18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

84. mál, sóknargjöld

Páll Zóphóníasaon:

Það eru viss atriði í þessu frv., sem mig langar til að fá útskýringar á. — 1. gr. mælir svo fyrir, að hver karl og kona á aldrinum 16–67 ára, sem er heimilisfastur á landi hér eða lögskráður á íslenzkt skip og er í þjóðkirkjusöfnuði, skuli greiða sóknargjald. Þetta atriði finnst mér hreinn hortittur. Eða eru nokkrir, sem lögskráðir eru á íslenzkt skip, en eru hér ekki heimilisfastir, en þó í þjóðkirkjusöfnuði, og í hvaða kirkjusókn eru þeir þá? Eða er nokkur, sem ekki er hér heimilisfastur, en er þó í ákveðinni kirkjusókn? Ég held, að þetta komi ekki til mála og vænti þess, að n. skýri þetta orðalag 1. gr.

Þá vildi ég og fá útskýringu á því, þegar talað er um, að sóknargjaldagreiðslurnar miðist við almanaksár, hvort þar er átt við áramótin fyrir eða eftir gjaldárið, því að eins og þetta stendur nú, er þetta vafaatriði varðandi bæði 16 og 67 ára mennina og þarf nánari útskýringar, að mér finnst.

Þá tel ég fráleitt í 3. gr., að sóknargjöldin séu lögð á sem hundraðsgjöld af útsvörum, og kem ég fram með brtt. varðandi þetta. Það eru að minnsta kosti þrjú dæmi þess, að sókn nái yfir parta úr þremur hreppum, þar sem útsvör eru mjög mishá, og kemur þetta því ákaflega ójafnt niður, ef frv. verður samþ. óbreytt. Legg ég því fram svo hljóðandi brtt., með leyfi hæstv. forseta: „Við 3. gr. Í stað orðanna „sem hundraðsgjaldi af útsvörum“ komi: eftir efnum þeirra og ástæðum og með hliðsjón af álögðum útsvörum.“ — Þegar búið er að sjá, hvað útsvörin í einum hluta sóknarinnar eru hærri en í öðrum, treysti ég sóknarn. til þess að jafna þessu réttlátlega niður. Það er önnur hver kirkja, þar sem sóknin er ekki sama og hreppurinn og meira að segja er í 3 tilfellum hluti úr þremur hreppum. Það er því eðlilegt, eins og brtt. mín gerir ráð fyrir, að treysta sóknarn. til að jafna niður aukagjaldinu, þegar hún fær þennan grundvöll: eftir efnum og ástæðum og með hliðsjón af útsvörum.

Þá finnst mér vanta í 4. gr. 2. málsgr., þar sem innheimtumönnum er lagt í sjálfsvald, hvort þeir innheimti gjaldið af húsbændum gjaldenda eða af gjaldendum beint. Það er nauðsynlegt, að sá, sem innheimtuna annast, láti vita fyrirfram, hvora aðferðina hann ætli að hafa, því að annars getur svo farið, að komið verði aftan að mönnum og heimtað gjald fyrir persónur, sem löngu eru fluttar burtu. N. hefur tekið losaralega og illa á þessu máli, og er nauðsynlegt, að því verði breytt, en réttast væri náttúrlega að fella það og aðskilja ríki og kirkju.