15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara langt út í ræðu hv. þm. A-Húnv., en ég vil minnast á eitt atriði í henni. Hv. þm. sagði, að verið væri að svíkjast nm að greiða það fé til búnaðarsambandanna, sem þeim bæri lögum samkvæmt, og innheimtan á fénu væri í mjög slæmu lagi. Ég veit ekki til, að innheimtan 1946 hafi verið neitt öðruvísi en 1947. og því engu verri. Hitt er svo annað, að menn hafa viljað skilja sum ákvæði l. um búnaðarmálasjóð misjafnlega. Ég hef athugað ágreining út af þessu, og ég verð að viðurkenna, að mér finnst vafasamt, á hvern hátt eigi að skýra sum ákvæðin. Hitt, að verið sé að svíkjast um að greiða fé það, sem tilskilið er, er mesti misskilningur. Það, að ekki er enn búið að greiða úr sjóðnum til búnaðarsambandanna, stafar af því, að varla er búið að innheimta allt féð. Og þar sem reikningsskil ganga svo seint, og ekki er vitað með vissu, hvað tekjur sjóðsins verða miklar, þá er ekki hægt að skipta fénu nákvæmlega strax. Hins vegar var farið fram á, að eitt búnaðarsamband fengi nokkra fúlgu af því fé, sem það kemur til með að eiga rétt á, og var það veitt. Og strax ettir að sýnt er, hversu tekjur sjóðsins verða miklar, hefst skiptingin.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi taka fram í sambandi við ræðu hv. þm. A-Húnv.