15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Ég vil benda hæstv. forseta á, að þingsköpin eru til að vernda rétt þm., til þess að tryggja þeim málfrelsi. svo að þeir í hverju máli geti gert grein fyrir hugmyndum sínum og afstöðu, og það er misnotkun á þingsköpum að beita þeim til þess að forða hæstv. ríkisstj. frá réttmætum ádeilum. Ég vil minna hæstv. forseta á, að það er hægt að brjóta lög með misnotkun á þingsköpum, og ég minni enn fremur á, að þeir flokkar, sem nú mynda ríkisstj. á Íslandi, eru sömu flokkarnir sem á sínum tíma brutu stjórnarskrána með því að samþykkja að svipta þjóðina rétti til kosninga, þegar l. samkv. bar að kjósa. Það er skylda hæstv. forseta að vernda rétt þm. gagnvart ríkisstj., sem mynduð er af þeim flokkum, sem af dómum reynslunnar er ekki trúandi til að halda stjskr., lög eða þingræðisvenjur landsins. Forseti hefur að vísu valdið, en ég stend á réttinum.