04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

84. mál, sóknargjöld

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Eins og frv. þetta kom fyrst fram, var svo ákveðið í 1. mgr. l. gr., að hver maður, karl eða kona, á aldrinum 16–67 ára. sem er heimilisfastur hér á landi eða lögskráður á íslenzkt skip og er í þjóðkirkjusöfnuði, skuli árlega greiða gjald til kirkju þeirrar, er hann á sókn að. Í 3. mgr. sömu gr. er gerð grein fyrir, hverjar undanþágur séu veittar frá þessu. Orðalag 3. og 4. mgr. er allvafasamt, og hef ég því umorðað þessar gr. og leyfi mér að leggja fram skriflega brtt. varðandi þetta. svo hljóðandi:

„Við 1. gr. 3. og:1. málsgr. orðist svo:

Hver sá, er telst til utanþjóðkirkjusafnaðar, er hefur löggiltan prest eða forstöðumann, greiði gjald til trúfélags síns, hverju sinni eigi lægri upphæð en honum hefði ella borið að greiða til þjóðkirkjunnar.

Nú er maður utan þjóðkirkjunnar og greiðir ekki safnaðargjald samkvæmt því, er að framan segir, og ber honum þá að greiða árlega í prófgjaldasjóð Háskóla Íslands upphæð, er nemur eigi minna en hinu lögboðna sóknargjaldi.“

Eins og hv. þm. heyra, er hér ekki um neina breyt. á l. eða frv. að ræða. Þetta er aðeins orðamismunur, sem ég mundi telja, að betur færi en það, sem nú er í frv.