04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

84. mál, sóknargjöld

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Síðan frv. þetta var afgr. við 2. umr., hefur mér veríð bent á, að orðalag á tveim stöðum í frv. gæti farið betur. Hér er um tvö atriði að ræða. Í fyrsta lagi er á það bent, þar sem svo hagar til, að sókn nái yfir tvo hreppa. Nú geta útgjöld hreppa verið æði misjöfn og útsvörin orðið þeim misþung, þó að þau séu af sömu tegund. Ef 2 hreppar eiga hlut að máli að greiða hundraðsgjald af útsvörum í kirkjugjald, þá kunna viðbótargjöldin að leggjast þyngra á hluta sóknarmannanna.

Annað atriðið snertir bændakirkjurnar. Þær munu nú vera 37 talsins. Þar af eru tvær ekki nothæfar, svo að þær eru raunverulega 35 talsins. Mér hefur verið bent á af einum hv. þm., að með orðalagi 4. gr. frv. sé ekki nóg séð fyrir bændakirkjunum. Ef söfnuðurinn á kost á að taka kirkjurnar til umsjónar, en vill það ekki, þá eiga bændakirkjurnar að hafa sama rétt og safnaðarkirkjurnar. Vegna þessara ábendinga leyfi ég mér hér með að leggja fram 2 skriflegar brtt., sem víkja við orðalagi 3. gr. frv. þannig:

„a. Fyrir orðin „sem hundraðsgjaldi af útsvörum“ komi: eftir sömu reglum og útsvör eru á lögð.

b. Upphaf 2. málsgr. orðist svo:

Í þeim sóknum, þar sem söfnuður hefur eigi átt þess kost að taka að sér með sanngjörnum skilmálum að dómi kirkjustjórnar umsjón og fjárhald kirkju, er niðurjöfnun aukagjalds óheimil.“

Ég vil taka það fram, að það er ekki langt um liðið síðan 2. umr. málsins fór fram, og hef ég því ekki getað lagt þetta fyrir fund í menntmn. En ég hef rætt þetta við einstaka aðila, sem sæti eiga í n. og voru samdóma frv. í byrjun, og hafa þeir ekki reynzt mótfallnir þessari breyt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið nú, en leyfi mér að afhenda forseta brtt. þær, sem ég hef lýst.