01.03.1948
Neðri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

84. mál, sóknargjöld

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Menn hafa nú heyrt hv. frsm. reifa þetta mál allýtarlega og sérstaklega þau fjögur atriði í frv., sem nýmæli eru og einkum hefur verið hnotið um, sum talin óþörf og önnur ganga of langt.

Ég er þeirrar skoðunar, að ástæða sé fyrir Alþ. að athuga vandlega þetta lagasmiði áður en það er afgreitt.

Fyrsta nýmælið er þessi hækkun á sóknargjöldunum, sem lögð er til í frv. Ég get fallizt á, að nauðsynlegt sé að hækka þau nokkuð.

Skýrslur benda til þess, að í sumum litlum sóknum sé ekki mikið hægt að gera fyrir það gjald, sem nú er ákveðið. Aftur á móti eru nokkrar sóknir, sem ekkert hafa með það að gera, þar sem prestaköllin eru ósetin. Og mér finnst það fullhátt stokkið að tvöfalda sóknargjöldin og leggja svo dýrtíðaruppbót þar ofan á. Öll sanngirni hefði verið í því að bæta við þau dýrtíðaruppbót, en hitt er nokkuð langt gengið.

Nýmælinu í 2. gr. er ég alveg á móti, því að eins og hér hefur verið tekið fram, er annar slíkur sjóður til, og hvers vegna á þá að vera að stofna nýjan sjóð? Er nokkur þörf á því að stofna til þess sérstakan sjóð, þótt nauðsynlegt sé talið að reisa hér samkomuhús fyrir kirkjuna? Hv. frsm. sagði, að söngmálastjóri þyrfti að kenna í sínum eigin húsum. Það er ákaflega sorglegt(!) Og ég veit ekki betur en Páll Ísólfsson sé á fullum launum til að kenna organleikaraefnum utan af landi. Það er óþarfi að stofna þennan sérstaka sjóð, og ég er á móti því, þótt það sé undir fallegu yfirskini.

Fjórða nýmælið, heimild til að jafna aukagjaldi niður á útsvarsgreiðendur, get ég heldur alls ekki fellt mig við. Ég verð að segja rétt eins og er, að það situr ekki á okkur að stofna til nýrra nefskatta í svo stórum stíl nú, þegar verið er að brýna það fyrir öllum að spara.

Ég er ekki ánægður með þetta frv. og hefði kosið, að þetta mál hefði verið afgreitt síðar, en ekki hespað af nú með svo stórum agnúum.