22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

173. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég er nokkuð undrandi yfir afgreiðslu þessa máls frá menntmn. Eins og hv. frsm. gat um, er nýlega búið að ræða mjög mikið um það á fundum á Alþingi, hvernig skuli dregið úr embættakostnaði. Og fjmrh. hefur við afgreiðslu fjárl. fengið heimild til þess að sjá um, að ekki verði ráðinn neinn nýr starfsmaður í þjónustu ríkisins nema með hans samþykki. Þetta er a.m.k. tákn þess, að ekki er ætlazt til að setja inn óþarfa embættismenn. Álit er komið frá sparnaðarnefnd, sem fer í þá átt að gera ríkisrekstur nokkru einfaldari og ódýrari. Hér í hv. d. hefur verið rætt um það og í Sþ. að draga mjög úr rekstri, eftir því sem unnt væri. Og tafir á afgreiðslu fjárl. stafa mest af því, að það er verið að reyna að gera tilraunir til að draga úr óþarfa kostnaði,frekar en að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum. Af þessum ástæðum var borið fram frv. um að fresta framkvæmdum ýmissa annarra laga, svokallaður bandormur, svo að hv. þm. er ljóst, að stefnan er sú að reyna að draga úr útgjöldum ríkisins eins og frekast er unnt. Samt sem áður kemur á síðustu stundu frv. um að bæta við einu prestsembætti. Og það er látið ganga með svo miklum hraða gegnum menntmn., að ekki virðist tími til að hafa alla nm. við. (Rödd: Fundur var á sama tíma og venjulega.) Auk þess var jafnvel ekki menntmrh. gefið tækifæri til að segja álit sitt um málíð. Og nál. ber ekki þess merki, að málið hafi verið nokkuð rannsakað í kjölinn. Aðalrök hv. frsm. eru þau, að safnaðarfundur í þeim söfnuði, sem á að taka á móti þessum presti sér að kostnaðarlausu, mælir með því. Það eru ekki ákaflega sterk rök, því að hvaða söfnuður mundi ekki vilja fá fleiri presta, ef það væri honum að kostnaðarlausu? Menn geta haft gaman af að heyra nýjan kennimann, þó að ekki væri neitt annað.

Ég vil benda á, að það er misskilningur hjá hv. frsm., að þessu fylgi sáralítill kostnaður. Það hefur fyrst og fremst þann kostnað, að embættið er greitt úr ríkissjóði með 26–28 þús. kr. með núverandi dýrtíð. Þetta er nú ekki ákaflega stórkostleg upphæð. En þetta hefur annað í för með sér. Það bindur ríkissjóð þeirri skyldu, sem mér skilst n. hafa gengið fram hjá, að það verður að byggja yfir þennan prest, og það kostar ekki minna en 300 þús. kr. Samkv. l. um hýsingu á prestssetrum, sem menntmn. og hv. frsm. börðust fyrir að fá í núverandi horf, er það skylda að byggja a.m.k. 2–4 bústaði á ári, að ég held. Og till. frá mér um það, að byggingar á prestssetrum ríkissjóðs úti á landi skuli ganga fyrir, var felld. Þess vegna var undirstrikað, að ganga skyldu fyrir byggingar í kaupstöðum. Og á s.l. ári var m.a. öllu slíku fé varið til prestshúsa hér í Reykjavík. Með tilliti til þessa er ljóst, að þessari till. fylgir sá böggull fyrst og fremst, að það verður í mjög náinni framtíð að byggja prestshús yfir þennan nýja prest. Að þess hefur ekki verið krafizt fyrir hinn núverandi prest, stafar af því, að hann er húseigandi sjálfur. En það er áreiðanlegt, að hinn nýi prestur mun ekki vera húseigandi. Og þá þekki ég illa hans herradóm, biskup lands vors, ef sonur hans verður hlutskarpastur þarna, ef ekki verður krafizt þess, að byggður verði bústaður á eftir.

En þetta hlyti einnig að draga annan dilk. Hafnarfjörður og Vestmannaeyjar og hver sá kaupstaður, þar sem fólki hefur fjölgað — og Hafnarfjarðarsókn stendur nálægt stærðarmörkum Akureyrar í dag —, gæti því, áður langt liði, farið fram á að hafa tvo presta. (Samgmrh.: Við höfum tvo presta.) Annar er fríkirkjuprestur og getur farið, hvenær sem er. Svo að þetta frv. er ekki eins saklaust og hv: frsm. vill vera láta.

Ég vil benda á, að undanfarið hafa ekki verið færri en upp undir 14 prestaköll laus, sem enginn hefur fengizt í. Sumpart er það vegna þess, að þau hafa ekki viðunandi bústaði. En engu síður er hitt, að fólk er þar svo fátt. Menn una ekki að vera prestar yfir örfáum sveitaheimilum. Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að Auðkúluhreppur, sem í eru tvær kirkjur, telur 13 bæi. Af þessari ástæðu hefur ekki fengizt neinn prestur að Hrafnseyri um tíma né í Grunnavík né að Stað í Aðalvík. Hvernig er þá farið að? Næsti prestur er látinn þjóna þessum örfáu bæjum gegn hálfum prestslaunum. Það eru m.ö.o. svo og svo margir prestar settir á hálf önnur laun vegna þess fyrirkomulags, sem er á þessum málum í landinu. Ég sé ekki annað en það sé aðkallandi mál að taka þessa skipun alla upp til gagngerrar athugunar og tel mjög misráðið að samþykkja þetta frv. eitt út af fyrir sig.

Um það atriði, sem mun eiga nokkurn þátt í því, að þetta frv. kom fram, að núverandi sóknarprestur á Akureyri, séra Friðrik Rafnar, hefur verið heilsulítill undanfarið og hefur fengið með leyfi ráðuneytisins að halda embættinu með fullum launum, þá er það ekki neitt fordæmi, því að slíkt er gert um aðra embættismenn. Sé ég ekkert á móti því, að hann héldi þessum fríðindum til næsta þings, þar til búið er að koma þessum málum á fastan grundvöll. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til þess á þessu þingi að flýta þessu máli svo mjög.

Ég vil einnig benda á, að það geta verið einhverjir aðrir staðir, sem eiga að hafa sinn prest, þótt ekki sé vegna fólksmergðarinnar. A.m.k. er einn staður á Íslandi, þar sem vel getur komið til mála, að prestur verði settur aftur. Ég tel það aldrei hafa verið gerlegt að nema prest af þeim stað, þar sem kristin trú var lögtekin á landi hér árið 1000. Prestsembætti þar þarf ekki að vera útgjaldaliður fyrir ríkissjóð. Presturinn gæti verið umsjónarmaður yfir Þingvöllum, eins og sá bóndi, sem þar er nú, og búið í þeim prestsbústað, sem þar er. Ég veit ekki, hvort þjóðinni er vansalaust, að enginn prestur situr á helgasta stað þjóðarinnar, þar sem kristin trú var fyrst lögtekin. Á þetta vil ég benda í sambandi við prestaskipunina yfirleitt. Einnig má benda á almennt, að störf presta eru óneitanlega nokkuð önnur en fyrir 50 árum, þar sem kennslustörfin eru nú að mestu í höndum kennara og skóla, ekki sízt í kaupstöðum. Þess vegna er engin nauðsyn á að hafa prestaköllin svo lítil svæði eins og áður, auk þess sem samgöngur eru meiri og betri en áður. Er alveg ljóst, að prestar geta nú þjónað miklu fleiri kirkjum, ef bílvegur liggur heim að hverri kirkju. Hins vegar er aðkallandi að athuga nýja skipun þessara mála, m.a. það, að í mörg ár hafa sum prestssetur verið prestslaus, en verið þjónað af nágrannapresti, sem hefur tekið hálf laun í því prestakalli fyrir að koma þar einu sinni eða tvisvar á ári. Ég mun því bera fram rökst. dagskrá, svo hljóðandi:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti fara fram athugun á l. nr. 45 16. nóv. 1907, um skipun prestakalla, og geri að lokinni þeirri athugun tillögur til nauðsynlegra breytinga á skipun prestakalla í landinu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég sé ekki, að stefnt sé í neinn voða með þetta mál, þó að þessi dagskrá sé samþ. Og að sjálfsögðu mætti gefa menntmrh. og fjmrh. vilyrði fyrir því að viðhafa enn um hríð þá skipun að greiða úr ríkissjóði aðstoðarpresti. Mætti fá álit fjvn. um þetta, jafnvel áður en þessu þingi er slitið. Þetta teldi ég sjálfsagt að gera vegna veillar heilsu viðkomandi prests. En ég sé ekki, að hlaupið sé að því að taka út úr eitt einasta prestakall án þess að athuga þessi mál í heild.

Það má vera, að afstaða mín sé tekin sem andúð gegn kristindómi. En svo er ekki. Og ég veit, að þetta getur á engan hátt spillt fyrir málinu. Ef það þætti að lokinni slíkri athugun alveg sjálfsagt að skipa prest á Akureyri til viðbótar, þá gæti verið jafnsjálfsagt að taka prest úr öðru héraði og sameina þannig fleiri sóknir, svo að ríkissjóður þyrfti ekki að bera kostnað af fleiri embættismönnum í þessari stétt en nú er.

Þá sýndist mér að málið gæti verið leyst með samkomulagi. Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta hina rökstuddu dagskrá.