08.03.1948
Neðri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Jón Pálmason:

Ég vil taka það fram út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um örðugleika á því að fá jarðir í verulega góða ábúð, et þeim er skipt til útarfa, að það er —alveg rétt, en það þarf ekki útarfa til. Það hefur komið fyrir, að það valdi örðugleikum að koma jarðeign á eina hönd, þótt ekki sé um að ræða nema börn hins fráfallna bónda, og í því efni er ekki nein breyt. hvað það snertir, þó að það geti í vissum tilfellum orðið fleiri menn, ef margir útarfar eru, heldur en ef böndin eru nær. Þetta fer eftir því, hvernig stendur á á hverjum stað. Viðvíkjandi aðalatriðinu í frv. þá verð ég að segja það, að þótt gengið sé inn á þetta, þá er það engin trygging fyrir því, að jarðir geti ekki farið í hendur þeirra, sem ekki er heppilegt að eigi þær, — utanhreppsmanna. Ég býst við, að það sé rétt, að það hafi verið leppaður kaupréttur á jörðum, ekki til þess að koma jörðinni úr höndum sveitarfélagsins, heldur til að varna öðrum einstaklingum að fá jörðina. Ég veit ekki um neitt dæmi, að jörð hafi verið seld þannig, þar sem sveitarstjórnin hefur ekki afsalað sér kaupréttinum, því að sveitarstjórnirnar hafa ekki fjármagn til þess að kaupa mikið af jarðeignum. Þess vegna er það út af fyrir sig ekki nein trygging, þó að það sé í sjálfu sér ekki neitt á móti því, að þetta séu 3 ár, fyrst á að láta þetta frv. ganga fljótt í gegn.