15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. — Það var allmikill belgingur í hæstv. forsrh. hér áðan, þegar hann talaði. Hann fann hvöt hjá sér til þess að ræða nokkuð viðskipti íslenzks verkalýðs og ríkisstjórna á Íslandi, þó að mér virðist það bera meir vott um annað en hyggindi hjá honum að ræða þetta eftir þá fortíð, sem hann á í þeim efnum. Og hæstv. forsrh. fann sérstaka ástæðu til að geta um þá forsögu, sem ég ætti persónulega að baki mér viðkomandi baráttumálum íslenzks verkalýðs. Hann sagði, að forsaga mín væri sú, að ég hefði ferðazt um landið til þess að kljúfa verkalýðssamtökin og gera þannig klofning gegn Alþýðusambandinu. Þessi orð hafa fyrr heyrzt, en eru jafn ósönn engu að síður. Það er rétt, að ég ferðaðist um landið hér á árunum til þess að ræða við verkalýðinn um það ofurvald, sem þá hvíldi á verkalýðnum frá hálfu Alþfl., þegar engan mann mátti kjósa í trúnaðarstöðu í Alþýðusambandi Íslands nema alþýðuflokksmann og enginn mátti eiga sæti á alþýðusambandsþingi, nema hann væri alþýðuflokksmaður, burtséð frá því, að verkalýðsfélögin voru þá eins og í dag mynduð af mönnum, sem voru í mörgum flokkum með tilliti til stjórnmála. Ég vann að því, að þessu ofurvaldi Alþfl. í Alþýðusambandinu yrði af létt. Og það tókst. Sársauka núverandi hæstv. forsrh. yfir því, að svo skyldi takast til, get ég vel skilið í sambandi við afskipti þau, sem ríkisstj. hafði við verkalýðsfélögin nú á síðustu árum. Út frá þessu get ég vel skilið þann sársauka, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. í þeim ummælum, sem hann lét falla um þau. Þau mál eru kunnari en frá þurfi að segja, og ég geri hér ekkert til þess að rekja þau mál frekar. Ég bendi bara á þá staðreynd, að ríkisstj. varð að láta af þeim áformum, sem hún hafði í frammi gegn verkalýðshreyfingunni, vegna þess að verkalýðshreyfingin sýndi þann þroska að vera traust og heilsteypt, þegar hættu bar að garði, hvort sem hún kom fram í einni eða annarri mynd.

Hæstv. forsrh. sagði, að hann vildi gjarnan mega vona, að íslenzk alþýða losnaði við fantatök þau, sem hún væri beitt nú. Hver eru þessi fantatök, sem íslenzk alþýða nú er beitt? Þau eru ekki af hálfu þeirra, sem ráða verkalýðshreyfingunni nú í dag, heldur er hún tekin þeim af hinum, sem sækja að henni, sem sé hinum ráðandi mönnum í þjóðfélaginu. Flest af þeim málum, sr.m borin hafa verið fram og hafa átt að vera til lagfæringar á vandamálum í þessu þjóðfélagi, hafa verið á þá leið, að þau hafa verið bein eða óbein árás á alþýðuna í landinu. Og frv., sem hér liggur fyrir, virðist mér bera rækilegan keim af því. — Það hefur verið rætt hér um flest þau atriði, sem þetta frv. hefur inni að halda. Tel ég mig því ekki hafa ástæðu til að fjölyrða sérstaklega um það, enda áliðið orðið nætur. Ég vil þó fara nokkrum orðum um III. kafla frv., sem sérstaklega snertir launþega í þessu landi. Í 12. gr. er gert ráð fyrir því, að kauplagsvísitala verði bundin við 300 stig. Þarna er lækkun um 28 stig frá því, sem hún er, og verður vísitölunni síðan haldið í 300 stigum, hver svo sem hin raunverulega dýrtíð verður í landinu. Í sambandi við þessa gr. hafa þeir þrír hæstv. ráðh., sem talað hafa, látið í ljós þá skoðun sína, að gildandi fyrirkomulag í sambandi við verðlagsuppbætur til launþega væri nú að ríða íslenzku fjármálalífi að fullu. En það hafa ekki verið færð sérstök rök fyrir þessari staðhæfingu, sem ég get líka vel skilið, því að ég get ekki séð, á hvern hátt hægt er að sannfæra menn um það, hvernig slík fullyrðing byggist á staðreyndum. Það hefur líka verið sagt af hæstv. ráðh., að þeir, sem nú skipa forustusess hjá hinni íslenzku verkalýðshreyfingu, hefðu verið óánægðir með þá vísitölu, sem nú gildir, og það hefur verið fært sem sérstök rök fyrir því að breyta nú um í þessu efni eins og í frv. er gert ráð fyrir. En ástæðan fyrir því, að óánægja hefur verið með verðlagsuppbæturnar meðal launþega, hefur fyrst og fremst verið sú. að launþegar hafa litið svo á, að verðlagsvísitalan væri ekki sanngjörn, heldur lægri en svaraði til verðs nauðsynjavara, sem verkamenn og aðrir þyrftu að kaupa. Ég minnist þess og geri ráð fyrir að fleiri muni muna það, hvernig verkalýðshreyfingin í þessu landi allt til 1940 háði harða baráttu fyrir því að fá laun sín bætt upp eftir því, sem verðlagið hækkaði í landinu. Verkalýðshreyfingin náði að nokkru að koma því fram, sem hún barðist fyrir, með því að fá tekið í samninga 1940, að ákveðið var, að á grunnkaup skyldi greiða fulla verðlagsuppbót eftir vísitölu. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta hafi verið mikið happaspor, vegna þess að það hlýtur alltaf að vera það lögmál um það, þegar meta á, hvað einn maður á að fá fyrir sína vinnu, að hann fái það kaup, sem hann getur framfleytt sér og sínum með. Það er rétt, að frá 1940 hafa orðið margs konar breyt. á kaupgjaldi í landinu. Grunnkaup hefur á þeim tíma hækkað verulega. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú, að breyt. hafa orðið miklar á verðlagi. — Ég tel því, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé farið inn á mjög hættulega braut. Með því er kaupgjaldið tekið úr sambandi við verðlagið í landinu. Á meðan svo var, fyrir árið 1940, eins og ég gat um áðan, var ríkjandi mikil óánægja meðal launþega, sem hljóðnaði ekki alveg 1940, þó að þá væri að vísu stigið stórt spor í rétta átt. En hitt fullyrði ég, að þegar svo er komið eins og hér á að gera, að kaupið er tekið úr sambandi við verðlagið í landinu, þá verður mikil óánægja með það meðal launþega. — Mig minnir að það hafi verið hæstv. forsrh., sem gat þess í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv., að í sambandi við þessar dýrtíðarráðstafanir mundi verðlagið í landinu ekki hækka, en jafnvel lækka. Mér virðist þetta einkennilegar upplýsingar, þegar þetta er borið saman við það, sem síðar er tekið fram í frv., að leggja skuli á allt að 31/2% söluskatt. Og virðist mér, að þessi rýrnun, sem á að verða á kjörum launþega, verði nú þegar öllu meiri en gert er ráð fyrir hér í þessum III. kafla, líka með því að varan í landinu hækkar allverulega í verði vegna söluskattsins, en launþegar fá ekki launauppbætur samsvarandi verðhækkuninni. — Það hefur verið mjög talað um það í sambandi við þetta mál, að vinnufriður í landinu sé ákaflega þýðingarmikill. Ég vil sízt draga í efa, að það sé þýðingarmikið fyrir þjóðfélagið, að þegnarnir lifi í sátt og samlyndi hver við sitt starf. Og ekki geng ég þess dulinn, að vinnuófriður hafi margfaldlegan skaða fyrir þjóðfélagið í för með sér. Þess vegna harma ég þær ráðstafanir, sem stefnt er að með þessu frv., sem geta valdið því, að vinnufriður héldist ekki í landinu. Ég slæ engu föstu um það, hvort sá vinnufriður, sem nú er í augnablikinu, spillist eða ekki. En ég þykist geta sýnt fram á, að frv. þetta skerðir verulega hagsmuni launþega og hlýtur að vekja hjá þeim óánægju. Reynslan ein sannar svo, hvaða aðgerða sá óánægði krefst, og ég vil engu spá um það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að segja öllu meira um þetta. mál á þessu stigi. En ég vil aðeins segja það að lokum, að ég tel það mjög misráðið hjá hæstv. ríkisstj. að taka kaupgjaldið úr sambandi við verðlagið í landinu, vegna þess að með því er stofnað til ráðstafana, sem verka þannig, að það kaupgjald, sem nú er gildandi í landinu og margir telja, að sé of hátt, er ekki hærra en það, að hjá þeim, sem lægst eru launaðir, verkamönnum, nægja launin naumast fyrir brýnustu nauðsynjum. Séu þessi kjör rýrð, eins og hér er gert ráð fyrir, hlýtur það að verða þess valdandi, að þeir, sem fyrir því verða, gera sínar gagnráðstafanir. Ég þrái ekkert, að sá vinnufriður, sem nú er í landinn, spillist. Ég kæri mig ekkert um og er þess ekkert fýsandi, að átök skapist í þjóðfélaginu út af kaupgjaldsmálum. Og það er þess vegna, að ég enn lýsi yfir því og ég legg áherzlu á það —, að ég tel það mjög misráðið hjá hæstv ríkisstj. að leggja út í að gera þær ráðstafanir, sem hún gerir í þessu frv., og ég vonast a.m.k. eftir því, að þessar gr., sem eru um að binda kaupgjaldsvísitöluna við ákveðið stig, fái þær breyt., sem nauðsyn er á, eða verði jafnvel felldar niður.