27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1643)

84. mál, sóknargjöld

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft þetta mál til athugunar, og eins og segir í nál. á þskj. 378, hafa nm. orðið ásáttir um að mæla með því, að frv. nái fram að ganga með þeim breyt., sem prentaðar eru á á þskj. 378, og mun ég nú gera nokkra grein fyrir þessu.

Í I. gr. frv. er gert ráð fyrir, að sóknargjaldið sé ákveðið kr. 3.00 utan Rvíkur, en sé kr. 6.00 í Rvík. Nú leggjum við í n. til, að sóknargjöld, grunngjaldið, skuli vera 3–6 kr., eftir nánari ákvörðunum safnaðarfunda á hverjum stað. Ofan á þessa upphæð bætist svo verðlagsuppbót samkv. 1. gr. frv., en það er sem tíðkast um aðrar greiðslur, og er það því í samræmi við þær.

Önnur brtt. n. er við 2. gr. frv. og er orðalagsbreyt. á 2. mgr. Í því felst það, að ótvíræðara er, að ráðh. sá, er gefur út reglugerð hér að lútandi, ber ábyrgð á því, er í reglugerðinni segir, en gert er ráð fyrir, að hann setji reglugerðina að fengnum tillögum biskups.

Þriðja brtt. n. er við 4. gr. frv. Í frv. er svo ráð fyrir gert, að ef tekjur kirkju hrökkvi ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum, sé sóknarnefndum heimilt að leggja hundraðsgjald á útsvör allra útsvarsgjaldenda. Við gátum eigi fallizt á þessa gr. óbreytta, en lögðum til, að þetta næði til þeirra sóknarmanna, sem hlut eiga að máli.

Síðasta brtt. n. er orðalagsbreyt. á síðustu gr. frv., og er sú breyt. sjálfsögð. Það getur ekki komið til greina að innheimta sóknargjöldin fyrir árið 1947 eftir þessu frv., ef að l. verður. Við leggjum því til, að gr. þessi orðist svo sem er venja: Lög þessi öðlast þegar gildi.

Einn nm. hefur skrifað undir nál. með fyrirvara. Hv. þm., 6. þm. Reykv., mundi auðvitað gera grein fyrir fyrirvara sínum, ef hann væri viðstaddur, en ég held ekki, að fyrirvarinn sé það veigamikill, að þörf sé að tefja málið þess vegna. Þetta er einnig 2. umr. málsins, svo að hv. 6. þm. Reykv. á hægt með að skýra frá fyrirvara sínum við 3. umr. málsins, ef honum sýnist svo.