22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

85. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Pétur Magnússon:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. tók fram, þá var ég ekki á fundi n. þegar þetta var rætt þar.

Ég játa, að það er ekki annmarkalaust að tryggja þessi gjöld með lögveði í skipunum. Það er rétt hjá hv. þm. Barð., að hugsanlegt er að það valdi tapi og áþægindum, ef hafnargjöldin eru látin falla á skip. Hins vegar er þar um atvik að ræða, sem ekki skipta verulegu máli og eru þess eðlis, að eigendur skipanna ættu að geta tryggt sig gegn þeim. Hér er ekki um svo há gjöld að ræða, að þau skipti verulegu máli um veðhæfni skipa. En hitt liggur í augum uppi, að fyrir hafnarsjóðina er þetta allmikilsvert ákvæði, að þessar tekjur séu fulltryggðar, og í ýmsum tilfellum ætti það að vera hagræði fyrir skipin, að þau séu ekki stöðvuð, þótt þau eigi ógreidd gjöld, því að hafnirnar geta hindrað, að skipin fái afgreiðslu, með því að gera lögreglustjóra aðvart um, að þau eigi ógreidd gjöld, og eru þau þá ófrjáls ferða sinna, unz gjöldin eru greidd. Það er því visst hagræði fyrir skipin sjálf, að hafnargjöldin séu tryggð svona, og öryggi fyrir hafnirnar, og þegar þetta er athugað, þá finnst mér sannarlega ekki, að gallarnir séu svo veigamiklir, að ástæða sé til að hrekja frv. milli deilda, og ég mun því greiða atkv. á móti brtt.