17.11.1947
Efri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, var sent landbn. Ed. frá ríkisstj., og óskaði hún þess, að n. flytti frv. inn á þingið. Landbn. varð sammála um það, að engin ástæða væri til þess að neita hæstv. ríkisstj. um þá ósk að flytja frv. þetta, og þess vegna er frv. komið inn á þing frá landbn.

Frv. er ekki stórvægilegt, en hér er um að ræða breyt. á eldri l. um forkaupsrétt á jörðum, og aðalbreyt., sem hér er um að ræða, er sú, að í frv. færist kaupréttur sveitarfélaga fram yfir kauprétt leiguliða, ef þeir hafa búið skemur en fjögur ár samfleytt á leigujörð sinni, þegar salan fer fram. Hér getur verið nokkur spurning, hvort árafjöldinn, sem tilgreindur er, skuli vera þetta hár. Ég vildi leggja til, að þetta yrði bundið við þrjú ár, en hef þó skrifað undir álitið, sem samþ. var af landbn., en það var óbreytt eins og mþn., sem fjallaði um mál þetta, gekk frá því. Landbn. þessarar d. setti inn í 2. gr. frv. ákvæði um jarðhita, sem í raun og veru hlýtur að teljast með öðrum gæðum jarðarinnar.

Ég held, að það verði alls ekki svo lítið gagn að breyt. þeim, sem gerðar hafa verið með þessu frv., því að áður hafa menn sniðgengið hreppsnefndirnar, er um sölu á jörðum var að ræða. Þetta frv. ætti því að draga mjög úr jarðabraskinu, en frv. leiðir það ekki af sér, að fullkomlega sé fyrirbyggt jarðabrask, því að hreppsnefndir geta ekki gert við því, ef t.d. er skipt á húsi í bæ og jörð í sveit. Það er ekki hægt fyrir hreppsnefnd að bjóða slík skipti. Landbn. hefur gert ráð fyrir því, að brtt. kæmu fram við frv. og ef til vill efnisbreytingar. Hér eru t.d. engin ákvæði um uppboðsjarðir, hver hafi forkaupsrétt þar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. nú, en geri ráð fyrir, að landbn. athugi það að nýju, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr.