01.03.1948
Neðri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

84. mál, sóknargjöld

Halldór Ásgrímsson:

Ég get tekið undir það, sem sumir hv. þm. hafa sagt, að þetta frv. er meinlaust, — að ég tel, þó að undantekinni 2. gr. Ég tel það til hagræðis, að fastagjaldið er hækkað upp í 3 kr., þótt segja megi, að heimild sé í h til þess að leggja meira á.

Um 2. gr. vil ég segja það, að ég tel hana ótæka og mun greiða atkv. á móti henni og á móti frv., ef sú gr. verður samþ. Ég skal ekkert segja um það, hvort slík sjóðsstofnun á rétt á sér einhvern tíma. En ég vil halda því fram, að meðan svo er ástatt, að kirkjur landsins eru meira og minna í niðurníðslu, illa við haldið og umhverfi þeirra í vanhirðu, þá eigi ekki við að fara að draga fé frá söfnuðunum utan af landi í einhvern sjóð, sem verja á hér til guðsþakka eða kristni til styrktar, eins og það er orðað. Ég held, að okkur væri nær að líta okkur nær í þessu efni, eins og svo mörgum öðrum, og hugsa fyrst um þessa hluti heima í sóknunum, áður en við játumst undir þennan skatt án þess að vita í rauninni, til hvers þetta fé á að nota.