22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

173. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Út af ummælum hv. 1. þm. Eyf. um það, að í dag hefðum við gerzt vinir, ég og hv. 1. þm. N-M., vil ég benda honum á það, að mín afstaða til mála mótast alls ekki af því, hvaða menn bera fram mál, heldur af því, hvernig málin eru sjálf. Ég hef hins vegar orðíð var við, að þessi hv. þm. hefur hvað eftir annað lýst því yfir, að hann sé á móti máli, en vegna þess að búið sé að semja um þetta við hann í flokknum, þá sé hann sammála um, að það gangi fram. Ég hef aldrei látið setja slík höft á mig hér á Alþ., svoleiðis að hann þarf ekkert að undra það, þó að mín skoðun kunni einhvern tíma að falla saman við skoðanir þeirra, sem eru í öðrum flokkum heldur en ég. Ég vil benda hv. þm. á önnur ummæli úr þeirri merku bók, sem hann vitnaði í, þar sem segir: „Það góða, sem ég vil gera, það geri ég ekki, en það illa, sem ég vil ekki gera, það geri ég:“ Ég veit ekki betur en að þessi hv. þm. og allur hans flokkur hafi hvað eftir annað talað um það hér á Alþ., hvað miklu fé hafi verið sóað af fyrrv. ríkisstj. Hverjir koma svo með fjársóun í hverju máli nema fyrst og fremst hv. 1. þm. Eyf.? Hann fylgdi því að verja 4 millj. kr. í landshöfn í Hornafirði og 4 millj. kr. í iðjuver í Hornafirði. Það hefur ekki veríð nokkurt mál hér til útgjalda, sem hv. 1. þm. Eyf. hefur ekki verið alveg ákveðið með að eyða fé í, svoleiðis að ég held, að þessi ummæli í þessari ágætu bók megi heimfæra upp á hans persónu. Hv. þm. kom ekki nálægt því að hrekja þau rök, sem ég minntist á í þessu máli. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er kominn í d. og vildi þá gjarnan fá að heyra, hvort hann er sammála um að stofna nýtt embætti eftir þá gr., sem hann hefur fengið samþ. í 22. gr. fjárl., og ýmislegt annað, sem hann hefur hvatt þm. til að gera í sambandi við afgreiðslu fjárl.

Hv. frsm. hefur hvað eftir annað lýst því yfir, að hann hafi í öll þessi ár ekki látið sannfærast af neinum rökum, að undanteknu dýrtíðarmálinu, og það er ekki gaman að ræða við slíka menn. Ég sé ekki, hvað það getur skemmt þetta mál, að afgreiðslu þess sé frestað, ekki þar til þetta mál út af fyrir sig er rannsakað, heldur þangað til búið er að rannsaka þessi mál yfirleitt. Það getur komið út úr þeirri rannsókn, að nauðsynlegt sé að setja 1, 2 eða 3 presta á Akureyri, og það er þá engin goðgá að láta afgreiðslu þessa máls bíða, þangað til sú rannsókn hefur farið fram, og á móti því hefur hv. þm. ekki fært nein rök. Það eru engin rök í málinu, að presturinn á Akureyri þurfi að fara til að halda messu í Glerárþorpi, það er engin goðgá, að Glerárþorpsbúar yrðu að fara í hina veglegu kirkju á Akureyri til að hlusta þar á messu. Það er auðveldara fyrir þá að sækja kirkju þangað en að sækja kirkju eftir hinum hrjóstruga vegi, sem hann lýsti, upp að Lögmannshlíð, fyrst hann hefur engan manndóm til að biðja Alþ. um að leggja fé í þann veg, þó að engin sýsla hafi fengið jafnmikið af vegum eins og sýslan, sem hann er fyrir, og segi ég honum það til hróss. Ég teldi það mjög mikla ósanngirni, ef ekki væri hægt að komast að samkomulagi við menntmn. í þessu máli um það, að það væri gefin um það yfirlýsing af ráðh., að sú skipun yrði höfð á málinu þetta ár, að greitt yrði úr ríkissjóði það, sem þarf til þess að halda aðstoðarprest á Akureyri vegna heilsuleysis prófastsins, það væri sómasamleg afgreiðsla. Falli mín rökstudda dagskrá, mun ég bera fram við 3. umr. brtt. um að setja nýjan prest á Þingvöllum, og gæti þá hv. frsm., eftir því sem hann lýsti, fylgt því. Mun ég sætta mig við slíka afgreiðslu málsins, þangað til séð er, hvort hægt er að færa saman sóknirnar með tilliti til fólksfækkunar, en fjölga prestum þar, sem þess er þörf, vegna þess að fólkið hefur sótt á .ákveðinn stað. Í sambandi við þetta vil ég benda hv. þm. á, að í Reykjavík, sem hefur 50–60 þús. íbúa, eru ekki nema 5 prestar, og vígslubiskupinn í Reykjavík hefur miklu stærri sókn og fleiri menn að sjá um en vígslubiskupinn á Akureyri, að ég ekki tali um, þegar hann er látinn hafa aðstoðarprest, þar til búið er að koma þessum málum í rétt horf. Ég legg því eindregið til, að mín dagskrártill. verði samþ., og vænti þess, að hv. frsm. fallist á að samþykkja till. og viðurkenni, að þetta mál er sótt hér meira af persónulegum kunningsskap heldur en af þörf, því að það er það, sem ég fékk út af hans ræðu, að af því, að hann er persónulega kunnugur þessu máli, þá sé sjálfsagt að samþykkja það. En það eru fleiri sjónarmið, sem koma til greina, heldur en þetta eina sérstaka heimasjónarmið hjá hv. frsm.