17.12.1947
Efri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Eiríkur Einarsson:

Þegar ég kvaddi mér hljóðs, var ætlunin að tala til frsm., en hann þurfti að fara af fundi. Í rauninni hef ég fátt að segja annað en það, sem fram kom í ræðu hv. þm. Dal. Hann gaf í ræðu sinni skýringu á því, hvers vegna við tveir gátum ekki fylgt þeirri brtt., sem hinir þrír bera fram á þskj. 196.

Nú hefur hv. þm. N-M. skýrt það málefni frá sinu sjónarmiði, og vildi ég því árétta skoðun okkar tveggja nm. með nokkrum orðum. Ég álit nú, að ef ætti að fara út í þá sálma, þá stæði þetta atriði nær erfðal. heldur en ábúðarl., og kemur það skýrast fram í því, sem segir í brtt. hinna þriggja þm. sjálfra, að það, sem þeir vilja, er. að forkaupsréttarhafi fái jörðina keypta á því verði, sem hún er lögð erfingjum til arfs. Nú vita það allir, að t.d. eftir gangverði og arfsverði skýtur nokkuð skökku við nú á tímum. Ég held, að þar sem um slíkt er að ræða til arfs, þá sé venjulega farið eftir fasteignamatsverði, en raun ber vitni um, að gangverð er allt annað verðlag heldur en fasteignamat, svo að þetta yrði af þessum ástæðum mjög mikil skerðing á eignarréttinum eins og hann liggur fyrir hverju sinni. En látum það vera. Hv. 1. þm. N-M. nefndi sem dæmi, að utanfarir hingað og þangað væru tíðar, t.d. til Ameríku. Það finnst mér ekkert afgerandi. Ef það hefur verið réttmætt á sínum tíma, að Íslendingar, sem höfðu verið hér heima, en voru búsettir í Ameríku og orðnir borgarar þar, mættu ekki eiga slíkan jarðarpart, þá er það einnig mál út af fyrir sig. Ég játa það, að það, sem hv. 1. þm. N-M. hefur fært hér fram, getur haft við nokkur rök að styðjast. Það getur undir vissum kringumstæðum verið óhentugt, að jarðir á þennan hátt, með útarfaskiptum, lendi sín í hverri áttinni, og getur óhagræði af því staðið fyrir ábúanda. Ég játa það, að þetta getur komið fyrir og orðið heldur til óhagræðis við eigendaskipti á jörðinni, að hún kemst í eign ýmissa erfingja. En ég álít, að það sé annað atriði, sem kemur hér til greina, sem frá mínu sjónarmiði veldur meira heldur en þetta hugsanlega óhagræði um ráðstöfun á jörðinni, og hv. 1. þm. N-M. gat alveg réttilega um það, að það væri eiginlega festan við gamlar erfðavenjur, sem héldi manni frá því að vilja fylgjast með svona lagaðri breyt., umfram þær ástæður, sem ég hef til greint, að þetta ætti heima í annarri lagasetningu heldur en kauprétti á jörðum. Það hefur lengi verið, að sá, sem í sveita síns andlitis hefur notað jörðina og bætt hana, að hún hefur orðið honum harla kær og hann hefur viljað vera þar til hins síðasta, og það er venjulega hans síðasti vilji, að þeir, sem honum eru næstir, skuli njóta þessara eignagæða sinna. Sú hugsun liggur þarna á bak við, sem er það geðþekk og kær, að ég játa það blátt áfram, að það veldur því, að ég vil ekki slá striki yfir það og segja: Þetta á engan rétt á sér, af því það veldur öryggisleysi um ábúðina og framtíðarfyrirkomulag um mat eignarinnar. — Það er nú líka svo um þessa útarfaparta, sem hér eru teknir til athugunar, að þótt það geti slegið á dreif eignarréttinum með þessu, þá eru þetta undir þessum kringumstæðum smáhlutir, sem hafa óðalsréttindi, og getur það því tæplega verið hættulegt þjóðfélaginu. Það er óðalseignin, sem liðast í sundur milli náinna skyldmenna, og ef þá langar til að eiga þetta áfram af tryggð við þennan part ættfeðra sinna, þá það, og ef þeir vilja selja það öðrum, þá er forkaupsrétturinn, sem áskilinn er með lagafrv., mjög hentugur. Það er gott, að það skuli vera séð við þeim leka í frv., sem fyrir var, það er einmitt til þess gert.

Ég vil svo enda mál mitt með því að segja, að það er mjög hentugt að einskorða sölu-, umráða- og eignarréttinn við nauðsynina, eins og gert er í frv., og hafa sem traustast um búið að fyrirbyggja brask með þessar eignir, og láta þar rétthafa verða sveitarfélagið og ábúendur.

Frv., eins og það liggur fyrir, með þeim breyt., sem hér liggja fyrir, finnst mér æskileg réttarbót og vona, að það verði samþ., en ég treysti mér ekki til að fylgja brtt. á þskj. 196.