06.11.1947
Neðri deild: 14. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

67. mál, eignarnám byggingarlóða á Sauðárkróki

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 81, sem við þm. Skagf. flytjum, er flutt hér í hv. d. vegna tilmæla frá bæjarstjórn Sauðárkrókskaupstaðar. Og eins og fram er tekið í grg., þá er í frv. óskað eftir því, að Alþ. veiti heimild til að taka eignarnámi nokkrar óbyggðar lóðir á verzlunarlóðum bæjarins syðst í kaupstaðnum, sunnan við Sauðána, sem rennur niður sunnarlega í kaupstaðnum. — Í grg., sem frv. fylgir, eru færðar fram þær ástæður, sem bæjarstjórnin sérstaklega færir fram fyrir því að óska eftir þessari eignarnámsheimild, og ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það. Þær eru þar glöggt fram settar, og hv. þdm. geta kynnt sér þær, hver um sig. En ég skal aðeins geta þess, að þar kemur fram, að hér er aðeins að ræða um örfáar byggingarlóðir, en lóðir, sem bæjarstjórnin telur nauðsyn á að fá til notkunar sem allra fyrst til þess að reisa þar byggingar. Eftir því skipulagi, sem búið er að ákveða fyrir Sauðárkrókskaupstað, verður ekki leyft að byggja tvílyft íbúðarhús annars staðar en á þessum umræddu lóðum. Nokkuð af þessum lóðum er tún, og ekki hefur náðst samkomulag um kaup á þeim. Hefur því bæjarstjórnin séð síg til neydda að leita til Alþ. um eignarnámsheimild þessa. — Það mun vera algert samkomulag innan bæjarstjórnar Sauðárkrókskaupstaðar um þetta, og væntum við flm. frv., að hv. þd. sjái, að hér er um sanngirniskröfu að ræða, og muni því samþ. þessa eignarnámsheimild, sem hér er farið fram á að fá.

Ég mun ekki hafa þessi orð fleiri, en aðeins vitna í þær ástæður, sem hér eru færðar fram í grg. frv. Ég legg til, að frv. verði vísað til hv. fjhn., sem er víst vön að hafa þessi mál til meðferðar, og erum við flm. fúsir til að veita þeirri hv. n. frekari upplýsingar, ef hún skyldi óska eftir því.