15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég ætlaði varla að trúa því, að hæstv. forseta hefði orðið svo um að sjá, hverjir eru næstir á mælendaskrá, að hann færi að stytta ræðutíma. Ég hef yfirleitt ekki haldið svo langar ræður, að það væri mikil hætta á því, að það mundi tefja svo mjög störf þingsins.

Viðvíkjandi þessu frv., sem hér liggur fyrir og hefur átt að vera til umr. hér í dag, vildi ég segja nokkur orð, þó að megnið af þeim umr., sem hér hafa farið fram, hafi ekki verið um frv., heldur um það, hvað kommúnistar væru hættulegir í öllum þjóðfélögum og það þyrfti eiginlega að útrýma þeim. Svona hefur verið talað í 20–30 ár, það er ekkert nýtt. Mér kemur það ekkert undarlega fyrir, þegar þetta frv. kemur fram, þótt eingöngu sé gengið á hlut launþega, þegar á að lækka dýrtíðina, og ráðizt á kaupið, því að innan þessarar samkundu, Alþingis, hefur það ekki verið venja að ganga á rétt annarra í þjóðfélaginu en verkamanna og launþega yfirleitt. Þeir hafa átt litlum vinsældum að fagna hjá löggjafarvaldinu, og það eina, sem virðist hafa orðið að taka tillit til, það er, að verkalýðurinn hefur myndað með sér samtök, sem öðru hvoru verður að taka tillit til, og það er ekki í fyrsta skipti nú, sem löggjafarvaldið gengur inn á að skerða rétt fólksins. Samningar verkalýðsfélaga eru taldir hér vera frjálsir, og þau hafa mátt semja við atvinnurekendur um kaup og kjör. Árið 1940 var svo ákveðið, að það skyldi samið um grunnkaup og svo skyldi greidd full vísitala á það grunnkaup.

Nú skal hér með l. ákveðið í III. kafla frv., að þessi l. skuli vera brotin, og ríkisstj. eða löggjafarvaldið vill ekki standa við þær skuldbindingar, sem það hefur gert löglega gagnvart verkamönnum, og ákveður, að vísitalan skuli ekki vera nema 300 stig, þó að hún sé nú 328 stig. Nú lækkar, segja þeir, annað, sem þessu svarar, hjá öllum, þ.e.a.s. vörurnar lækka í samræmi við kaupgjaldið. En það er ekki nóg með þau 28 vísitölustig, sem þarna eru tekin af verkamönnum. Seinna í frv. er svo bætt við, að það, sem varan hækkar við söluskattinn, það má fara yfir á verkamenn líka, og ég er sannfærður um, að ef þetta verður að l., þá verður það, sem þarna er tekið af verkamönnum, sáralítill hluti, því þegar búið er að binda vísitöluna með l. við 300 stig, þá er engin ástæða fyrir þá að leyfa ekki vörunni að hækka, hækka álagninguna, eins og hefur verið gert, meðan það hafði áhrif á vísitöluna. Hvernig mundi það þá verða, þegar varan hefur engin áhrif á vísitöluna? En þetta út af fyrir sig er ekki neitt nýtt, því að það hefur aldrei verið talað um það í þessu þjóðfélagi, að nokkur hlutur kostaði nokkuð nema vinnan, það er það eina, sem alltaf hefur verið hægt að taka af.

Mig langar til að benda hæstv. forsrh. á það, að í útvarpsumr. hér um daginn þegar talað var um, að kaup verkamanna hefði komizt upp í hátt á annað hundrað þúsund krónur yfir árið, og ég veit, að það hefur komizt upp í 40000 kr. á Siglufirði, þá datt honum ekki í hug að nefna það, þó að félög hér í Rvík kaupi inn bíl og græði á honum 40 þús. kr. og það sé skattfrjálst. Það var bara af því, að maðurinn, sem var að vinna, hann fékk of mikið. Þetta hefði mér þótt undarlegt að heyra hjá hæstv. forsrh., þegar við vorum báðir í Alþfl. Hann var að tala um menn, sem hefðu verið reknir úr Dagsbrún, en hann man ekki eftir því, þegar hann lét reka félaga sinn, Héðin Valdimarsson, úr Alþýðusambandinu. Það var nefnilega vani, meðan þessir menn höfðu völdin, að ef einhver fann að því, sem gert var, þá var hann rekinn. Þetta hefur alveg breytzt, því að það hefur enginn maður verið rekinn úr Alþýðusambandinu, síðan þessi kommúnistastjórn tók við.

Hæstv. forsrh. talaði um pólitískt verkfall í vor. Það er enginn vafi á því, að það hefur aldrei verið misboðið eins verkalýðshreyfingunni eins og gert var í því verkfalli gagnvart Dagsbrún. Hvort það hefur verið að undirlagi hæstv. forsrh. eða ekki, skal ég ekki segja, eða hvort hans útsendarar voru þar að verki. Það hefur aldrei fyrr en í vor verið álitið hjá neinum mönnum í sáttanefnd, að það væru ekki verkalýðsfélögin sjálf, sem ættu að sjá um atkvgr. um tillögur sáttasemjara, og þetta gekk svo langt, að þegar við í Dagsbrún, sem telur 3000 meðlimi, töldum okkur þurfa lengri tíma til undirbúnings atkvgr. en eina nótt og höfðum ekki tilbúna kjörskrá — hvað skeður þá? Þá skeður það, að einn flokksbróðir hæstv. ráðh. segir: Það þarf ekki að vera að hugsa um það, við höfum kjörskrá Dagsbrúnar, — og það varð að fá fógetaúrskurð um, að það væri ekki löglegt. Þessi aðferð við verkalýðsfélagið verður lengi í minnum höfð af verkamönnum fleiri en kommúnistum, enda sýndi atkvgr. það, þegar hún fór fram, að það voru ekki kommúnistar einir, sem réðu þar, af þeirri einföldu ástæðu, að hagsmunabarátta verkalýðsins er ekki bundin við það, hvort menn eru kommúnistar, alþýðuflokksmenn eða sjálfstæðismenn. Þess vegna er ég sannfærður um, að hæstv. forsrh. hefur gert meira úr valdi kommúnista í Dagsbrún en það raunverulega er, vegna þess að verkamenn hafa nákvæmlega sömu hagsmuna að gæta, til hvaða flokks sem þeir teljast. Nú sagði hæstv. forsrh. áðan, að verkfallið í vor hefði verið pólitískt. En hvernig getur hann álitið, ef verkamenn vilja rétta hlut sinn eftir þessa löggjöf, að þeir geti háð ópólitískt verkfall? Löggjafarvaldið tekur að sér fyrir atvinnurekendur að klípa nú 28 stig af vísitölunni og með því að lækka laun launþega um 8.5%. Ef verkamenn segja við atvinnurekendur: Þið verðið að bæta okkur þetta, — þá geta þeir sagt: Þetta eru ekki okkar samningar. — Hvert eiga þá verkalýðsfélögin að snúa sér til að fá kjör sín bætt — til atvinnurekenda eða til ríkisstj.? Er þá langt yfir í pólitískt verkfall? Nei, sannleikurinn er sá, að aldrei með neinni löggjöf hafa verkalýðsfélögin verið eins mönuð út í pólitískt verkfall eins og í þetta skipti. Það eru ekki atvinnurekendur, sem gera þetta, þeir sögðu það beinlínis í haust, þegar þeir sögðu upp samningum, að þeir færu ekki fram á kauplækkun, m.ö.o., ef ríkisstj. kæmi ekki á móti og lagfærði dýrtíðina, þá mundu þeir ekki fara fram á grunnkaupslækkun, af því að þeir viðurkenndu, að laun lægst launuðu verkamanna væru ekki til þess að skerða þau, og ég er sannfærður um, að það eru allir sammála um það. En hvers vegna að fara þessa leið? Það er ekkert þarna, sem gerir annað en það að lækka lífsafkomu verkamannanna til þess að geta í skjóli þess aukið dýrtíðina eins og verið hefur, því að það hefur engin áhrif á kaupgjaldið, þó að vöruverð hækki. Svo er önnur hlið á þessu máli. Nú fyrir nokkrum árum hefur ríkisvaldið ákveðið með l., hvað laun allra starfsmanna ríkis og bæja skuli vera, þ.e.a.s. grunnkaup. Þessir menn geta ekki rétt hlut sinn nema gegnum Alþ., og meira að segja voru sumar launastéttir búnar að fá svo há laun, áður en þeir samningar fóru fram. með frjálsum samningum við atvinnurekendur sína, að kaup þeirra lækkaði við launal. Hins vegar gegnir allt öðru máli um verkalýðsfélögin, og ég er viss um, að með engum l. hafa verkalýðsfélögin verið eins mönuð til kauphækkana eins og með þessum l.

Þá var það aðeins um það, sem hæstv. utanrrh. tók fram í dag um atvinnuleysisskráninguna og að ekkert atvinnuleysi hefði verið hér. Það e.r satt, að það skráðu sig ekki nema 70 menn, þegar atvinnuleysisskráningin fór fram, en ég er sannfærður um, að hefði ekki þessi síld komið upp á þessum óheppilega stað, hér við Rvík, þá hefði orðið atvinnuleysi hér í stórum stíl. Við getum hugsað okkur, það eru komnir þarna 100 bátar og allir bátar úr Rvík og uppskipun á síld í stórum stíl og að það skuli samt hafa verið menn afgangs. Hvernig halda þessir hæstv. ráðh., að ástandið hefði þá orðið, hefði ekki komið þessi síld?

Ég sé, að hæstv. forseti er farinn að ókyrrast, og mun því ljúka máli mínu.