23.10.1947
Efri deild: 8. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

4. mál, útgáfa krónuseðla

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Þetta frv. krefst ekki langrar framsögu. Það er, eins og frv. hér á undan, lagt fram til staðfestingar brbl. áður útgefnum. Breyt. miðar að því að tvöfalda þá fúlgu, sem gefin er út í krónuseðlum. Það leiðir af sjálfu. sér, að eftir því sem kaupmáttur krónunnar er minni, því fleiri peninga þarf að hafa í gangi. Ég vildi hér einnig gera það að till. minni, að seðlarnir yrðu hafðir úr betra efni, því að úr því efni, sem þeir eru nú, verða þeir að druslum í vösum manna og pyngjum, nema því betur sé með þá farið. Annars er fjhn. sammála um að mæla með frv. óbreyttu, og sé ég ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar.