22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

173. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það er frásögn um það í kunnri bók, að einn tiltekinn dag urðu tveir höfðingjar að vinum, og virðist það sama hafa skeð hér um þá sessunautana, hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. N-M., sem ekki eru ævinlega sammála, og þótt það sé náttúrlega mikill stigsmunur á því, hvað gerir þá nú að vinum, þá er það þó að vissu leyti skylt. Hv. 1. þm. N-M. var ákaflega hneykslaður á því, að jafnhliða því, sem talað væri um að draga saman ríkiskostnaðinn, þá væri stungið upp á því að stofna nýtt embætti. Hefur þetta aldrei skeð fyrr? Það var engu síður talað um það að draga saman kostnað við embættisrekstur hér fyrr á árum heldur en nú, t.d. þegar ég var unglingur, þá var það aðalmálið hjá hverjum frambjóðanda næst á eftir stjórnarskrármálinu, og eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, þá hefur tilflutningur fólks í landinu orðið til þess, að víða hefur orðið að fjölga embættum. Þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur, þá var hér bæjarfógeti, og hann hafði öll þau störf með höndum, sem eru nú hjá fjöldamörgum embættismönnum, og ég veit tæplega nöfnin á þeim öllum. Það er borgardómari, borgarfógeti, sakadómari og tollstjóri, og hann hafði störf borgarstjórans líka. Hvers vegna hefur þetta skeð? Það er vegna þess, að fólkið dregst hingað og störfin vaxa, og ég held, þegar á það er litið, þá séu embættismennirnir utan Reykjavíkur ekki of margir. Það er í Reykjavík, sem aðalríkisbáknið er, það veit hv. þm. Barð. vel sem form. fjvn. Hv. 1. þm. N-M. svaraði í sinni ræðu grg. frv., en ekki minni ræðu. Náttúrlega má svara grg. frv., en hann sagði beint, að n. byggði sitt álit á grg. frv. Ég get upplýst, að hún gerði það ekki. Menntmn. byggði sitt álit á mínum kunnugleika um málið, og ég tók fram í minni ræðu allt önnur rök heldur en í grg. er tekið fram, og þau voru ekki hrakin og hv. 1. þm. N-M. gerði enga tilraun til þess að hrekja þau rök, sem ég setti fram. Hann gerði mikið veður út af því, að tekið er fram í grg., að það hafi hlaðizt á prestinn á Akureyri mikil störf. Mér er kunnugt um, að sóknarpresturinn á Akureyri hefur mjög lítil störf nema sem tilheyra hans embætti, og það, sem hv. flm. á við, er það, að embættisstörfin hafi vaxið. Hann á við prófast og vígslubiskup, en það er náskylt, og einhver prestur verður að vera það, og finnst mér ekki óviðeigandi, að sóknarpresturinn á Akureyri sé vígslubiskup norðanlands og prófastur í Eyjafjarðarsýslu. Presturinn á Akureyri er ekki gamall maður, en það er satt, að hann hefur haft aðstoðarprest um tíma, sem er launaður úr ríkissjóði.

Hv. 1. þm. N-M. hélt, að ég væri með þessu máli vegna þess, að ég teldi mína sál í voða. Við vitum nú lítið um það, hverra sál er í voða, og ég býst við, að nýr prestur á Akureyri gæti lítið bjargað því við, a.m.k. á meðan ég er alþm. Ég á ekki beinlínis við það, að það sé svo bein leið til hins verri staðar að vera alþm., heldur hitt, að ég get litið notið prestsþjónustu á Akureyri, meðan ég þarf að vera hér, oft helming af árinu, en satt er það, að það mun ekki bæta sálir manna að vera á Alþingi.

Hv. 1. þm. N-M. talaði um, að það mætti létta af prestinum á Akureyri að þjóna Lögmannshlíð, því að það mætti láta Möðruvallaprestinn gera það, því að hann þjónaði ekki nema þrem prestaköllum. Nú er það svo, að þarna er um nokkuð miklar vegalengdir að ræða. Það er býsna langt utan frá Hillum og inn að Bakkaseli og ekki ævinlega hægt að renna það í bil, en presturinn getur þurft að vera í prestsþjónustu heima á heimilunum. Mér finnst, að það, sem hv. 1. þm. N-M. sagði um fjárlagaákvæðið, að ekki mætti bæta við starfsmanni nema með samþykki fjmrh., komi ekki þessu máli við, því að vitanlega tekur það ekki til þess, sem samþ. er með l. Þá sagði hann, að þetta mál væri ekki rannsakað. Ég veit ekki, hvað hann á við með því. Ég er þessu t.d. kunnugur og veit ekki, hver ætti að vera kunnugri þörfinni á nýjum presti á Akureyri hér í d. heldur en ég, og ég tel frv. nauðsynlegt. Út af því, að ég sagði, að ekki mundi leiða af þessu teljandi aukinn kostnað, fór hv. þm. Barð. að tala um, að það mundi þurfa að byggja yfir þennan prest. En auðvitað hefur Alþ. og fjárveitingarvaldið það í hendi sinni, hvað lagt er til þess, og ætli það yrði ekki nokkur bið á því, að ríkissjóður byggði yfir prestinn nú? Hann talaði um, að fleiri kaupstaðir mundu koma á eftir og heimtuðu tvo presta, en hann verður að athuga það, að það er enginn kaupstaður utan Reykjavíkur sambærilegur við Akureyri að fólksfjölda.

Að hinu leytinu er ég hv. þm. Barð. sammála um það, að það væri myndarlegt að hafa prest á Þingvöllum, en mér finnst það ekki koma heim við aðrar skoðanir hv. þm. að vilja stofna prestsembætti á Þingvöllum. Ég mun hins vegar, ef hann flytur frv. um það, fylgja því. Það er í þeirri dagskrártill., sem hv. þm. Barð. bar fram, ekkert sérstakt sagt, sem ræður því, hvort málinu er vísað frá á þennan hátt eða ekki, og kæmi þá aftur að samþykkja þál. um það, að nauðsynlegt sé að endurskoða l. um skipun prestakalla, þó að þetta sérstaka mál næði fram að ganga, og geri ég ráð fyrir, að það sé nauðsynlegt, því að alltaf er fólkið að flytjast til og aðstæðurnar í landinu að breytast, og þar af leiðandi er það, að það þarf eins um það og annað að taka tillit til kringumstæðnanna. Ég hafði ekki búizt við þessum löngu umr. um þetta mál og sízt, að það kæmu tvær ræður hvor á eftir annarri, sem ekki er hægt að gera neinn greinarmun á. Ég mun ekki tefja umr., en ef þessir hv. þm. vilja koma málinu frá, þá ættu þeir að gera það með því að samþykkja þessa rökstuddu dagskrá, en ekki með málþófi.