum 3–5 kr. á mann, en í 60 frá 5 upp í 25 kr. á mann. Þetta nægir til þess að benda á, að hér er um mjög mikið ósamræmi að ræða. Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að þetta verði samræmt á þann hátt, að ákveðið verði, að alls staðar utan Rvíkur skuli fólk á aldrinum 16–67 ára greiða 3 kr. í sóknargjald, að viðbættri vísitöluuppbót, en hér í Rvík skuli gjaldið nema 6 kr. á mann, á þeim aldri, sem ég sagði, að viðbættri verðlagsuppbót.

Ég tel ekki þörf á að fara fleiri orðum um þetta frv. við þessa umr., en vil taka fram að lokum, að menntmn. mun að sjálfsögðu athuga þetta frv. rækilega milli 1. og 2. umr. og taka afstöðu til málsins að þeirri athugun lokinni.

Þar sem málið er flutt af n. óskiptri, tel ég ekki ástæðu til að vísa því til n. aftur og þá með tilliti til þess, sem ég hef þegar sagt, að n. muni að sjálfsögðu ræða málið rækilega milli umræðna.