15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Það er sýnt, að ekki er ætlunin að ræða þetta frv., því að því verður ekki neitað, að öll framkoma af hálfu hæstv. ríkisstj. í sambandi við það er á þann veg, að litlir möguleikar eru á að ræða náið frv. sjálft. Hins vegar hefur af hálfu hæstv. ríkisstj. verið gefið tilefni til víðtækra umr. um ýmis önnur atriði. Ég hef áður rætt þetta frv. eins og mér var unnt með svo litlum undirbúningi sem þm. gafst til að athuga það. Ég mun því ekki, með því að búið er að ákveða ræðutímann 15 mín., ræða frv. almennt, en vildi minnast á nokkur atriði að gefnu tilefni.

Hæstv. forsrh. minntist á, að ég hefði í nefnd Landssambands íslenzkra útvegsmanna samþ. og undirskrifað vissar yfirlýsingar. Ég vil í þessu sambandi upplýsa, að ég hef aldrei verið fulltrúi í neinni nefnd L.Í.Ú. og aldrei mætt sem fulltrúi á fundum þess og er ekki einu sinni í því. Hins vegar fór L.Í.Ú. þess á leit við mig, að ég mætti á fundi í sambandinu, og veitti mér þar málfrelsi, en ég hef aldrei undirskrifað neinar till. frá L.Í.Ú. Auk þess var ekkert í þessu plaggi frá L.Í.Ú., sem ég hef verið á móti. Það, sem hæstv. forsrh. reyndi að snúa út úr, var það, að þegar fulltrúar L.Í.Ú. gerðu það að till. sinni, að tryggja bæri fast lágmarksverð fyrir bátafiskinn, þá töldu þeir, að það verð, sem ákveðið var, því aðeins dygði, að allur aðalkostnaður yrði óbreyttur. Þetta virðist sanngjarnt og eðlilegt, og ég hef aldrei verið á móti því. Hins vegar er það, sem þarf að gera í þessu sambandi, að fá samninga milli þeirra, sem gera út, og þeirra, sem vinna hjá þeim. Enn fremur er það ekki rétt hjá hæstv. forsrh., að það sé meining mín, að ósanngjarnt sé, að þær sjávarafurðir, sem seljast með mjög hagstæðu verði, séu seldar í fylgd með þeim, sem síður seljast. Þvert á móti tel ég það eðlilegt, og það er misskilningur hjá hæstv. forsrh., að ég sé á móti því. Hins vegar benti ég á ákvæði í þessu frv., sem gefur ríkisstj. heimild til þess, að hún geti verðmiðlað á milli tegunda, er má selja á háu verði, og hinna, sem áhætta fylgir. En ef farið er inn á þetta í stórum stíl, getur það orðið til tjóns fyrir sjávarútveginn, því að margar útflutningsvörur eru seldar með síhækkandi verði og ekki bundnar við sölu hinna verðlægri tegunda. Ég benti á, að hættulest væri að gefa ríkisstj. heimild til að taka þannig stórar upphæðir af sjávarútveginum, enda er ekki gert ráð fyrir neinum smáræðishagnaði ríkissjóðs af þessu, þar sem hann er áætlaður nægur til að greiða allar ábyrgðir, sem á ríkissjóð kynnu að falla bæði frá því í ár og í fyrra.

Það var gaman að heyra til hæstv. forsrh., þegar hann var að lýsa því, hve vondir kommúnistar hefðu verið við stjórnina. Þeir hefðu tínt allt til og reynt að sverta allar hennar aðgerðir og áform og alveg sérstaklega ásakað hana fyrir að ætla sér að koma á gengislækkun, en það hefði nú reynzt eitthvað annað. Þessi orð hæstv. forsrh. eru brosleg vegna þess, að hér er skýrt frá því áformi, sem ríkisstj. hefur undanfarið verið að bögglast við. Ráðh. hafa verið að láta sér detta hitt og þetta í hug, m.a. gengislækkun, en þeir hafa orðið að gefast upp, þegar þeir hafa orðið varir við álit þjóðarinnar. Það, að stjórnin hefur ekki reynt að koma fram áformi sínu um gengislækkun, sýnir aðeins hennar eigið ístöðuleysi. Vegna almenningsálitsins hefur ríkisstj. neyðzt til að taka upp sumar af till. okkar sósíalista varðandi sjávarútveginn, og henni hefði verið sæmra að taka þær upp allar, því að þá væri tryggt, að vertíðin gæti hafizt nú eftir nýárið.

Að lokum vildi ég segja þetta: Mér þykir leitt, hve lítill tími hefur gefizt til að ræða þetta mál, því að ég veit, að jafnvel núv. hæstv. ríkisstj. mun sjá, að þær ráðstafanir, sem felast í þessu frv., eru algerlega ófullnægjandi. Frv. þetta, ef að l. verður, mun verða til þess að draga úr sjávarútveginum á næsta ári, en ef skaplegur tími gæfist til umr. og athugana, tel ég, að fást mundu verulegar breytingar til bóta.