17.11.1947
Efri deild: 20. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan við þessa umr. málsins segja til um skoðun mína varðandi eitt atriði, sem breytt er í frv. þessu frá því, sem áður var. Ég hreyfi þessu nú til að gefa hv. þdm. kost á því að segja álit sitt á þeim breyt., sem felast í frv. frá eldri l., og þeim stefnumun, sem í þeim felst. Í fyrsta lagi, eins og hv. frsm. tók fram, þá vantar í frv. ákvæði um það, hvernig fara skuli með jarðir, sem seldar eru á nauðungaruppboði. Hvaða rétt hefur hreppsnefndin, er svo háttar, og hver er réttur ábúanda jarðarinnar? Ég tel, að hreppsnefnd skuli hafa rétt til þess að ganga inn í hæsta boð á uppboðinu. Í öðru lagi: Hvaða reglur gilda um jarðir, sem falla í erfðir til útarfa? Ég man nú eftir einu tilfelli, þar sem jörð er skipt til útarfa í fimmtán parta. Ef jörð er skipt til útarfa, á hreppurinn þá ekki rétt til að kaupa jörðina með útlagningarverði? Ég þekki mörg dæmi, þar sem jörðum hefur verið skipt til útarfa og meira að segja þar sem nokkrir af erfingjunum hafa verið búsettir vestur í Ameríku. Og ég vil því spyrja: Á hreppur ekki að hafa rétt til að ganga hér inn i? Ég tel, að hann eigi að fá að kaupa jörð, ef enginn ættingjanna notar hana, og það er spurning, ef ekki er um nána ættingja að ræða, hvort hreppur eigi ekki að hafa rétt til þess að kaupa jörðina á útlagningarverði.

Þessu vildi ég hreyfa núna til þess að heyra, hvernig menn taka þessu, áður en hv. landbn. tekur málið til athugunar að nýju og gerir brtt. við frv.