11.11.1947
Efri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þótt ég sjái, að hér séu ekki fjölskipaðri bekkir nú en í gær, mun ég ekki láta hjá líða að fara nokkrum orðum um frv. þetta. — Landbn. tók mál þetta til athugunar og umr., og varð niðurstaðan sú, að 3 nm. tjáðu sig samþykka frv. óbreyttu, en 2 nm., hv. 2. þm. Árn. (EE) og hv. 8. landsk. þm. (ÁS), lýstu yfir því, að þeir hefðu óbundnar hendur um frv. En að því er virtist af orðum þeirra, býst ég frekar við, að þeir séu ekki andstæðir málinu.

Frv. er nákvæmlega eins og það frv., sem flutt var hér í hv. d. á síðasta þingi. Þá var málið rækilega rætt hér, og væri það því aðeins upptugga á því, sem þar var talað, ef nú væri aftur farið að flytja langt mál nm frv. það, sem hér liggur fyrir. Frv. var nokkurs konar sáttatilraun eða meðalvegur, sem farinn var milli tveggja andstæðra flokka í þessu máli. Frv. var samþ. hér í hv. d., og lýsti hím með því skoðun sinni á málinu og vilja sínum um, að þarna drægi til sátta. Þegar frv. kom til hv. Nd., var svo áliðið þingsetu, að ekki var hægt að koma því fram, og dagaði það uppi. Þess vegna er það nú hingað komið. Ég skýrði frá því, að hér lægi fyrir skýr yfirlýsing frá hv. d. um að gera þetta samkomulag. Og þegar frv. var borið undir aðalfund stéttarsambands bænda í sumar. þar sem komnir voru saman menn úr ýmsum áttum og hinum ýmsu pólitísku flokkum, var það samþykkt samhljóða að óska eftir því, að þetta frv. yrði samþ. óbreytt á þessu þ. og gengið frá því með l. Dettur mér ekki í hug, að hv. d. gangi nú frá því, sem hún hefur áður samþykkt, og mundi slíkt verða til þess að skapa óþarfa urg og illindi meðal manna og flokka.

Með þessu frv., ef að l. verður, er gerð sú breyt. frá gildandi l., að stéttarsambandi bændanna sjálfra eru falin umráð sjóðsins að hálfu, þ.e. helmingur árlegra tekna hans, en búnaðarsamböndin fá hinn helminginn. Og ef við lítum þarna á, þá styrkja búnaðarsamböndin einmitt stéttarsamböndin og launa fulltrúa á fund stéttarsambandanna, svo að í raun og veru njóta samböndin því nær eins góðs af þessu og áður. Tel ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar.

Eiríkur Einarsson: Herra forseti. Þegar stofnað var til búnaðarmálasjóðs, var ég því heldur mótfallinn og fannst varla gerlegt fyrir hæstv. Alþ. að fara að narta þannig utan af landbúnaðinum til hluta, sem ollu þá í upphafi ágreiningi og hafa lengst af gert. Ég vil ekki verða til þess að ýfa þetta mál á ný, og mun í lengstu lög þegja það fram af mér, sem áður var gert að óvildarmáli og valdið hefur langvinnu þrátti bæði innan þings og utan. Mun ég þá eftir atvikum með þögninni samþykkja frv. eins og það liggur fyrir í meginatriðum. Samt eru nokkur atriði, sem að þessu lúta, sem frá mínu sjónarmiði eru þó ekki meginatriðin, en ég tel, að mættu betur og sanngjarnlegar fara. Það er ekki skiptingin, sem hefur verið deilt um, þ.e. helmingur sjóðsins til búnaðarsambandanna og hinn helmingurinn til stéttarsambandsins. Ég þegi það fram af mér, eins og ég áður gat um. En það, sem ég vildi gera að álitamáli og vildi, að brugðið yrði út af í frv. eins og það liggur fyrir, er, á hvaða skiptigrundvelli þetta skuli vera gert og þá jöfnum höndum um hlutaskiptin, sem gætu komið til greina í því sambandi. Ég á þar við það ákvæði frv., að helmingshluta búnaðarsambandanna skuli verða skipt milli þeirra af búnaðarþingi. Ég get ekki fallizt á, að búnaðarþing sé hinn rétti vettvangur til þessara skipta, þótt ég viti, að það mundi vitanlega gera það frá sínu sjónarmiði með sérstakri sanngirni og beztu vitund. Ég tel, að skiptihlutföllin á þessum helming séu í rauninni sjálfgefin að mestu leyti, og það eru þau skiptihlutföll, sem eftir núgildandi l. eiga sér stað, sem sé, að þessi helmingur, sem fellur í hlut búnaðarsambandanna, renni til þeirra í þeim hlutföllum, sem framlög reynast úr viðkomandi héruðum. Mér finnst þetta svo sanngjarnt eins og það er ákveðið í núgildandi l., að ekki sé ástæða til að breyta því. Og að fara að rökræða það nánar, af hverju þetta er mín skoðun og af hverju aðrir menn hafa aðra skoðun um þetta, er mér heldur til leiðinda, svo að ég læt það ógert. Búnaðarsamböndin ættu að verða aðnjótandi þess, sem þeim ber. Hitt opnar dyrnar. Ef þessi skipti væru falin öðrum, þá getur það frá þeirra sjónarmiði séð verið vinningur að fá allsherjar sætt í þessu máli. Það sé í rauninni að leysa búnaðarþing frá vanda að losa það við þessa skiptingu. Þess vegna vil ég leyfa mér að bera fram brtt. um þetta. Þá hefur hver sitt. Hitt tel ég ekki sanngjarnt, og gæti það vakið nýjar ýfingar með þeim mönnum, sem alltaf eru reiðubúnir til að vekja deilur.

Þá er það jöfnum höndum, að ég legg til, að reikningsfærslan sé ekki í höndum neins banka, því að mér finnst banki ekki vera rétti aðilinn, og þá finnst mér ekki heldur rétt, að reikningsfærslan sé í höndum búnaðarþings. Búnaðarþing kemur að jafnaði ekki saman nema annað hvert ár, en það torveldar strax allar aðstæður, þar sem búnaðarþing á enga ákveðna setu. Mér finnst, að sá rétti aðili til að hafa með höndum reikningsfærsluna sé Búnaðarfélag Íslands. Þar er unnið daglega að störfum, og mér finnst starfssvið þess vera þannig, að rétt sé, að það hafi þessa umsjá með höndum. Ég tel, að þessi bending frá mér, hvort sem hún nú verður samþ. eða felld, bendi í þá átt, að ég vilji vera friðarins maður um friðsamlega lausn þessara mála.

Ég legg nú fram brtt. frá minni hálfu, og verður kylfa að ráða kasti, hvað um hana verður. Ég vil nú með leyfi hæstv. forseta lesa upp þessa brtt.:

„Niðurlag 1. gr. („Búnaðarþing skiptir“ o.s.frv.) fellur niður, en í stað þess komi: Sjóður þessi skal vera í vörzlu Búnaðarfélags Íslands, er hefur á hendi stjórn hans og reikningshald. — Sá helmingshluti sjóðsteknanna, er rennur til búnaðarsambanda landsins, skiptist á milli sambandanna í réttum hlutföllum við það, sem framlög reynast úr viðkomandi héruðum.“

Þetta er nú ekki stórvægilegt, aðeins um breytt fyrirkomulag að ræða, sem ég tel betur fara svona, en meginatriðin þegi ég fram af mér. Ég vil nú leyfa mér að afhenda forseta þessa skriflegu brtt.