27.02.1948
Neðri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1180 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

67. mál, eignarnám byggingarlóða á Sauðárkróki

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég býst nú við, að hv. flm. þessa frv. finnist ekki, að afgreiðsla þessa máls hjá fjhn. hafi gengið vonum framar, og vil ég biðja þá velvirðingar á því, hversu fjhn. hefur dregið lengi að afgr. þetta mál.

Eftir að fjhn. fékk málið til athugunar, hefur hún orðið sammála um að fallast á eignarnámsheimild þá, sem felst í frv., og leggur til, að málið nái fram að ganga. En innan n. urðu nokkrar umr. um það, að setja skuli inn í frv. ákvæði um það, að þegar bæjarstjórn leigir lóðir, sem teknar hafa verið eignarnámi, verði lóðarleigan endurmetin á tilteknu árabili með tilliti til verðlagsbreytinga og verðhækkunar lóða, einkum er verðhækkunina leiðir af aðgerðum sjálfs bæjarfélagsins eða opinberra aðila. Bezt fer á því, að almenn ákvæði verði sett um þetta í löggjöfinni, en t.d. er því nú svo háttað í Rvík varðandi hafnarlóðir, sem eru í leigu, að leigan er endurmetin á 5 ára fresti. Nú liggur fyrir þinginu frv. til l. um ræktunarlönd og byggingarlóðir í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum. Einn kafli þeirra l. fjallar um byggingarlóðir, not þeirra og leigu, og virðist því eðlilegast, að sjónarmið þau, sem ég nefndi, komi þar til álita. N. leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt, og ég vænti þess, að málið geti greiðlega gengið gegnum hv. þd. og að sá dráttur, sem orðinn er á afgreiðslu málsins af hálfu fjhn., komi ekki að sök.