15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú nokkrum sinnum verið til umr. hér á Alþ., og þeir menn, sem til þess hafa stofnað, hafa nú rekið sig á, að skoðun þeirra er röng, og hafa þeir því mjög orðið að lækka seglin, og mun ég nú víkja nokkuð að því. Það eru nú liðin tvö ár síðan tveir hv. þm. héðan úr d., þeir hv. 1. þm. S-M. og hv. 1. þm. Skagf., komu til fundarhalda norður í Þingeyjarsýslu til þess að sannfæra bændur um það, að það væru svík við þá, ef nokkru af fé búnaðarmálasjóðs væri varið öðruvísi en Stéttar samband bænda vildi ráðstafa því. Það hefði þótt einkennilegt norður í Þingeyjarsýslu, að hv. 1. þm. Skagf. ætti að gera helmingaskipti við sannleikann. Þetta var ekki annað en viðurkenning á skoðun okkar, sem höfðum gagnrýnt skipulag þetta. Ég tel það stuðning við málið, að hv. 1. þm. Skagf., sem gerði sér langa ferð til að sannfæra sýslunga okkar beggja, hefur nú vikið af fundi og hefur sennilegast komizt að raun um, að ekki er auðgert að halda fram málstað sínum. Eins og löggjafinn ber fram þessa breyt., er hún fordæmalaus, þar til fiskábyrgðin í fyrra kom til sögunnar. Og þótt ótrúlegt sé, hefur hæstv. landbrh. fengið stuðning í sambandi við hættulegustu og heimskulegustu löggjöf, sem gerð hefur verið á þinginu og er Alþ. til skammar og háðungar. Það er vel, að hæstv. landbrh. fylgir málinu á undanhaldinu, sem lýkur ekki fyrr en þessi sneypa hefur með öllu verið afnumin. Þessi löggjöf er án fordæmis meðal siðaðra þjóða. Þegar verkalýðssinnum tókst að koma á hinum illa undirbúna orlofsl., til þess að fólk í kaupstöðunum gæti létt sér upp og skemmt sér, sem hvílir að nokkru á atvinnurekendum, vildu fulltrúar bænda úr Framsfl. og Sjálfstfl., að bændur fengju nokkuð á við kaupstaðafólkið. Og er ekkert nema gott um það að segja, að þeir menn, sem stunda framleiðslu í sveitunum, fái tækifæri til að létta sér dálítið upp. En þessu var illa tekið af forsprökkum bæjarmanna og allar till., sem fram komu um réttlæti á þessu sviði, voru umsvifalaust brotnar á bak aftur. Og mátti nú glögglega sjá, að þungamiðja þjóðfélagsins var flutt úr sveitunum til kaupstaðanna. Með þessari afstöðu kaupstaðabúa var framið réttarbrot á sveitafólkinu, þar eð það hafði að sjálfsögðu sama rétt til hvíldar og skemmtana og þeir, sem í bæjunum búa. Þá komu málsvarar bænda, þar á meðal hv. þm. Str., fram með þá till., að greiddar skyldu úr ríkissjóði 10 kr. til hvers sveitaheimilis, er varið skyldi til skemmtiferða. En þetta fékkst heldur ekki. Á þessum tíma er metnaður sveitanna orðinn svo lítill, að farið er fram á 10 kr. styrk úr ríkissjóði til skemmtiferða sveitafólks. Þegar þetta er borið saman við orlofslögin, sést glögglega, hversu lágt er lagzt. Búnaðarfélagsforkólfarnir og hæstv. landbrh. hafa ekki staðið fyrir máli sínu, og lætur nú hæstv. ráðh. auðan stól eftir til að verja miklar sakir og litlar afsakanir. Það er honum sjálfum að kenna, að hann leggur á flótta, og get ég því ekki hlíft honum, þótt hann ætlist ef til vill til þess með fjarveru sinni. — 10 kr. aðgerð hv. þm. Str. er táknræn fyrir alla meðferð málsins. Það er svo mikil þolinmæði og auðmýking og svo mikil þolinmæði í því að taka við neitun meiri hluta þm., að furðu sætir. Og þetta þurfa fulltrúar á búnaðarþingi við að stríða. Bændur. sem áður voru í meiri hluta, en eru nú í minni hluta, biðja meiri hlutann að reyta til sín peninga, sem þeir eiga raunar sjálfir. Bændur geta ekki leitað til þess aðila og beðið um hjálp, sem hefur sýnt sig að því að bera ekki of mikla virðingu fyrir bændum, hinna sömu manna, sem vildu ekki láta þá hafa orlof og ekki einu sinni 10 krónurnar og gætu kippt í strenginn, þegar þeim þætti miður við bændur. Ógæfa bænda liggur í því, að þeir þurfa að fara beiningaleið að þeim mönnum, sem eru þeim ekki of hliðhollir, og fá þá til að innheimta þessi gjöld fyrir sig.

Ég hét Ólafi Jónssyni, formanni Ræktunarfélags Norðurlands, verðlaunum í hittiðfyrra, ef hann gæti nefnt dæmi þess í frjálsu landi, að stéttarfélag léti ríkisstj. innheimta félagsgjöld sín. Hann gat ekkert dæmi fundið, sem varla er von, því að þetta er fordæmislaus vitleysa.

Hv. 1. þm. Skagf. og hæstv. landbrh. og hv. 2. þm. Skagf., sem einnig hefur látið flækja sig í þetta mál, hafa nú séð sinn kost vænstan í því að flýja út úr d., en það bjargar ekkert við máli þeirra, er var og verður ranglátt, en ég vil láta koma fram í Alþt., hversu rökþrota þeir eru og flæktir. Ólafur Jónsson á Akureyri sá, að hann gat ekki bjargað málinn við. Eftir að búið var að neita um réttlátan styrk til skemmtiferða og eftir að búið var að neita um 10 krónurnar, fundu forráðamenn búnaðarmálanna það upp, að við skyldum biðja bæjarmeirihlutann að leggja bönd á okkur sjálfa fyrir okkur sjálfa. Og þeir gerðu það. Þeir lögðu skatt á bændur, til þess að bændur gætu skemmt sér. Hv. þm. A-Húnv. tók það fram, að bygging gistihúss hér í bæ væri bændum nauðsynleg. Þetta er rétt, en eðlilegast væri þá að leggja á landsskatt. Bændur hafa sýnt, að þeir geta leyst þetta vandamál. T.d. hafa bændur í Eyjafirði reist myndarlegt gistihús á Akureyri fyrir sína eigin peninga og þannig leyst gistihúsvandræðin á Akureyri. Víðar um land hafa kaupfélögin leyst þetta vandamál, þótt í smærri stíl sé. Eins hefðu kaupfélögin getað gert hér í gegnum S.Í.S., fyrst samvinnufélögin gátu leyst þetta vandamál víðs vegar um land. En þeim datt ekki í hug, að þeir gætu gert það sama hér og eyfirzkir bændur gerðu norður á Akureyri. Í Danmörku hafa danskir samvinnumenn byggt gistihús, Grundtvigshúsið í Khöfn, vistlegt og gott gistihús, þar sem bændur, sem til borgarinnar koma. geta fengið kjarngóða og heilsusamlega fæðu eins og þeir voru vanir heima. En hér gáfust bændasamtökin upp við að koma upp gistihúsi, þótt sýnt væri á einum stað og tveimur stöðum í smærri stíl hér á landi, að slíkt væri hægt. Þeir gáfust því upp við það, en hugðust skattleggja bændur til þess að koma þessu í framkvæmd. Búnaðarfélagsforkólfarnir vantreystu þannig bændum, þótt þeir hefðu sýnt, að þeir væru þessum vanda vaxnir, ef þeir fengju sjálfir að ráða, og höfðu á einum stað í stórum stíl og tveimur stöðum að nokkru leyti leyst hið vandasama hótelspursmál.

Búnaðarleiðtogarnir í Sjálfstfl. og Framsfl. höfðu staðið saman á stríðsárunum til að tryggja eðlilegt verð á landbúnaðarvörum. Samtök þessi voru nefnd „tvennir fjórtán“, þ.e. 14 framsóknarmenn og 14 sjálfstæðismenn. Í stríðsbyrjun, þegar Bretar tóku að draga fólk úr sveitunum til sjávarsíðunnar, gengust þessi samtök fyrir því, að nokkuð af því mikla fjármagni, sem aflaðist við sjávarsíðuna, væri látið í sjóð. Þessi samtök „tvennir fjórtán“, sem ég átti nokkurn hlut að með hv. þm. Borgf.. tókust vel. En þá kom annað til sögunnar, sem ekki var eins heppilegt fyrir bændur. Það gerðist haustið 1944, að búnaðarþing var kvatt saman skyndilega til að ráða fram úr stjórnarmyndun, og var þetta furðuleg ráðstöfun. Og í Morgunblaðinu, sem er málinu kunnugt. er sagt, að leiðtogar Framsfl. og Sjálfstfl., þar á meðal formenn þeirra, Hermann Jónasson og Ólafur Thors, hafi farið fram á það við sína menn í stjórn Búnaðarfélagsins, að þeir reyndu að leysa vandamálið. Og strax nokkrum vikum fyrir lýðveldisstofnunina var hafizt handa að mynda stjórn. Reynt var að fá kommúnista með í þessa stjórn og var svipað því eins og á dansleik, þegar piltarnir keppast um að ná í fallegustu dömuna. Eins var nú rauða daman eftirsótt af borgaraflokkunum. En rauða daman hélt áfram að vera treg allt sumarið 1944 og neita dansinum. Hinir stóðu þungbúnir, og undir haust andvörpuðu forkólfar Framsfl. og Sjálfstfl. þunglega og sáu, að nú var ekki um annað að gera en hafa dansinn nokkuð öðruvísi en þeir höfðu ætlað í fyrstu. — Svo virðist sem þessi frásögn Morgunblaðsins sé sönn. A.m.k. hefur henni aldrei verið hnekkt. Búnaðarfélagsstjórnin hefur heimtað þetta, og þótt misráðið hafi verið, hefur bæði henni og Búnaðarfélaginu gengið gott til.

Hv. þm. Borgf. var ljúft að mynda stjórn án kommúnista, eins og síðar kom fram. Stjórn Búnaðarfélagsins þótti mikils um vert, að samstarf tækist og framhald yrði á stefnu hinna „tvennu fjórtán“. Búnaðarþingsfulltrúar voru nú kallaðir til Rvíkur, og vitað er, að fulltrúar tveggja flokka, Sjálfstfl. og Framsfl., fullyrtu, að ákveðið væri að mynda stjórn, sem þessir tveir flokkar ættu sæti i. Hvort Alþfl. átti að vera með, er ekki vitað. Markmið hinnar nýju stjórnar var að lækka dýrtíðina, og var því farið fram á það við búnaðarþingsfulltrúana, að þeir gæfu eftir uppbót til bænda, sem það ár átti að vera á 9. millj. samkvæmt áliti 6 manna n. Þessi upphæð var að vísu nokkuð stór, en því var haldið fram, að þessi meiri hluti ætlaði að lækka dýrtíðina, og ef bændur riðu á vaðið í þessum efnum, mundu aðrir koma á eftir. Og hvernig var svo gengið frá þessu máli? Bændur voru þarna gabbaðir af þeim mönnum, sem þeir treystu. Ef bændur hefðu þarna verið að semja við júrista, mundu þeir hafa haft þetta skriflegt. En sveitamenn eru vanir að treysta hver öðrum, og svo var einnig í þetta sinn. Þótt bændur hafi um 1000 ára skeið haldið uppi sjálfstæðri menningu, þá tapa þeir, er þeir koma á leikvöll með kaupstaðarbúum. Það er notað sem nokkurs konar skammaryrði um bændur, hve auðgert sé að leika á þá. Kaupstaðamenn, sem eru á ferð uppi í sveit, eru algerir viðvaningar í því að fara með hesta. Eins er það, þegar sveitamenn koma á leikvang kaupstaðabúa. Þá eru þeir algerir viðvaningar, og svo reyndist í þessu máli, sem eru hinar stórkostlegustu bændaveiðar, sem saga vor getur um.

Og það var meira að segja komið svo langt, að talað var um, hver ætti að verða atvmrh., og það var einn af trúnaðarmönnum Búnaðarfélags Íslands. En þegar svo átti að fá fastan grundvöll í málinu, þá var öllu frestað. En svo kemur rauða daman og var ekki alveg óvinnandi. Hún hafði haldið biðlunum frá sér allt sumarið. En kommúnistar vissu, hvað þeir vildu. Þeir vildu koma á stjórn undir haustið og leika þannig á bændur, og til þess ætluðu þeir að fara að eins og þeir reyndar gerðu. Og þegar búið er að kalla búnaðarþingið saman og búið að lýsa yfir hér, að þeir sætti sig við að falla frá þeim eina rétta grundvelli, sem byggður var á sexmannanefndarálitinu, — þegar þar er komið sögu, fer eins og stormsveipur gegnum hið pólitíska loft, því að þá koma kommúnistar til form. Sjálfstfl. og segja, að það sé síður en svo, að þeir hafi á móti því að vinna með honum, og að hann sé einmitt maðurinn, sem þeir hafi alltaf verið að hugsa um, og einmitt með því að mynda með honum ríkisstj., þá sé hægt að stjórna landinu vel. Eftir að hafa þurft að vera svona lengi á biðilsbuxunum vegna hinna tveggja flokka, þá var nú vandi vel boðnu að neita. Þeir, sem höfðu þarna mest barizt fyrir því að mynda þingræðisstjórn, fengu þarna tækifærið. Og endirinn varð því sá, að þriggja flokka stjórn var mynduð. En sá maður, sem sat nú eftir með sárt ennið, var form. Framsfl. Og hvernig sem það atvikaðist, þá á það kannske við þarna í þessum pólitíska leik, sem Einar Benediktsson sagði: „Sekur er sá einn, er tapar“.

Annar eftirminnilegur þáttur er það, þegar bændur voru fengnir til þess að gefa eftir þessa peninga. Þá skrifuðu þessir tveir menn, form. Framsfl. og Sjálfstfl., tvær greinar. Þær voru svo áþekkar, að þær gætu hafa verið skrifaðar í sama herberginu. Þeir gætu hafa haft sama uppkastið. Þeir þökkuðu bændum landsins fyrir þennan drengskap og þjóðarhollustu, sem þeir hefðu sýnt með því að ganga á undan með góðu eftirdæmi og gera ekki eigingjarnar kröfur. En þrátt fyrir það mikla þakklæti þá risu bændur í einum landshluta upp á móti þessum aðgerðum, og mun þeim hafa tekizt að fá eitthvað lítils háttar af þeim peningum, sem þeir áttu að fá. Ég vil ekki eyðileggja matmálstíma hv. þm., en aðeins þetta, að eftir að sunnlenzkir bændur sáu, að þeir höfðu verið þarna verulega sviknir, vildu þeir gera eitthvað í málinu. Ég tók mig fram um það. af því að ég var ekki við þessa samningsgerð, að boða til fundar á Selfossi og bjóða þessum forkólfum Framsfl. og Sjálfstfl. að mæta þar. En af því að þarna var þá sýnilega um stjórnarmyndun að ræða, og kannske annar þeirra líklegur til þess að verða forsrh., þótti forráðamönnum útvarpsins rétt að láta ekki tilkynninguna um fundinn fara gegnum útvarpið, nema þeir fengju um það að vita. En hv. þm. Str. misnotaði aðstöðu sína þarna, því að þegar hann fékk að vita um þennan umræðufund, sem boðaður hafði verið í samráði við bændur, þá fékk hann útvarpið til þess að skjóta inn í auglýsingu um fundi, sem hann ætlaði að halda. Þarna var ekki aðeins um misnot á ríkisútvarpinn að ræða, heldur líka gerð tilraun til þess að eyðileggja samtök bænda.

Ég ætla nú að enda ræðu mína á þessu stigi, þegar búið er að leika á bændur á þennan hátt. Það er búið að fá þá til þess að gefa eftir stórar fjárhæðir, en hvergi hefur átt sér stað lækkun, heldur hækkun, en það hefur ekki tekizt að þagga niður óánægju meðal þeirra, og bændur á Suðurlandi hafa gort uppreisn. — [Fundarhlé].