18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

84. mál, sóknargjöld

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað þetta frv., og eins og nái. greinir, hafa þrír nm. fallizt á að mæla með frv. óbreyttu. Einn nm. var fjarstaddur, og einn tók ekki afstöðu til málsins.

Eins og menn sjá við mjög fljótan yfirlestur frv., þá er aðalefni þess það að hækka sóknargjöld úr kr. 1.25 í 3–6 kr. eftir nánari ákvörðun safnaðarfundar, sem ég skil þannig. að gjaldið skuli vera 3 kr., ef safnaðarfundur samþykkir ekki annað, og að þetta sé greitt með fullu vísitöluálagi.

Eins og allir vita, þá á ríkið enn sem komið er að vernda og styðja þjóðkirkjuna og kosta hana. Um það má deila, hvort það sé rétt og hvort ekki ætti að hafa algerlega frjáls kirkjufélög. En um hitt verður ekki deilt, að meðan ríkið hefur þessa skyldu, verður það að rækja hana. Nú er svo ástatt, að tekjur kirkjunnar eru allt of lágar, a.m.k. þær fastákveðnu, kr. 1.25 á hvern sóknarmann. Það er ekki hægt að halda við nokkurri kirkju með því gjaldi og því síður að safna í sjóð til þess að byggja nýja kirkju. Að vísu er í l. heimild til að jafna niður hærra gjaldi á sóknarmenn, en það eru allt of fáar kirkjur, sem nota sér. þá heimild að afla sér nauðsynlegra tekna með sérstakri niðurjöfnun.

Ég þykist vita, að það, sem haft verði á móti þessu frv., verði það, að þetta er nefskattur. Ég get að sjálfsögðu kannazt við, að ég er yfirleitt á móti nefskatti. En ég álit þó ekkert óeðlilegt að hafa nefskatt einmitt í þessu augnamiði. Þó að kirkjan sé þjóðfélagsstofnun. þannig að sjálf stjskr. ákveði, að ríkið skuli styrkja hana og vernda, þá er hún í eðli sínu félagsskapur þeirra manna, sem í þjóðkirkjunni vilja vera. Og hvar er það í félögum, að félagsgjöldum sé jafnað niður eftir efnum og ástæðum? Ég hygg, að það sé hvergi, heldur séu félagsgjöldin lögð jafnt á alla. Auk þess er á það að líta, að þetta gjald er svo lágt, þó að frv. verði samþ., að fáa menn munar nokkuð um það. Ef það er 3 kr., þá eru það 9 kr. á mann, og það verður ekki hærra, nema meiri hl. safnaðarn. samþykki það. Og jafnvel þó að um fjölskyldu sé að ræða, verður þetta lág upphæð, sem einstaklingana munar ekki mikið um, en kirkjurnar munar það miklu.

Svo er önnur ástæða, sem gerir það nauðsynlegt að hafa fastákveðið gjald til kirkna. Sumir landsmenn eru utan þjóðkirkjunnar, og þeir eiga að greiða þessi gjöld til annarra staða. Þeir, sem eru fyrir utan trúarfélögin, greiða til háskólans. Til þess að það megi verða, finnst mér, að það verði að miða við eitthvað fast, sem menn eiga að greiða.

Þá er önnur ástæða, og hún er sú, að þótt undarlegt sé, þá er enn til í landinu eitthvað af bændakirkjum. Og þar, sem þær eru, held ég, að það mundi mæta mikilli mótspyrnu að jafna niður gjöldunum eftir efnum og ástæðum. En bændakirkjunum þarf að halda við eins og öðrum kirkjum. Það er engin meining, að fátækur bóndi þurfi, þó að kirkja sé á jörð hans, að bera af því stór gjöld. Hitt er annað mál, að það ætti að breyta þessu þannig, að engar bændakirkjur væru til, en það er ekki búið að gera það enn.

Annars skal ég játa, að þótt ég mæli með frv. óbreyttu, tel ég. að það hafi tvo galla, í fyrsta lagi þann, að í 3. gr. er gert ráð fyrir, að hækka megi tekjur kirkju með hundraðsgjaldi af útsvörum. Það getur staðið svo á, að sóknin sé hluti af tveimur hreppum og þar af leiðandi sé um ólík gjöld að ræða, því að útsvör geta verið tiltölulega hærri í öðrum hreppnum en hinum. Það hefði verið heppilegra að hafa það þannig, að sóknarn. hefði getað jafnað niður sérstaklega aukagjöldum eftir efnum og ástæðum, en ekki hundraðshluta af útsvörum, en ég tel þetta ekki það stórvægilegan galla, að ástæða sé til að tefla framgangi málsins í tvísýnu. Oftast mun vera um tiltölulega jafnhá gjöld að ræða, og þó að það sé til, að ein og sama sókn sé í tveimur hreppum, þá er varla mjög mikill munur á útsvörum í þeim hreppum.

Annar galli álít ég, að sé á frv. nú, og hefur það að því leyti versnað í Nd. Eins og frv. var lagt fram, þá var í 2. gr. ákvæði um það, að 50 aurar af þessu gjaldi skyldu renna í sameiginlegan sjóð til nota þjóðkirkjunnar í heild sinni, til hennar heildarstarfsemi. En þessi upprunalega 2. gr. frv. var felld í Nd. En ég sé samt ekki fært að fara að bera fram brtt. um þetta, þar sem engar líkur eru til, að slík till. komist í gegnum Nd., því að þar var meirihlutavilji fyrir því að fella þetta niður.

Ég hef svo ekki fleira um þetta mál að segja. Það er sem sagt till. þeirra nm., sem þátt tóku í afgreiðslu málsins, að frv. verði samþykkt óbreytt.