15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Ég hefði að vísu helzt óskað að fá úr því skorið, hvort hér á að víkja frá venju. en það kemur ekki beint við mig, hvort vikið er út frá reglunum, og get ég því byrjað og sagt það, sem ég þarf að segja.

Það hefur verið fátt sagt af hálfu fylgismanna frv., en þó hefur ýmislegt komið fram, sem ástæða er til að víkja að. Hæstv. atvmrh. sagði nokkur orð næst á eftir mér, sem eru eftirtektarverð og snerta aðalkjarna málsins, eins og búið er að reka það af þeim, er valdið hafa. Hæstv. ráðh. sagði að vísu, að gjaldíð hefði innheimzt sæmilega, en að enn væri ekki allt komið inn fyrir árið 1946. Innheimtan er því ekki í betra lagi, eins og ég þóttist sjá, er ég fékk skýrslu þessu viðvíkjandi frá Búnaðarbankanum. Þetta kemur manni heldur ekki á óvart, því að það er kunnugt, að sumir sýslumenn hafa ekki fengið fyrirmæli um það enn að innheimta gjaldið 1947. Þetta er því sönnun fyrir því. sem ég sagði, og kemur fram í nál. minni hl., að það hefur verið svikizt um að borga gjöldin til búnaðarsambandanna. Svo eru stjórnir þeirra kúgaðar til þess að ganga inn á breyt., er felst í frv., og þær hafa gert það í þeirri von, að þá muni þær að minnsta kosti fá eitthvað. Þarna er rótin. Meðal þeirra, sem gengizt hafa inn á þetta, eru menn, sem raunverulega eru harðir á því að hafa l. eins og þau eru nú. Það kom líka fram í ræðu hv. 2. þm. Rang., að hann hefði orðið að ganga hart að og toga með töngum 60 þús. kr. út úr Búnaðarbankanum fyrir búnaðarsamband, sem á að fá 100 þús. kr. á ári. Það er þessi eini hv. þm., sem hefur sýnt þann manndóm að herja þetta út, þrátt fyrir tregðu.

Hv. þm. V-Ísf., sem nú er mér til raunar í meiri hl. landbn., sagði hér nokkur orð og færði orsakir fyrir því, hvers vegna hann hefði nú tekið öðruvísi á málinu. Eins og vænta mátti, hafði hann um það hófleg orð, en mér þykja ástæðurnar undarlegar. Ég þykist vita, að hv. þm. hafa ekki grunað, af hverju samböndin svöruðu svona eindregið.

En það var annað, sem mestu máli skipti og hafði mest áhrif. Á síðasta þingi var það samþ. að veita Landssambandi íslenzkra útvegsmanna ákveðið prósentugjald af útfluttum fiski til starfsemi félagsins. Hv. þm. V-Ísf. lýsti því yfir, að hann hefði verið þessu andvígur, og það var ég líka, og að hann hefði séð fram á það, að þetta væri upphafið að því, að önnur stéttarfélög fengju sömu réttindi, Af hverju vill hann þá slá undan nú, þótt hann álíti þetta rangt, því að mér er kunnugt um það, að hv. þm. skilur vel, hvað hér er á ferðinni? Hann er ekki þeirrar skoðunar, að stéttarfélagsgjöld eigi að innheimtast með l. En mér virðist aðferðin sú, að af því að það var gerð vitleysa í fyrra, hvað útvegsmennina snertir, þurfi að endurtaka þessa vitleysu gagnvart bændum, og næst koma sennilega verkalýðsfélögin og öll önnur stéttarfélög og heimta, að ríkið innheimti félagsgjöldin. En þetta er aðferð, sem mér finnst óhafandi. Þetta minnir á hið forna spakmæli, að svo skal böl bæta að bíða annað meira.

Eins og nú er komið, eru völdin ekki lengur hjá Alþ. eða stj., heldur í höndum ýmissa ráða, nefnda og stéttarfélaga, sem geta eyðilagt löglegar ákvarðanir. Ég á ekki við það, að stéttarsamband bænda sé hættulegt í þessu sambandi, en ég álít, að þessar innheimtuaðferðir séu rangar, og því hef ég verið á móti því, að gjöldin séu innheimt á þennan hátt. Það er rétt, sem hv. þm. Rang. sagði, að grundvöllurinn fyrir þessu er sá, að þeir, sem að málinn standa, bera svo lítið traust til stéttarbræðra sinna, að þeir álíta, að þessi gjöld verði ekki innheimt nema með l. Bændur eiga þetta vantraust ekki skilið, og það er auðvelt að skipa þessu á annan veg. Stjórnir búnaðarsambandanna hafa að vísu látið undan síga, en Framsfl. hefur lengi legið á því lúalagi að sýna bændum yfirgang. Það er engin tilviljun, að menn leggjast á hnén, þegar þeir eiga í baráttu við Framsfl.

Það er kannske utan við verkefni þessarar umr., hver afrek liggja eftir svokallað stéttarsamband bænda, er stofnað var á leynilegan hátt, svo að ekki sé meira sagt. Það er eðlilegt, að bændur hafi stéttarsamband, og það hafa þeir líka haft í búnaðarfélögum hreppanna, búnaðarsamböndunum og Búnaðarfélagi Íslands. En hér var reynt að koma upp pólitísku stéttarsambandi. En það reyndist erfitt að halda þessu saman, enda þótt ágreiningur væri enginn meðal bændanna.

Varðandi stéttarsamband bænda er tvennt, sem vert er að minnast. Annað er breyt. á l. um verðlagningu landbúnaðarafurða, og það er það, sem ég á við, er ég segi í nál., að það verði að skipta um stjórn og starfshætti. Í stað þess, að áður ákváðu fimm bændur verðlagið, er það nú þriggja manna nefnd. Fyrst átti að reyna samkomulag við launastéttirnar, en ef í harðbakka slægi, átti gerðardómur að koma til. En í þessum gerðardómi var ekki krafizt meiri hl., heldur átti oddamaður að skera úr. Og oddamaðurinn var ekki bændafulltrúi, heldur embættismaður í Reykjavík. Það var góður og gegn maður, en annarrar stéttar maður, sem átti að ákveða tekjur bænda, og fyrsta reynslan var sú, að verðið var ákveðið 12% fyrir neðan það verð, sem ákveðið var í 6 manna nefndinni 1943. Fulltrúar bænda í nefndinni, hv. 1. þm. Skagf., búnaðarmálastjórinn, sem hefur haldið sér bezt af þeim framsóknarmönnum, sem ekki hafa verið strikaðir út af flokkslistanum, Sigurjón í Holti og Sverrir Gíslason í Hvammi, heimtuðu, að haldið væri við það sama og 1943. En raunin varð önnur, eins og ég hef bent á og skólastjórinn á Hvanneyri hefur sannað enn betur í grein í Morgunblaðinu og Ísafold. Þetta er aðalafrek sambandsins.

Annað afrek sambandsins stendur í sambandi við þá ákvörðun bænda milli Blöndu og Héraðsvatna að fá fjárskipti í tæka tíð. Þessir bændur bundust samtökum um það í Varmahlíð að halda sitt strik, hvað sem stjórnarvöldin segðu, til þess að forða héruðunum frá háska garnaveikinnar. En vitið þið, hvað stéttarsamband bænda gerir á fundi sinum á Akureyri? Það ávitar bændur fyrir það að halda á rétti sínum.

Ég skal ekki rekja þessa sögu lengra, en snúa mér að því, sem virðist aukaatriði, en er það ekki, heldur aðalundirstaðan, og það er að breyta l. þannig, að það verði lagt undir búnaðarþing að skipta fé sjóðsins milli búnaðarsambandanna, en nú er sjóðurinn í vörzlu Búnaðarbanka Íslands. sem hefur á hendi stjórn hans og reikningshald. Það er rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að það getur kostað rifrildi á búnaðarþingi, eftir hvaða reglum eigi að skipta þessu fé. Aðaltilgangur frv. er að fá bændur skattlagða á einu svæði til þess að borga til annarra sambanda. Það er ekki að furða, þótt rödd komi fram frá Búnaðarsambandi Suðurlands, sem fyrst og fremst yrði þarna fyrir barðinu.

Hinn aðaltilgangur frv. og það, sem fyrir stuðningsmönnum þess vakir, er, að búnaðarsamböndin fái þetta fé, í stað þess að það gangi til hótelbyggingar í Reykjavík.

Þetta var á sínum tíma mikið kosningamál. Það kom varla svo út blað af Tímanum, að ekki væru þar óbótaskammir um bændaóvininn Jón Pálmason. Þetta verkaði mér þó allt til gagns í kosningunum, og því vilja þessir menn nú rétta eitthvað sinn hlut.

Varðandi brtt. hv. 2. þm. Rang. og hv. 2. þm. Eyf. vil ég segja það, að mér þykir hún óþarflega snemma fram komin, því að væntanlega gera þeir ekki ráð fyrir því, að dagskráin verði felld. En það er um fleiri breyt. að ræða, ef málið kemur til 3. umr., og ég vil gjarnan hafa samvinnu við þessa hv. þm., ef dagskráin verður felld, um fleiri breyt. og kysi því helzt, að þeir drægju brtt. sína til baka til 3. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Ég held, að ég hafi gert grein fyrir því, hvaða orsakir liggja til þess, að það er flutt.