18.11.1947
Neðri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

84. mál, sóknargjöld

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég vil aðeins, þar sem ég á sæti í n., sem flytur frv., undirstrika öllu greinilegar en fram kom í ræðu hv. frsm., að einstakir nm. hafa, þrátt fyrir flutning n. á frv., engar ákvarðanir tekið um það, hvort þeir endilega fylgja þessu frv. eða ekki. Það er svo til komið eins og hv. frsm. lýsti og var sent til n. af kirkjumálaráðh. með óskum um, að n. flytti málið. Ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar, að það sé rétt af nefndum að gera það að beiðni ráðh. að sýna mál í þinginu, hvað sem líði skoðunum einstakra nm. á málinu.

Hv. frsm. hefur þegar greinilega tekið fram, að n. muni taka málið til nýrrar athugunar og gefa út um það nál., enda var það skilyrði fyrir því, að málið yrði flutt. Ég vil þess vegna gera grein fyrir því, að ég tel enga von um, að ég fylgi þessu máli, þó að ég hafi ekki viljað hindra, að þingið sæi frv.

Ég held sem sagt, að heildarstefna frv. sé í veigamiklum atriðum mjög varasöm. Það er alkunn staðreynd, að hin evangelíska, lútherska kirkja er þjóðkirkja á Íslandi og að í sambandi við þetta nýtur hún þeirra hlunninda, að ríkið launar starfsmannahald hennar, nýtur þeirra hlunninda, að ríkið heldur uppi skóla til að mennta prestana og loks þeirra hlunninda að hafa sérstakan rétt til að skattleggja þjóðfélagsþegnana og það í rauninni svo, að þann skatt skuli menn í einni eða annarri mynd greiða. Jafnvel þótt þeir óski ekki að vera í neinu trúfélagi, geta þeir ekki losnað við það, því að þá verða þeir að greiða þennan skatt til háskólans.

Þetta er svo samkvæmt íslenzkum lögum. Nú er farið fram á það að endurnýja þessi lög og með þeim hætti, að þetta álag verði verulega hækkað. Og ef það nægir ekki, — fari svo, að ekki sé sæmilega séð fyrir fjáröflun til kirkjunnar með þessum gjöldum, — eiga sóknarnefndir að hafa til þess rétt, að fengnu leyfi safnaðarfundar að vísu, að leggja á alla sóknarmenn sérstakt gjald, sem sé miðað við útsvar eins og það er á hverjum tíma. Ég verð að segja það, að ég álít, að við eigum í heiðri að halda því ákvæði í stjskr. okkar, að hér ríki algert trúfrelsi, og ég verð að segja, að þá finnst mér gengið of langt, þegar gefa á kirkjunni vald til slíkrar skattlagningar sem hér er farið fram á. Ég álít, að það sé trúaráhugi mannsins, sem eigi að ákvarða það, hve mikið lagt er af mörkum til trúarlegrar starfsemi í hverjum söfnuði. Og ég held, að það sé vafalaust, að þá sé betur séð fyrir hinu trúarlega lífi í landinu, ef söfnuðirnir sýndu sinn vakandi og starfandi áhuga til þess að afla nauðsynlegra tekna fyrir kirkjuna. Ég held því, að skynsamlegra væri fyrir löggjafann að gefa söfnuðunum meira frjálsræði og meiri ábyrgð og láta þá sjálfa afla fjár til kirkjubygginga og kirkjurekstrar en snúa á hina brautina, að hækka hina lögþvinguðu álagningu.

Ég sé ekki ástæðu til að gera nánari grein fyrir afstöðu minni til málsins á þessu stigi. en vildi aðeins, að þetta kæmi betur fram. Þó að ég hafi greitt því atkvæði í n., að hún yrði við þeirri beiðni kirkjumálaráðh. að flytja frv., býst ég við, að undir meðferð málsins verði ég því fyllilega andvígur, enda hafa nm. óbundnar hendur um afstöðu til málsins.