02.03.1948
Neðri deild: 67. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1762)

85. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Eins og ég tók fram, þá mun n. taka til athugunar frv. til l. um Reykjavíkurhöfn og taka afstöðu til málsins.

Ég heyrði ekki í ræðu hv. þm. Snæf., sem er borgarstjórinn í Reykjavík, nein rök fyrir því, að Reykjavík þyrfti að fá sérstök hafnarl., þegar búið er að setja ákvæði um hafnir á Íslandi í eina allsherjar löggjöf.

En eins og ég sagði í minni ræðu, ber að skoða þetta nál., sem hér liggur fyrir, sem afgreiðslu þessa Reykjavíkurhafnarmáls. Og n. mun ekki gera frekari grein fyrir því, nema sérstakar óskir komi þar um. Auðvitað verður hæstv. forseti að ákveða, hvernig hann snýst við þeim tilmælum, sem hv. þm. Snæf. beindi til hans.

Hv. þm. Snæf. sagði, að hér væri um leiðréttingu að ræða, þar sem þessi ákvæði hefðu verið felld niður í þinginu af vangá og nú væri aðeins farið fram á, að þau væru tekin upp aftur. Ég held, að þetta sé mesti misskilningur, þetta hafi verið gert alveg viljandi. Þá voru margar hafnir eða flestar hafnir, sem ekki höfðu lögveð. Og þegar gerð voru um þetta ein l., þá voru menn á eitt sáttir um það, að ekki væri hægt eða rétt að láta sumar hafnir, en ekki aðrar, hafa lögveð. Og þm. aðhylltust það þá, að réttara væri að fella þennan rétt alveg niður, sérstaklega með tilliti til þess, að það hafði ekki borizt kvörtun sérstaklega frá þeim höfnum, sem ekki höfðu lögveðsrétt.

Hv. þm. Snæf. sagði, að Reykjavíkurbær hefði þegar skaðazt á þessu. Ég óska fyrir mitt leyti eindregið eftir því, að hv. þm. Snæf. leggi fyrir n. sannanir fyrir því, hver sá skaði sé og hvað hann sé mikill vegna þess, að Reykjavíkurbær hefur ekki lögveðsrétt. Og það er vitanlega hægt að færa fram sönnur um það, alveg upp á eyri, hvað það nemi miklu, ef Reykjavíkurbær hefur skaðazt á þessu.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Snæf., að Reykjavíkurbær hefur byggt sína höfn með miklu minna framlagi frá ríkinu en aðrar hafnir hafa notið. En það þýðir hins vegar ekki að neita því, að Reykjavíkurhöfn hefur ýmsa aðstöðu og hlunnindi fram yfir aðrar hafnir á landinu og hefur lengi haft. Og nú er svo að segja öll vara, sem til landsins er flutt, fyrst flutt til Reykjavíkur og Reykjavíkurhöfn því borgað tvöfalt gjald af þeirri vöru, þegar hún kemur í höfn og fer úr henni. Þetta er aðstaða, sem Reykjavíkurhöfn hefur fram yfir aðrar hafnir, og það er styrkur, sem er ámóta og greitt væri til hafnarinnar úr ríkissjóði, því að fólkið, sem býr úti um land, þarf að borga þetta til hafnarinnar, og er rétt að minna á það.

Það er síður en svo, að ég vilji á nokkurn hátt láta Reykjavíkurhöfn standa verr að vígi til þess að afla sér tekna heldur en aðrar hafnir, enda hefur hún geysiþýðingu fyrir atvinnulíf og verzlun landsins. En það verður þó að færa rök fyrir hlutunum, áður en hægt er að koma með slíkar kröfur eins og þessar, að Reykjavíkurhöfn hafi rétt, sem aðrar hafnir hafa ekki og hafa ekki farið fram á. Og það verður þingið að gera sér ljóst, að þegar það tekur afstöðu til lögveðs, þá er slíkt ekki bara bundið við Reykjavík, heldur lögveðsréttur fyrir hafnarsjóði almennt úti um land.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Snæf., að með þessu frv. um Reykjavíkurhöfn sé aðeins um leiðréttingu að ræða á því, sem gert hafi verið af vangá. Þetta ákvæði var ekki fellt niður af vangá. Það var mjög vel athugað, og niðurstaðan varð sú að fella niður lögveð þetta alltaf og alls staðar.

Þá sagði hv. þm. Snæf. orð, sem ég tel ógætilegt af honum að láta sér um munn fara. Hann sagði, að Reykjavíkurhöfn hefði verið svipt rétti til þess að taka gjöld af bryggjum einstaklinga. Reykjavíkurhöfn neitar því, að það beri að skilja þetta ákvæði svona, eins og hv. þm. Snæf. sagði, og það ber heldur ekki að skilja ákvæðið þannig, að hún megi ekki taka gjöld af bryggjum einstaklinga. En slík yfirlýsing sem þessi mundi veikja málstað Reykjavíkurhafnar, ef málaferli risu út af þessu. Það er því ekki rétt, að Reykjavíkurhöfn hafi verið svipt þessum rétti, það var heldur aldrei meiningin.

Ég hef tekið það fram, að ef það kynni að verða svo seinna meir, að einhver dómstóll, sem ekki teldi sig bundinn við orðalag þeirra, sem settu l., kynni að komast að þeirri niðurstöðu, að þetta væri ekki löglegt, þá vildi ég til þess að taka af öll tvímæli fella niður 4. mgr. 9. gr., en um það varð ekki samkomulag. En hins vegar taldi n. rétt, að það kæmi skýrt fram, að hafnarsjóðir hefðu vafalausan rétt til þess að taka bryggjugjöld af skipum og vörugjöld af vörum, sem fara um hafnarmannvirki einstaklinga, þar sem hafnarsjóðir hafa komið upp hafnarmannvirkjum.