22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1186 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

173. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram af hv. þm. Ak. og hefur gengið gegnum hv. Nd. Nú er ráðgert mjög að draga saman rekstur ríkisins og spara á honum, en þó er nú þetta frv. um að fjölga um einn embættismann. En það er nú þannig, að eftir því sem fólkinu fjölgar í landinu og flyzt til, er oft og tíðum ekki hægt að komast hjá því að fjölga embættismönnum á vissum stöðum. Og þannig er það um prestana. Prestaköllin hafa mjög verið færð saman á seinni árum. Ég hygg, að prestar séu orðnir um helmingi færri en þeir voru fyrir nokkrum áratugum. En þó hefur orðið að fjölga þeim þar, sem fólkið hefur þyrpzt mest saman. Nú er það svo um Akureyri, að það er talið af kunnugum, t.d. söfnuðinum sjálfum og héraðsfundi Eyjafjarðarprófastsdæmis, að það sé ofvaxið einum presti að þjóna þessu prestakalli. Á síðasta manntali voru í prestakallinu 7258 íbúar, þar af 6611 í Akureyrarbæ, auk dvalarfólks, sem jafnan er margt á Akureyri yfir veturinn. Nú ber að játa, að íbúatalan ein gefur ekki til kynna, að Akureyrarprestur hafi meira starf heldur en þjóðkirkjuprestarnir í Reykjavík, því að þetta er ekki hærri tala en kemur á hvern þeirra. En það er ekki öll sagan sögð með íbúatölunni. Fyrir utan Akureyrarkirkju þarf Akureyrarprestur að þjóna Lögmannshlíðarkirkju, sem er uppi undir fjalli nokkuð fyrir utan Akureyri og ekki góður vegur þangað. En þessi gamla kirkja er nú á stað, þar sem hún er ekki sem bezt sett nú orðið. Fáir bæir eru nú kringum Lögmannshlið, aðallega norðan við, sem eiga verulega hægt um að sækja kirkjuna. En niðri við sjó, töluvert langt frá Lögmannshlíð, er vaxið fjölmennt þorp. Og þar er engin kirkja. Nú er það svo, að íbúar Glerárþorps sækja lítið kirkju í Lögmannshlíð. Þess vegna hefur það verið svo undanfarið, að Glerárþorp heyrir undir Akureyrarprest og hann hefur haldið þar guðsþjónustur. Er það óhjákvæmilegt, ef þeir menn eiga að hafa prestsþjónustu. Þess vegna má líta svo á, að sóknirnar séu raunverulega þrjár, sem Akureyrarprestur hefur að þjóna. Þegar þessa er gætt og einnig hins, hve mannfjöldinn er mikill, held ég flestum verði skiljanlegt, að þetta er ofvaxið einum manni. Sem stendur mundi ekki verða mikill útgjaldaauki að þessari breyt., því að eftir því, sem ég bezt veit, hefur Akureyrarprestur nú styrk til þess af almannafé að halda aðstoðarprest.

Menntmn. hefur athugað frv., og hefur meiri hl. hennar fallizt á að mæla með því af þeim rökum, sem ég hef nú fært fram. Einn nm. áskildi sér óbundnar hendur, og hv. 1. þm. Reykv. var fjarstaddur, og er því ekki vitað um hans afstöðu.