04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

173. mál, skipun prestakalla

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti. Eins og sjá má á grg., hef ég leyft mér að flytja þetta frv. skv. ósk safnaðarfundar Akureyrarsóknar, sem haldinn var 21. sept. s.l., þar sem samþykkt var að vinna að því að fá l. um skipun prestakalla breytt þannig, að framvegis skuli vera tveir sóknarprestar á Akureyri. Um þetta liggja og fyrir meðmæli frá héraðsfundi Eyjafjarðarprófastsdæmis. Málinu var svo vísað til kirkjumrn., sem síðan leitaði umsagnar biskups, og mælir hann á þann veg, að full þörf sé á því, að sóknarprestar á Akureyri verði tveir, m.a. vegna stóraukinnar fólksfjölgunar þar á síðustu árum. En íbúum prestakallsins hefur fjölgað um helming á s.l. 21 ári, eða síðan núverandi sóknarprestur tók við embætti þar, og eru þeir nú orðnir milli 7 og 8 þús. auk fjölda aðkomufólks, sem dvelur þar oft í lengri tíma, svo sem skólafólk. Þegar breyt. á l. um prestaköll í Reykjavík voru gerðar árið 1940, þá var gert ráð fyrir því, að ekki megi ætla presti fleiri en 5000 sóknarbörn. Hér væri þá vel í lagt, ef sóknarbörnin væru milli 2 og 3 þús. fleiri en þar er gert ráð fyrir. Akureyrarbær er í örum vexti, og má því enn búast við mikilli fólksfjölgun á næstu árum. Ég get þess ekki í grg., að sóknarpresturinn á Akureyri hefur verið heilsuveill undanfarið, og hefur hann orðið að taka aðstoðarprest, sem nú hefur þjónað í eitt ár, og stendur til að halda því fyrirkomulagi áfram, ef þetta frv. verður ekki samþ.

Þá vil ég aðeins minnast á fjárhagshlið málsins, því að sumum hv. þm. gæti fundizt, að hér væri um aukin útgjöld hins opinbera að ræða með því að stofna þarna nýtt embætti. En ef menn líta á málin eins og þau liggja fyrir, þá sést, að um engin aukin fjárútlát er að ræða. Akureyrarprestakall nær yfir 3 sóknir, en vegna heilsubrests sóknarprestsins hefur einni þeirra, Glæsibæjarsókn, verið þjónað undanfarið af prestinum á Möðruvöllum, en eftir að aðstoðarpresturinn kom, hefur þjónusta þeirrar sóknar aftur fallið undir Akureyri. Meðan Glæsibæjarsókn var þjónað af Möðruvallapresti, var honum greitt það aukastarf að fullu, en ef þetta frv. verður samþ., fellur það starf undir sóknarprestana á Akureyri. Þá hefur verið gerður samningur um aðstoðarprestinn og honum greidd full prestslaun úr ríkissjóði, og er mér kunnugt um, að sá samningur mun verða framlengdur, ef frv. þetta verður ekki að lögum.

Ég vil að lokum undirstrika nauðsyn þessa máls, þar sem prestakallið er orðið svo fjölmennt og umdæmið stórt og erfitt og enn fremur það, að Akureyrarprestar hafa jafnan skipað öndvegissess þar nyrðra, verið t.d. vígslubiskupar eða gegnt öðrum mikilvægum störfum, þannig að sóknarprestsstarfið á Akureyri er ofvaxið einum manni. Ég vona, að hv. þm. sjái, að full sanngirni mælir með þessu frv., og vona, að það fái hraðbyr gegnum þingið, því að það er ósk sóknarnefndarinnar, að það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir, komi sem fyrst til framkvæmda. Ég legg til, að frv. verði svo vísað til 2. umr. og menntmn.