11.11.1947
Efri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Árn. viðurkenndi, að ekki væri hægt að vita fyrir þann. sem selur, frá hvaða bónda varan kæmi, né á hvaða sambandssvæði hann ætti heima, en hann vill, að með þessu sé fylgzt heima fyrir. Lögin segja: Gjald það, sem um ræðir í 1. gr., greiðist af þeim verzlunum og sölumiðstöðvum, er fyrst veita vörunum móttöku. Og hver á að innheimta þetta gjald? Það eiga lögreglustjórarnir að gera samkvæmt skýrslum, er þeir fá frá þeim, er selja vörurnar. Það er ekki ætlazt til þess í l., að skýrslur komi heiman að. Það gjald, sem sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu innheimtir, fær Búnaðarsamband Eyjafjarðar, enda þótt það sé að helmingi greitt af vörum, sem framleiddar eru í Skagafjarðar- og Þingeyjarsýslum. Og svo er víðar og víðast, að sölutakmörk varanna eru ekki bundin við takmörk búnaðarsambandanna. Þetta er svo ljóst. En hv. 2. þm. Árn. vill, að bændurnir gefi skýrslur og að gjaldið verði innheimt samkvæmt þeim. En eigi skýrslurnar að koma heiman að, verður að breyta l. og grundvallarreglunum fyrir innheimtunni. Hv. 2. þm. Árn. verður því að breyta l. meira en till. hans gerir ráð fyrir. Það verður að gera skrá um það, úr hvaða búnaðarsambandi varan sé, svo að sýslumaður sjái, hvert gjaldið aftur á að renna.

Þá vil ég benda á það, sem mér láðist í framsöguræðu minni, að við höfum samþykkt svipað gjald og þetta á sjávarútvegsvörur til Landssambands útvegsmanna. Meiningin með þessu er að útvega samtökunum rekstrarfé og létta þeim innheimtuna. Það leiðir af sjálfu sér, að bændurnir fái þetta á sama hátt og útvegurinn.

Ég skal svo ekki segja meira um þetta. Ég geri ráð fyrir því, að umr. verði frestað, og trúi ekki öðru en að hægt sé að fá samkomulag um þetta, þó að mönnum verði náttúrlega ekki alltaf að trú sinni.