15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. meiri hl. (Jón Sigurðsson):

Ég ætla ekki að flytja langa ræðu um þetta mál. Það er þm. kunnugt, því að það er í einni eða annarri mynd búið að liggja fyrir allmörgum undanförnum þingum. Í þeirri mynd, sem það er nú, var það lagt fyrir hv. Ed. á síðasta þingi, var samþ. þar og sent hingað til Nd., vísað til 2. umr. og landbn., en dagaði uppi, vegna þess hvað áliðið var orðið þings og komið fast að þinglokum. Og nú í haust var málið tekið upp aftur á ný, að mestu af sömu mönnum og áður höfðu beitt sér fyrir þessari breyt. Það var samþ. í Ed. og sent því næst hingað til Nd., sem vísaði málinu til 2. umr. og landbn. 2. des. Það má því segja, að málið sé búið að dvelja lengi hjá okkur í landbn., en ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú, að samþ. var í n. að senda málið til umsagnar stjórnum allra búnaðarsambanda landsins. en það eru þau, sem ákvæði þessara breyt. gilda alveg sérstaklega. Eins og öllum er ljóst, tók þetta mikinn tíma, og n. beið með að skila áliti sínu og gat það ekki fyrr en svör höfðu borizt. Þau eru nú komin frá öllum búnaðarsamböndunum, sem lýsa öll yfir því, að þau séu samþykk þessari breyt. Þó eru tveir stjórnarnefndarmenn, hvor í sínu búnaðarsambandi, — þau eru 14 alls, — sem telja sig ekki geta aðhyllzt þessa breyt. - Þegar þetta lá fyrir, kom n. saman á fund, og eins og nál. ber með sér, klofnaði n. Meiri hl. n. taldi rétt og skylt, að fengnum þessum upplýsingum, að hlíta þessu og leggja til, að frv. yrði samþ., þar sem búnaðarsamböndin öll hafa tjáð sig því fylgjandi, að þessi breyt. verði gerð. Minni hl. hefur hins vegar skilað séráliti og leggur til, eins og nál. hans ber með sér, að málinu verði vísað frá.

Ég vil nú vekja athygli á því, að þessar brtt. eru fram bornar sem miðlunartill., tilraun til þess að miðla málum í þeim deilum, sem staðið hafa um þetta mál um nokkurt skeið, og þannig er líka á þetta litið af hálfu þeirra manna, sem með þetta hafa að gera, búnaðarsambandanna og annarra, sem telja, að þetta sé eðlileg miðlun.

Auk þess hafa um þetta mál fjallað ekki aðeins búnaðarsamböndin, fundir þeirra, heldur einnig búnaðarþing og aðalfundur stéttarsambands bænda. Báðir þessir fundir hafa lýst yfir því, að þeir geti fyrir sitt leyti fallizt á þessa breyt. Fundur stéttarsambands bænda veitti þessu samþykki með öllum samhljóða atkvæðum.

Ég held þess vegna, að það sé ekki lengur hægt að segja, að vilji manna í þessum efnum sé ekki orðinn nokkurn veginn fullskýr. Og þá er að meta það, hvort menn vilja taka tillit til þeirra óska, sem þarna koma fram, þeirra jákvæðu svara, sem þarna birtast. Ég tel nú, að það geti ekki orkað tvímælis, að slíkt beri að gera, og styðst ég þá m. a. við það, að þótt menn kynnu eitthvað að hafa að athuga við greiðslur til þessa stéttarsambands, eitthvað að athuga við þetta form á því, má benda á það, að Alþ. veitti í fyrra stéttarfélagi útvegsmanna alveg sams konar rétt með lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Það er þess vegna ekki verið að skapa hér neitt fordæmi. Þvert á móti. Hér er fetað af hálfu okkar bænda í þá slóð, sem þegar hefur verið farin og Alþ. samþykkti fyrir sitt leyti, og mér finnst það undarlegt, ef alþm. telja sjálfsagt að veita einu stéttarfélagi slík réttindi, en synja okkur bændum um það sama. Ég á ekki von á því, að alþm. sýni slíka hlutdrægni í okkar garð. Ég vænti þess vegna, að þetta, sem er, eins og ég sagði áðan, tilraun til þess að miðla málum, verði til þess að háðir aðilar geti vel við unað og slái báðir nokkuð af kröfum sínum. Ég vænti þess vegna, að menn geti fallizt á þetta og þetta geti gengið nokkurn veginn viðstöðulaust, það sem eftir er.

Um nál. minni hl. ætla ég ekki að ræða. Hann gerir að sjálfsögðu grein fyrir sinni afstöðu, sem ég ætla, að ég þurfi litlu að svara. Virðist þar vera fetað í svipuðum anda og fram kemur í þeim greinum, sem birzt hafa um þetta á undanförnum árum og hefur verið svarað áður, og ætla ég mér því ekki að eyða miklum tíma í að gagnrýna það nú, þótt síðar yrði.